Haukfrár Macan í kröppum dansi

Macan er að nokkru breyttur en þekkist þó enn úr …
Macan er að nokkru breyttur en þekkist þó enn úr talsverðri fjarlægð. Ljósmynd/Porsche

Taycan gaf góð fyr­ir­heit – maður hefði jafn­vel viljað taka sér far með hon­um til sjálfs fyr­ir­heitna lands­ins. Óviðjafn­an­leg­ur kraft­ur og mikl­ar kröf­ur til bíls­ins und­ir­strikuðu að hönnuðir og verk­fræðing­ar Porsche voru staðráðnir í að halda fyr­ir­tæk­inu í fremstu röð bíla­smiða. Nú hafa þeir aft­ur sýnt á spil­in. Og þeir ætla ekki að spila nóló.

Þessu fékk blaðamaður að kynn­ast á ít­ar­legri kynn­ingu seint á síðasta ári. Þar voru helstu sér­fræðing­ar fyr­ir­tæk­is­ins mætt­ir til leiks ásamt ökuþórum sem þeystu með blaðamenn á nýstirn­inu eft­ir hinni víðfrægu kapp­akst­urs­braut sem Porsche hef­ur reist við hlið verk­smiðju sinn­ar í útjaðri borg­ar­inn­ar. Þannig var hægt að fá hinn nýja Macan beint í æð.

Opn­ar dyrn­ar

Og það er mikið und­ir. Þessi magnaði sportjeppi (sem má ekki kalla smájeppa því markaðsfræðing­ar ráða of miklu) hef­ur selst eins og heit­ar lumm­ur í ára­tug og slegið hvert sölu­metið á fæt­ur öðru. Hann hef­ur reynst sem eins kon­ar brú milli þeirra sem ekki hafa átt Porsche og hinna sem alltaf ætla að eiga Porsche. Síðar­nefndi hóp­ur­inn sam­an­stend­ur af flestu því fólki sem eitt sinn læt­ur til­leiðast og kaup­ir ein­tak, hvort sem það er Taycan, 911, Cayenne, Pana­mera eða Macan.

Nú þegar flest­ir vilja feta slóðina að raf­magni er Porsche lífs­nauðsyn­legt að taka stökkið inn í þá framtíð og eft­ir að hafa hnyklað vöðvana með Taycan ligg­ur bein­ast við að bjóða upp á Macan í alraf­magnaðri út­færslu. Og fyr­ir­tækið er reiðubúið í þann leiðang­ur, ann­ars veg­ar vegna gríðarlegr­ar fjár­fest­ing­ar í verk­smiðjunni í Leipzig, en þar hef­ur fyr­ir­tækið smíðað með ágæt­um og mikl­um af­köst­um bæði Pana­mera og Macan með sprengi­hreyfli. Hins veg­ar er grunn­vinna, sem m.a. hef­ur verið treyst með sam­starfi við Audi, þar sem staðlaður und­ir­vagn fyr­ir raf­bíla hef­ur orðið að veru­leika, gert sköl­un og hag­kvæma fram­leiðslu mögu­lega. Nefn­ist hann upp á ensku Premium Plat­form Electric (PPE).

Kraft­mik­il kerra

Akst­ur­seig­in­leik­ar hafa alltaf verið aðals­merki Porsche en þar skipt­ir kraft­ur­inn líka máli. Í kraft­mestu út­færslu bíls­ins verður hann 640 hest­öfl og mun kom­ast úr 0 í 100 km hraða á 3,3 sek­únd­um. Al­geng­asta út­færsl­an mun duga til þess ærna starfa á 5,1 sek­úndu. Það er dágott í báðum til­vik­um og ekki skemm­ir fyr­ir að drægn­in verður með því besta sem sést í sam­bæri­legri stærð bíla. Gera má ráð fyr­ir að há­marks­drægni verði ríf­lega 600 km og vegna 800 volta raf­kerf­is bíls­ins verður hægt að fylla 100 kíló­vatt­stunda raf­hlöðuna úr 20% í 80% á rétt­um 20 mín­út­um. Það dug­ar ekki einu sinni til að sporðrenna kjötsúp­unni í Staðarskála!

