Lúxussportjeppi fyrir íslenskar aðstæður

Progressive-útgáfa bílsins var tekin til reynslu en hér gefur að …
Progressive-útgáfa bílsins var tekin til reynslu en hér gefur að líta Power-útgáfuna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þýski bílaframleiðandinn Mercedes-Benz gaf í fyrra út uppfærða útgáfu af sportjeppanum GLC, einni vinsælustu bifreið framleiðandans frá upphafi. Útgáfan er tengiltvinnbíll með óvenjustórri rafhlöðu fyrir slíkan farkost að bera. Blaðamaður tók bílinn til ofurlítils reynsluaksturs fyrr í mánuðinum.

Það fer ekki á milli mála þegar gengið er að bílnum að um Benz er að ræða. Sportlegt yfirbragðið leynir sér heldur ekki og vegleg krómumgjörð rammar inn Mercedes-stjörnuna fyrir miðju. Að aftan má svo sjá ný tvískipt LED-afturljós, sem saman skapa þrívíða áferð en bjóða ekki síður upp á breiðari afturhlera og stærra op á farangursrými.

Þegar sest er við stýrið vekur fyrst athygli hversu hátt ökumaður situr. Héðan er gott útsýni til allra átta og ekki erfitt að koma sér þægilega fyrir. Allar gerðir bílsins bjóða upp á rafstýrð sæti á fjóra vegu, meðal annars til að styðja við mjóbakið, auk þess sem stýrið er mjög meðfærilegt.

Afturljósin eru af LED-gerð og eru tvískipt eins og sjá …
Afturljósin eru af LED-gerð og eru tvískipt eins og sjá má. Farangurshlífin er rafmagnsknúin að vanda. mbl.is/Arnþór Birkisson

Og talandi um stýrið. Það er klætt mjúku Napa-leðri en botninn á því flatur og helsta gripsvæðið gert hrjúfara til að auka gripið, en allt þetta er síst til þess fallið að draga úr sportlegu upplifuninni.

Á því er einnig fjöldi hnappa sem gera ökumanni kleift að stýra mörgu sem viðkemur akstri eða tónlist án þess að þurfa að taka hendurnar af stýrinu. Hér er vert að nefna að ekki er um að ræða eiginlega hnappa til að hækka og lækka eða skipta á milli laga, heldur nemur stýrið snertingu á til þess gerðum stöðum. Eins dags akstur reyndist ekki duga til að komast í nægilega æfingu við þetta en ökumaður kæmist eflaust upp á lagið við daglega keyrslu.

Útsýnið um afturrúðuna er ágætt miðað við stærðarflokk bílsins. Öllum gerðum hans fylgir þó bakkmyndavél, sem býður upp á 360 gráða sýn nema í þeirri ódýrustu, og fjarlægðarskynjarar bæði að framan og aftan.

Nóg pláss er fyrir hávaxna sem lágvaxna, hvort sem er frammi í eða aftur í, en framsætunum má renna langt fram gerist þess þörf. Vel má teygja úr fótum frammi í og höfuðpláss aftur í er mjög gott.

Stýrið er klætt Napa-leðri. Botninn á því er flatur fyrir …
Stýrið er klætt Napa-leðri. Botninn á því er flatur fyrir sportlegra yfirbragð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Framúrskarandi hönnun

Tveir stórir skjáir einkenna rýmið frammi í bílnum. 12,3 tomma skjár sýnir mælaborðið auk allra annarra upplýsinga sem ökumaður kann að þarfnast og á milli sæta er annar 11,9 tomma skjár sem stýra má með röddinni, með því að snerta skjáinn og loks með snertihreyfingum á stýrinu. Þetta síðastnefnda fannst mér nokkur óþarfi, eða í það minnsta voru hinir kostirnir yfirleitt fljótlegri.

Snertiskjárinn er af smekklegri stærð og á hentugum stað. Viðmótið er snöggt og þýtt og auðvelt að finna þær stillingar sem ökumaður vill breyta.

Allt í allt er hönnunin framúrskarandi. Lýsingin skemmir heldur ekki fyrir, en velja má á milli ótalmargra lita til að skreyta bílinn að innanverðu.

Rúmt rými er fyrir fætur og vel fer um farþega …
Rúmt rými er fyrir fætur og vel fer um farþega í sætum. mbl.is/Arnþór Birkisson

En hvernig er aksturinn?

Fyrst verður að nefna að GLC fæst í þremur gerðum hér á landi, hvað vélina varðar. Sú ódýrasta nefnist GLC 300 e og inniheldur 204 hestafla fjögurra strokka bensínvél ásamt 134 hestafla rafdrifi, sem sækir orkuna í 31,2 kílóvattstunda rafhlöðu. Úr þessu má beisla samtals 313 hestöfl og tog upp á 550 nm. Aflið eykst svo nokkuð með næstu gerðum þar fyrir ofan, en önnur þeirra er búin dísilvél og kostar aðeins 200 þúsund krónum meira.

