Haukfrár Macan í kröppum dansi

Macan er að nokkru breyttur en þekkist þó enn úr …
Macan er að nokkru breyttur en þekkist þó enn úr talsverðri fjarlægð. Ljósmynd/Porsche

Taycan gaf góð fyrirheit – maður hefði jafnvel viljað taka sér far með honum til sjálfs fyrirheitna landsins. Óviðjafnanlegur kraftur og miklar kröfur til bílsins undirstrikuðu að hönnuðir og verkfræðingar Porsche voru staðráðnir í að halda fyrirtækinu í fremstu röð bílasmiða. Nú hafa þeir aftur sýnt á spilin. Og þeir ætla ekki að spila nóló.

Þessu fékk blaðamaður að kynnast á ítarlegri kynningu seint á síðasta ári. Þar voru helstu sérfræðingar fyrirtækisins mættir til leiks ásamt ökuþórum sem þeystu með blaðamenn á nýstirninu eftir hinni víðfrægu kappakstursbraut sem Porsche hefur reist við hlið verksmiðju sinnar í útjaðri borgarinnar. Þannig var hægt að fá hinn nýja Macan beint í æð.

Opnar dyrnar

Og það er mikið undir. Þessi magnaði sportjeppi (sem má ekki kalla smájeppa því markaðsfræðingar ráða of miklu) hefur selst eins og heitar lummur í áratug og slegið hvert sölumetið á fætur öðru. Hann hefur reynst sem eins konar brú milli þeirra sem ekki hafa átt Porsche og hinna sem alltaf ætla að eiga Porsche. Síðarnefndi hópurinn samanstendur af flestu því fólki sem eitt sinn lætur tilleiðast og kaupir eintak, hvort sem það er Taycan, 911, Cayenne, Panamera eða Macan.

Nú þegar flestir vilja feta slóðina að rafmagni er Porsche lífsnauðsynlegt að taka stökkið inn í þá framtíð og eftir að hafa hnyklað vöðvana með Taycan liggur beinast við að bjóða upp á Macan í alrafmagnaðri útfærslu. Og fyrirtækið er reiðubúið í þann leiðangur, annars vegar vegna gríðarlegrar fjárfestingar í verksmiðjunni í Leipzig, en þar hefur fyrirtækið smíðað með ágætum og miklum afköstum bæði Panamera og Macan með sprengihreyfli. Hins vegar er grunnvinna, sem m.a. hefur verið treyst með samstarfi við Audi, þar sem staðlaður undirvagn fyrir rafbíla hefur orðið að veruleika, gert skölun og hagkvæma framleiðslu mögulega. Nefnist hann upp á ensku Premium Platform Electric (PPE).

Kraftmikil kerra

Aksturseiginleikar hafa alltaf verið aðalsmerki Porsche en þar skiptir krafturinn líka máli. Í kraftmestu útfærslu bílsins verður hann 640 hestöfl og mun komast úr 0 í 100 km hraða á 3,3 sekúndum. Algengasta útfærslan mun duga til þess ærna starfa á 5,1 sekúndu. Það er dágott í báðum tilvikum og ekki skemmir fyrir að drægnin verður með því besta sem sést í sambærilegri stærð bíla. Gera má ráð fyrir að hámarksdrægni verði ríflega 600 km og vegna 800 volta rafkerfis bílsins verður hægt að fylla 100 kílóvattstunda rafhlöðuna úr 20% í 80% á réttum 20 mínútum. Það dugar ekki einu sinni til að sporðrenna kjötsúpunni í Staðarskála!

Fjöðrunin skiptir máli

Nýjungar verður að finna í tækninni sem tryggir bílnum fjöðrun við hæfi, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Byggir hún þó í grunninn á tækni sem Porsche hefur áður kynnt og eigendur þekkja í nýjustu útfærslum bíla frá þeim. Þannig er tvöföld klafafjöðrun að framan en svokölluð fjölliða fjöðrun að aftan. Þar verður hægt að uppfæra í svokallaða PASM-útfærslu (Porsche Active Suspension Management) og loftpúðafjöðrun sem sennilega verður fyrir valinu hjá mörgum. Þessi tækni bregst við aðstæðum og reiknar viðbragð sitt eftir hraða og miðflóttaafli, hvernig ökumaður beitir stýrinu og í hvaða hæð bíllinn er stilltur. Allt gerir þetta upplifunina af akstrinum betri og eykur öryggi um leið.

Þótt margt nýtt sé að finna í ytra útliti bílsins sver hann sig í ættina og ber svip af eldri kynslóðum sömu tegundar. Hins vegar hafa hönnuðir Porsche unnið afrek með því að draga mjög úr loftmótstöðunni sem skapast af bílnum. Er hún nú komin í námunda við það sem við sjáum á bílum á borð við Tesla Y og verður það að teljast dágott í ljósi þess að bíllinn var ekki upprunalega hugsaður út frá loftmótstöðunni sem slíkri.

Það er tilhlökkunarefni að fá þennan bíl á göturnar hér heima. Það verður ekki amalegt að reyna hann í íslenskum aðstæðum.

Macan flengist um kappakstursbrautina í Leipzig. Dekkjaískur og gúmmílykt í …
Macan flengist um kappakstursbrautina í Leipzig. Dekkjaískur og gúmmílykt í loftinu. Ljósmynd/Porsche

Hringekjan í Leipzig

Þeir taka á móti manni sallarólegir, ökuþórarnir sem starfa við ekkert annað en einmitt það hjá Porsche. Þeir draga mann út á braut og um borð í Macan sem hefur greinilega mátt þola átakameðferð. Og þeir tilkynna að búið sé að taka skriðstillinguna úr sambandi. Og þeir vilja hafa bremsurnar hráar. Mestu skiptir að aksturskerfið sé á hæsta styrk.

Svo fer maður út í brautina og þar bíða eftirmyndir af frægustu beygjum kappakstursins. Ein þeirra er hringekjan af Nürburgring þar sem reynir á hverja tommu í bíl sem flengist eftir brautinni og í hinn stóra sveig.

Og það er ekki laust við að maður grennist á akstrinum. Svitinn sprettur fram. Fyrsti hringur, sem er kraftmikill, er bara upphitun. Miðhringurinn til að reyna til hins ítrasta á aksturshæfni bílsins og sá þriðji er til þess að kæla dekkin. Það er nauðsynlegt enda verða hjólbarðarnir allt að 80 stiga heitir.

Þessum „rúnti“ verður ekki auðveldlega lýst með orðum en hann staðfestir samt eitt. Það sem þessir bílar þola og geta er langt út fyrir öll þægindamörk heilbrigðrar skynsemi. Íslensk umferðarlöggjöf og vegakerfi gerir það að verkum að þau eintök af Macan sem hingað munu rata, munu upplifa það eins og að verið sé að dengja þeim á eftirlaun, langt fyrir aldur fram. Það gerir akstursupplifunina fyrir Íslendinga engu minna spennandi. Það eru spennandi tímar í vændum.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. janúar 2024.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: