Fyrir nokkru fékk ég boð um að halda til Frankfurt og fá þar kynningu á nýjasta fjölskyldumeðlim Kia. Það er að sjálfsögðu rafmagnsfákur og ég verð að viðurkenna að mig klæjaði í puttana að sjá það sem þar var á boðstólum. EV6 hefur komið mjög vel út og opnað rafbílaheiminn fyrir mörgum sem áður stóluðu á rafmagn, bensín eða tengil-tvinn. En EV6 sker sig þó ekki úr í samanburði við margt af því sem finna má hjá öðrum framleiðendum, t.d. í Ioniq-línu Hyundai, iD5 eða aðra slíka. En ég vissi að þessi heimsókn varðaði aðrar og stærri breytingar.
Lengi hefur þess verið beðið með mikilli eftirvæntingu að Kia kynnti til sögunnar EV9 sem er í raun framtíðarmúsíkin í stað Sorento, sem þjónað hefur sem flaggskip kóreska framleiðandans fram til þessa. Það var vitað að Kia ætlaði sér stóra hluti á þessum markaði eða allt frá því að fyrirtækið kynnti rafvæddu útgáfuna af Soul á markað á bílasýningunni í Chicago árið 2014. En það hefur átt við um Kia eins og aðra framleiðendur að það hefur fremur leikið í höndunum á þeim að kynna til sögunnar litla hreina rafbíla en stóra. Því ræður eðli tækninnar þar sem Leaf frá Nissan, i3 frá BMW og e-Golf frá Volkswagen hafa gert stormandi lukku meðal áhugafólks um rafbílaþróunina. Rafhlöður eru þungar og stórar og eftir því sem bílarnir stækka, þyngjast og veita meiri loftmótstöðu hafa rafhlöðurnar vaxið að sama skapi. Stærðin hefur skipt máli og ekki unnið með þróuninni þegar kemur að fullvaxta fjölskyldubílum eða tækjum sem ætlað er að ferja fólk um langan veg og með miklu og góðu plássi, undir fólk eða farangur.
EV9 er hins vegar þannig bíll. Og þegar hann kemur á markað er hann svar við ákalli, eða jafnvel afsökun þeirra sem ekki hafa talið rafbílaþróunina henta sér. Það er önnur ástæðan af tveimur fyrir því að EV9 breytir stöðunni, hin er sú að með því að hleypa þessum stóra bíl af stokkunum þokar Kia sér í átt að lúxusmerkjum sem framleiðandinn hefur sjaldnast getað borið sig saman við. Eflaust á hann enn nokkuð í land með að ná því marki, þ.e. að tylla sér við hlið Mercedez-Benz eða Volvo, en sennilega þarf ekki mikið átak enn til þess að svo megi verða. Ég leyfi mér alltént að halda því fram eftir heimsóknina til Frankfurt.
Það var mikil upplifun að taka fyrsta rölt í kringum bílinn. Hann er straumlínulagaður, til þess að tryggja rétt loftflæði og sem minnsta mótstöðu þegar gefið er í, en hann er samt sem áður stór. Rúmir fimm metrar á lengd og tæpir 1,8 metrar á hæð. Hjólhafið er 3,1 metri og veghæðin er 17,7 sentímetrar. Breiddin er dágóð eða 1,98 metrar.
Bíllinn sem hingað kemur verður án nokkurs vafa fjórhóladrifna útgáfan sem búin verður PMS-mótorum að framan og aftan. Samanlagt munu þeir skila 384 hestöflum og 600 Nm togi. Þessi mótoruppsetning mun skila bílnum í 100 kílómetra hraða á 6 sekúndum en að sögn framleiðandans verður hægt að ná 700 Nm og 5,3 sekúndna hröðun í hundrað með sérstakri uppfærslu.
Bíllinn verður búinn lithium-ion-rafhlöðu sem skilar 99,8 kWh og allt að 497 kílómetra drægni í fjórhjóladrifsútgáfunni.
