Reynsluakstur á nýjum bíl snýst ekki bara um tæknina og helstu nýjungar – heldur miklu frekar upplifun. Að setjast inn í nýjan bíl, keyra hann um göturnar, finna hvernig hann rennur, gefa aðeins í þegar færi gefst og svo framvegis.
Þar var hugurinn staddur við reynsluakstur á nýjum Audi Q8 e-tron rafmagnsbíl. Það verður að viðurkennast að það var spennandi að keyra bílinn, sjálfan leiðtogabílinn, meðvitaður um það hlutverk sem hann hafði nýlega gegnt á leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi um miðjan maí. Það að setjast við stýri fól þó frekar í sér það að setja sig í hlutverk lögreglumannanna sem keyrðu bílana frekar en þjóðarhöfðingjanna sjálfra, þannig að það var auðvelt að stilla væntingum þessarar stundar í hóf. Spennandi verkefni þó.
Sem kunnugt er voru fluttir um 50 þannig bílar til landsins fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fór hér á landi um miðjan maí. Bíllinn vakti verðskuldaða athygli og eins og Morgunblaðið greindi frá strax eftir fundinn urðu bílarnir eftir í landinu. Meginþorri þeirra var seldur aðeins nokkrum dögum eftir fundinn.
Snúum okkur þó að bílnum sjálfum, því þetta snýst jú um hann. Audi Q8 skartar nýju útliti þar sem bílaframleiðandinn ætlar greinilega að stimpla sig inn í harðri samkeppni við aðra keppinauta, svo sem BMW iX, Mercedes EQS, Porsche Taycan og Lexus RZ 450e svo tekin séu dæmi um nýlegar og sportlegar týpur af rafmagnsdrifnum lúxusjepplingum. Audi Q8 er hvort í senn íhaldssamur en um leið framsækinn. Framhlið hans hefur verið endurnýjuð með nýju grilli (sem er stærra en áður) og nýrri LED-lýsingu sem aðlagar sig vel að umhverfinu.
Innanrýmið er flott og í alla staði þægilegt. Þjóðverjinn er ekki að fara mikið út fyrir rammann, sem er þó í lagi því þú veist hvað þú ert að fá þegar þú sest upp í nýjan Audi. Það hefur svo sem verið fjallað um íhaldssemina í Audi þegar kemur að innanrýminu en það er þó mikilvægt að taka fram að það dregur þó ekki úr gæðunum, þvert á móti.
Í mælaborðinu er að finna 12" skjá með öllum helstu upplýsingum og það er auðvelt að flytja þær á milli eða stilla eftir hentugleika hvaða upplýsingar maður vill sjá hverju sinni. Það er til að mynda mikill kostur að geta flutt leiðsögukerfið yfir í mælaborðið og sjá kortið þar vel, svo tekið sé eitt dæmi af möguleikunum sem eru í boði. Aðrar upplýsingar eru aðgengilegar og þægilegar fyrir þann sem situr undir stýri. Fyrir miðju mælaborðsins er 10” snertiskjár sem er aðvelt að tengja við Samsung eða Apple síma. Notendaviðmót hans er líka þægilegt, helstu stillingar eru aðgengilegar og auðveldar í notkun – sem skiptir máli fyrir þann sem notar bílinn reglulega.
Fyrir neðan hann er annar skjár sem meðal annars stýrir loftræstingu bílsins og fleiri atriðum, svo sem hita og kælingu í sætum og fleira. Líka aðgengilegt og þægilegt. Ef nefna ætti einhvern galla við notendaviðmót bílsins þá er það kannski hversu neðarlega sá skjár er. Maður þarf alltaf að líta niður þegar á að breyta stillingum og kannski full mikið niður þegar maður er að keyra. Það ætti þó að venjast fljótt og varla er bílstjóri mikið að fikta í stillingunum í miðjum akstri nema rétt til að breyta hitastillingu. Heilt yfir er upplifunin af stafrænum stillingum góð.
Q8 er þægilegur í akstri. Bíllinn var keyrður bæði innan og utan borgarmarkanna og hentar vel í hvort tveggja. Þegar bílstjóri situr fastur í Ártúnsbrekkunni og kaldar hugsanir renna til borgarstjórnarmeirihlutans sem vill þrengja enn frekar að umferðinni getur hann þó hlýjað sér við þá hugsun að sitja í Audi. Bíllinn er vissulega þægilegur í innanbæjarakstri, hvort sem er á stofnbrautum eða í þrengri götum.
Það skiptir þó líka máli hvernig svona bílar reynast í utanbæjarakstri. Audi Q8 svíkur engan þar, hann rennur vel og bæði bílstjóra og farþegum líður vel í akstrinum. Það tekur aðeins 5,6 sekúndur að færa hann upp í 100 km hraða. Maður finnur þó ekki mikið fyrir hraðanum, sem er kostur. Bíllinn er kraftmikill, á það reyndi meðal annars í akstri upp Kambana, og sveigist lítið í beygjum - nánast ekki neitt þar sem veggripið er gott. Það skýrist að hluta til af þyngd bílsins en ekki síður af sveigjanlegri loftfjöðrun. Quattro-kerfi bílsins lagar sig að ólíkum aðstæðum í akstri. Bíllinn er eins og svo margir úr mínum skóla, þungir en traustir.
Uppgefin drægni er 578 km á fullhlöðnum bíl. Það ætti þó að taka því með ákveðnum fyrirvara, enda er bílinn sem fyrr segir þungur sem hefur áhrif á drægnina. Ef einhver ætlar sér að keyra norður (því alltaf erum við að hugsa um það hvaða rafmagnsbílar drífa í einni hleðslu á milli Reykjavíkur og Akureyrar) er vissara að stoppa og skella hleðslu á bílinn á leiðinni til öryggis. Þá er mikill kostur að það tekur aðeins hálftíma að hlaða rafhlöðuna upp í 80% en bíllinn kemur með 170 kw- batteríi. Við skulum þó alveg gefa Audi það að drægnin í Q8 e-tron virðist vera góð og duga að mestu leyti vel í akstur á milli staða.
Það skiptir líka máli að farþegum líði vel. Væntanlega hefur verið horft til þess þegar ákvörðun var tekin um að nýta Audi Q8 á fyrrnefndum leiðtogafundi, að plássið fyrir farþega í aftursæti er gott. Og það er alveg innstæða fyrir því; það fer mjög vel um tvo farþega í aftursæti og ágætlega um þrjá þegar svo ber undir – þó kannski ekki þrjá fullvaxta menn.
Farangursrýmið er stórt og mikið, tæplega 570 lítrar og fer upp í rúmlega 1.600 lítra við að fella niður aftursætin. Það er síðan lítið farangursrými undir húddinu, um 60 lítrar, sem dugar ágætlega fyrir hleðslusnúrur og annað smádót.
Þó það hafi verið fjallað um bílinn í kringum leiðtogafundinn í vor og hann þótt spennandi, þá seljast ekki 50 bílar á einu bretti bara vegna þeirrar umfjöllunar. Svo ör sala skýrist af gæðum, verði og reynslunni sem menn hafa af fyrri útgáfum frá sama framleiðanda. Það skýrir góða sölu á bílnum í vor og frekari eftirspurn eftir honum um þessar mundir.
Audi Q8 e-tron kemur í tveimur útfærslum, Advanced og S-Line. Verðbilið er frá 12,8 til 16,7 m.kr. Bílinn uppfyllar allar helstu kröfur um öryggi, gæði og þægindi og það er vel hægt að mæla með honum fyrir þá sem vilja lúxus og þægilegt ökutæki.
Kemur í tveimur útgáfum, Advanced og S-line. Sú síðarnefnda er dýrari og ber aukinn lúxus umfram hina.
Allt að tíu litir í boði
Drægni: 578 km (skv. WLTP mælingu)
Afl: 408 hestöfl
Tog: 664 (Nm)
5,6 sek. í 100 km hraða
Umboð: Hekla
Verð: 12,8 – 16,7 m.kr.
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 18. júlí 2023.