Fjöðrun­in skipt­ir máli

Nýj­ung­ar verður að finna í tækn­inni sem trygg­ir bíln­um fjöðrun við hæfi, allt eft­ir aðstæðum hverju sinni. Bygg­ir hún þó í grunn­inn á tækni sem Porsche hef­ur áður kynnt og eig­end­ur þekkja í nýj­ustu út­færsl­um bíla frá þeim. Þannig er tvö­föld klafa­fjöðrun að fram­an en svo­kölluð fjölliða fjöðrun að aft­an. Þar verður hægt að upp­færa í svo­kallaða PASM-út­færslu (Porsche Acti­ve Su­spensi­on Mana­gement) og loft­púðafjöðrun sem senni­lega verður fyr­ir val­inu hjá mörg­um. Þessi tækni bregst við aðstæðum og reikn­ar viðbragð sitt eft­ir hraða og miðflótta­afli, hvernig ökumaður beit­ir stýr­inu og í hvaða hæð bíll­inn er stillt­ur. Allt ger­ir þetta upp­lif­un­ina af akstr­in­um betri og eyk­ur ör­yggi um leið.

Þótt margt nýtt sé að finna í ytra út­liti bíls­ins sver hann sig í ætt­ina og ber svip af eldri kyn­slóðum sömu teg­und­ar. Hins veg­ar hafa hönnuðir Porsche unnið af­rek með því að draga mjög úr loft­mót­stöðunni sem skap­ast af bíln­um. Er hún nú kom­in í námunda við það sem við sjá­um á bíl­um á borð við Tesla Y og verður það að telj­ast dágott í ljósi þess að bíll­inn var ekki upp­runa­lega hugsaður út frá loft­mót­stöðunni sem slíkri.

Það er til­hlökk­un­ar­efni að fá þenn­an bíl á göt­urn­ar hér heima. Það verður ekki ama­legt að reyna hann í ís­lensk­um aðstæðum.

Macan flengist um kappakstursbrautina í Leipzig. Dekkjaískur og gúmmílykt í …
Macan fleng­ist um kapp­akst­urs­braut­ina í Leipzig. Dekkjaísk­ur og gúmmílykt í loft­inu. Ljós­mynd/​Porsche

Hring­ekj­an í Leipzig

Þeir taka á móti manni salla­ró­leg­ir, ökuþór­arn­ir sem starfa við ekk­ert annað en ein­mitt það hjá Porsche. Þeir draga mann út á braut og um borð í Macan sem hef­ur greini­lega mátt þola átakameðferð. Og þeir til­kynna að búið sé að taka skriðstill­ing­una úr sam­bandi. Og þeir vilja hafa brems­urn­ar hrá­ar. Mestu skipt­ir að akst­ur­s­kerfið sé á hæsta styrk.

Svo fer maður út í braut­ina og þar bíða eft­ir­mynd­ir af fræg­ustu beygj­um kapp­akst­urs­ins. Ein þeirra er hring­ekj­an af Nür­burgring þar sem reyn­ir á hverja tommu í bíl sem fleng­ist eft­ir braut­inni og í hinn stóra sveig.

Og það er ekki laust við að maður grenn­ist á akstr­in­um. Svit­inn sprett­ur fram. Fyrsti hring­ur, sem er kraft­mik­ill, er bara upp­hit­un. Miðhring­ur­inn til að reyna til hins ítr­asta á akst­urs­hæfni bíls­ins og sá þriðji er til þess að kæla dekk­in. Það er nauðsyn­legt enda verða hjól­b­arðarn­ir allt að 80 stiga heit­ir.

Þess­um „rúnti“ verður ekki auðveld­lega lýst með orðum en hann staðfest­ir samt eitt. Það sem þess­ir bíl­ar þola og geta er langt út fyr­ir öll þæg­inda­mörk heil­brigðrar skyn­semi. Íslensk um­ferðarlög­gjöf og vega­kerfi ger­ir það að verk­um að þau ein­tök af Macan sem hingað munu rata, munu upp­lifa það eins og að verið sé að dengja þeim á eft­ir­laun, langt fyr­ir ald­ur fram. Það ger­ir akst­urs­upp­lif­un­ina fyr­ir Íslend­inga engu minna spenn­andi. Það eru spenn­andi tím­ar í vænd­um.

Grein­in birt­ist upp­haf­lega í Bíla­blaði Morg­un­blaðsins 16. janú­ar 2024.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bílar »

Loka