EV9 verður boðinn í tveimur útfærslum þegar kemur að sætaskipan. Annars vegar klassískri sjö sæta og hins vegar sex sæta uppsetningu sem nýtur sífellt meiri vinsælda hjá framleiðendum. Báðar hafa þessar útfærslur sína kosti þótt sex sæta útfærslan sé spennandi af tveimur ástæðum. Annars vegar þeirri að afskaplega vel fer um hvern einasta farþega í bílnum í henni en einnig þeirri að miðjusætunum má snúa gegnt öftustu röðinni þegar bíllinn er ekki á ferð. Sennilega er þar um svokölluð „gerviþægindi“ að ræða og óvíst hversu mikið þetta kemur að gagni, en þetta er skemmtilegt, svona rétt eins og regnhlífarnar í afturhurðum Skoda Superb.
Rafhlaðan fyrrnefnda er stór og bíllinn er allur byggður á Electric Global Modular Platform og þessi hönnun tryggir að bíllinn stendur nær allur á einu stóru „gólfi“ sem býr til afar mikið fótapláss fyrir alla farþega og talsverða lofthæð sem undirstrikar fyrir farþegunum hversu stór og vígalegur bíllinn í raun er. Þá er skottplássið einnig mikið, þrátt fyrir rafhlöðuna stóru sem oftast skemmir mjög fyrir þeim þætti í hönnun rafbíla.
Það þóttu mikil tíðindi þegar Taycan var kynntur á markað með 800 volta hleðslumöguleika. Bæði vissu menn að tæknin væri mun dýrari en sú sem viðtekin hefur verið í rafbílaheiminum, þ.e. í kringum 350-400 volt, en svo sást einnig á hönnuninni hversu vígaleg hún var. Kaplarnir sem liggja gegnum bíla með 800 volta tengingu eru helmingi sverari en hinir. Þeir sjást að sjálfsögðu ekki í endanlegri útfærslu en menn vita af þeim þarna. Síðan Porsche tók þessa stefnu hafa fleiri framleiðendur fetað sig í áttina, m.a. Audi og Hyundai. En Kia gerði þetta með EV6 og EV9 er þar að sjálfsögðu ekki undantekning. Það gerir það að verkum að með rétta búnaðinum (sem verður sífellt aðgengilegri) verður hægt að bæta nærri 240 km drægni á bílinn með 15 mínútna hleðslutíma. Það er ekkert annað en frábært fyrir jafn stóran bíl og þennan!
Ég læt nokkuð mikið með komu EV9 á markaðinn og kannski halda einhverjir að hér sé um stærsta jeppann í þessum flokki að ræða fram til þessa. En vissulega er það ekki svo. EQS SUV er risastór bíll og á margan hátt er EQE SUV stór í sniðum einnig en ég geri þó ráð fyrir því að það sé ákveðinn eðlismunur á þessum bílum og EV9. Hann liggur ekki síst í verðinu. Fyrrnefndi bíllinn kostar frá 20,6 milljónum og sá síðarnefndi frá 14,6 en teygir sig fljótt í 17 til 19 milljónir ef menn vilja einfaldan búnað eins og hita í stýri eða rafdrifin framsæti með minni! Nú veit ég ekki nákvæmlega hvert verðið á EV9 verður en eitthvað segir mér að grunntýpan verði undir 13 milljónum króna og GT-line kannski í kringum 15 milljónir. Eftir að hafa skoðað báðar útfærslur í Frankfurt verð ég að segja að ódýrari bíllinn höfðaði meira til mín en sportjálkurinn (og er það sjaldan á þann veginn í mínu tilviki). Verði verðlagningin með þessu sniði má gera ráð fyrir að Kia EV9 verði fyrir valinu hjá allstórum hópi fólks á markaðnum, fjölskyldufólki með talsverða ómegð, en líka fólki sem vill fá jeppatilfinninguna í æð, geta tekið fjögur golfsett og þrjá félaga með á Hamarsvöll í Borgarnesi eða bara þeysa eftir veginum á bíl í fullri stærð, með fullri reisn.
Af þessum sökum markar EV9 nýja tíma í rafbílaþróuninni. Það er ekki lítið verk að rísa undir.