Flestir þeir bílar sem koma á markað nú til dags eru almennt fín farartæki. Það hafa orðið miklar framfarir í tæknibúnaði bifreiða, munaðurinn hefur aukist, útblástur er almennt að minnka og þannig mætti áfram telja. Sem fyrr segir á þetta við um flesta bíla, alls ekki alla, sem kynntir eru til leiks sem hefðbundnar fólksbifreiðar (hér eru lúxusbifreiðar undanskildar).
Um leið verður erfiðara að kynna bifreið til sögunnar sem sker sig úr þegar horft er til gæða og þæginda. Það má þó segja að Toyota tekst ágætlega til með nýrri uppfærslu á mest selda bíl heims, Toyota Corollu, en ný uppfærsla af Corolla er væntanleg hingað til lands í næsta mánuði.
Eins og áður hefur verið fjallað um hér í bílablaði Morgunblaðsins er góð ástæða fyrir vinsældum Toyota Corolla-bifreiða víða um heim. Tegundin hefur þótt áreiðanleg, með lága bilanatíðni og yfirleitt verið kynnt til leiks á hæfilegu verði. Það er útlit fyrir að svo verði áfram.
Nýja Corollan er í einföldu máli sagt uppfærsla á 12. kynslóðar útgáfu þessarar vinsælu tegundar. Búið er að gera nokkrar breytingar til hins betra á hönnun og útliti bílsins, framgrillið hefur verið uppfært í takt við aðrar Toyota-tegundir, lítilsháttar breytingar hafa verið gerðar á LED-ljósabúnaði að framan og aftan, nýir litir eru kynntir til sögunnar og þá hafa töluverðar breytingar verið gerðar á innréttingu bílsins. Innréttingin er falleg og í Touring Sport-útgáfunni er hún eðli málsins samkvæmt sportlegri með rauðum saum.
Tækninni fleygir hratt fram í þessu eins og öðru. Toyota kynnir nú til leiks í Corollu það sem kallast á enskunni head-up-display, þar sem hægt er að fylgjast með hraða og akstursleiðbeiningum í framrúðunni. Þetta er jú að verða algengur fídus í nýrri bílum en hér er minnst sérstaklega á þetta þar sem eiginleikinn eykur öryggistilfinningu bílstjórans.
Þarf einnig að minnast á 10,5“ snertiskjá fyrir miðju mælaborðsins (skjárinn í eldri útgáfunni er 8“) sem gefur góða upplifun. Hægt er að tengja Apple Car Play með þráðlausum hætti þannig að bílstjóri getur notað þau snjallforrit sem finna má á símanum, hvort sem er til að hringja, hlusta á hlaðvarp eða tónlist, nota leiðsögn eða annað. Reyndar er leiðsagnarkerfi bílsins innbyggt og ekkert út á það að segja. Þá er skjárinn í mælaborðinu sjálfu 12,3“ og hægt er að stilla það með einföldum hætti eftir hentugleika hvers og eins.
Loks má minnast á ýmis öryggisatriði sem hafa verið uppfærð, og hefur mikið að gera með það hvernig bílinn skynjar umhverfi sitt – svo sem með árekstravara, bættri myndavél og fleira. Hér er um að ræða töluverðar framfarir sem eru að eiga sér stað og Toyota hefur lagt áherslu á.
Þá kemur bílinn með fimmtu kynslóðar hybrid-vél sem er til þess fallin að spara bæði eldsneyti og útblástur – sem einnig stillir verði bílsins í hóf.
En þá að reynsluakstrinum sjálfum. Bíllinn tekur vel utan um bílstjórann og bæði mælaborðið og upplýsingaskjárinn gefa ökumanni góða tilfinningu. Bifreiðin er rúmgóð fyrir ökumann og farþega í framsæti, en aftursætin bjóða ekki upp á nema hefðbundna stærð af einstaklingi.
Bíllinn liggur vel á veginum og var meðal annars reyndur í skörpum beygjum upp og niður brekku þar sem reynir á lága þyngdarmiðju bílsins. Þá liggur hann vel í langkeyrslu og það er ekki fyrr en um á 130 km/klst. hraða sem ökumaðurinn fer að finna fyrir hraðanum.
Þá hefur viðbragðsgeta bílsins verið aukin með auknum krafti í vélinni. Þetta getur til dæmis reynst vel í hringtorgum eða þegar skipt er um akrein, en viðbragðsgetan er þannig bætt að það er þess virði að minnast á hana hér.
Þá hafa allir aksturseiginleikar bílsins verið uppfærðir og þegar á þá reynir fyllist maður trúarglætu um að það kunni að vera styttra í sjálfkeyrandi bíla en okkur grunar. Bíllinn les aðstæður vel og aðstoðar ökumanninn við að halda sig á réttum hluta vegarins, án þess þó að maður finni mikið fyrir því. Á þetta reynir sérstaklega í langkeyrslu og er til þess fallið að auka bæði öryggi og þægindi.
Reynsluaksturinn fór fram bæði á 1,8 l og 2 l útgáfum af bílnum. Eðli málsins samkvæmt var 2 l útgáfan kraftmeiri en maður finnur svo sem ekki mikinn mun eftir að komið er yfir um 60 km/klst. hraða. Stærri vélin, þ.e. 2 l bíllinn, er 196 hestöfl og fer upp í 100 km/klst. hraða á 7,4 sekúndum. Minni vélin, 1,8 l, er um 140 hestöfl og er 9,1 sekúndu upp í sama hraða.
Allt snýst þetta að lokum um notagildið. Í ljósi þeirrar uppfærslu sem gerð hefur verið á bílnum, þeirra framfara sem hafa orðið í tæknibúnaði og öryggisatriðum og eftir að hafa reynsluekið bílnum má gera ráð fyrir því að Toyota Corolla verði áfram meðal vinsælustu bílanna hér á landi. Bíllinn hentar vel þeim sem vilja hefðbundinn fólksbíl sem býður upp á þægindi, öryggi og fagleika. Það á við um meginþorra bifreiðaeigenda.
Toyota Corolla
Kemur í 1,8 l og 2,0 l bensín-hybrid
Eldsneytisnotkun í blönduðum akstri er áætluð um 4,4 (l/100 km)
7,4 – 9,1 sek. Í 100 km hraða
Losun í CO2 blönduðum akstri er 98-100 g/km
Umboð: Toyota á Íslandi
Verð: 5,8 – 6,6 m.kr.
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 21. febrúar