Eins og vikið var að hér að ofan er rafhlaðan óvenju stór fyrir tengiltvinnbíl. Uppgefin drægni er á bilinu 120-124 kílómetrar samkvæmt WLTP-staðlinum og breytist því einungis lítillega eftir því hvaða gerð verður fyrir valinu.

Fjöldi hnappa er í stýrinu fyrir hinar ýmsu aðgerðir sem …
Fjöldi hnappa er í stýrinu fyrir hinar ýmsu aðgerðir sem ökumaður þarfnast. mbl.is/Arnþór Birkisson

Notar þá orku sem fellur til

Rafhlaðan gerir aksturinn snarpari eins og oft vill verða, þar sem bíllinn getur gripið til hennar við inngjöf á meðan hefðbundna bensínvélin er hægari af stað. En jafnvel þegar hennar nýtur ekki við, og uppgefin hleðsla er í núllinu, þá heldur rafdrifið áfram að hjálpa vélinni. Notar drifið þá orkuna sem verður til við aksturinn og gefur hana til baka þegar gefið er inn. Molar eru líka brauð og allt þetta gerir það að verkum að uppgefin eyðsla frá framleiðanda er 0,6 lítrar á hundraðið. En þá þarf maður líka að vera duglegur að hlaða.

Hleðslugetan í riðstraumi nemur 11 kílóvöttum og tekur það rafhlöðuna þá 2,5 klukkustundir að fara úr 0 í 100% hleðslu. Í jafnstraumi getur bíllinn tekið við allt að 60 kílóvöttum og er þá töluvert fljótari að ná fullri drægni að nýju.

Þessi stóra rafhlaða opnar fyrir þann möguleika að sinna öllum innanbæjarakstri mánuðum saman án þess að nokkurn tíma reyna á bensínvélina. Hún bíður svo aftur á móti reiðubúin til að bruna viðstöðulaust í skíðaferðina til Akureyrar eða í sumarblíðuna á Austfjörðum, eftir atvikum.

Hér má því fá það besta af báðum heimum þegar litið er til gjaldtöku stjórnvalda:

Kílómetragjaldið er bara tvær krónur á kílómetrann í stað sex króna í tilviki hreinna rafbíla, en samt má nota þennan bíl nánast sem hreinan rafbíl.

Og svo sleppur eigandinn líka við að borga skatta af bensíninu, sem ríkisstjórnin hyggst víst afnema í viðleitni sinni til að draga úr rafvæðingu bílaflotans. Eins konar krókur á móti eigin bragði, eftir að hafa gefið bílaleigum landsins rafbíla fyrir að minnsta kosti einn milljarð króna. En það er annað mál.

Taka þarf þó fram að á köflum getur vélin virkað nokkuð svifasein, þegar mjög hefur verið gengið á rafhlöðuna, og kraftar hennar nýtast ekki að fullu, ekki síst á hlykkjóttum vegum sem reyna á inngjöfina og þegar bíllinn er í hybrid-stillingunni. Vélin lætur einnig ágætlega í sér heyra þegar reynt er á hana, en það er þó ekki svo oft, og ef til vill ekki galli í huga margra.

Nokkuð stór skjár er fyrir miðju bílsins og er hann …
Nokkuð stór skjár er fyrir miðju bílsins og er hann snar í snúningum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Áberandi góð fjöðrun

Veg- og vindhljóð er á sama tíma í lágmarki og fjöðrunin í reynsluakstursbílnum var áberandi góð, jafnvel þótt hann byggi ekki yfir sérstökum aukabúnaði með loftpúðafjöðrun, sem framleiðandinn segir tryggja afburða fjöðrunareiginleika jafnvel við verstu aðstæður.

Veghæð bílsins lagar sig þá að hraðanum og hleðslu bílsins, sem mun geta aukið drægi þegar ekið er á miklum hraða. Þess utan er þá hægt að hækka loftfjöðrunina um 15 mm ef þörf krefur.

Bíllinn hentar íslenskum aðstæðum nokkuð vel, verður að segjast, með 19 sentimetra veghæð og dráttargetu upp á 2.000 kíló. Hiti í stýri er staðalbúnaður í öllum gerðum nema þeirri ódýrustu, en fæst þó einnig í svokölluðum vetrarpakka upp á 95 þúsund krónur. Forhitun á miðstöðinni er aftur á móti undantekningalaust staðalbúnaður og því má fagna nær allan ársins hring þökk sé legu landsins.

„Íslenskar aðstæður“ eru líka í mörgum tilvikum þær að bíllinn fer nánast aldrei út fyrir borgarmörkin, og kannski þá ekki nema einhverja tugi kílómetra. Að því leytinu til hentar tengiltvinnbíll sem þessi eflaust mjög mörgum sem sjaldan taka fararskjóta sína út fyrir hið manngerða og malbikaða borgarlandslag.

En fyrir þá sem það vilja, þá má með einum hnappi breyta snertiskjánum í það sem kalla má torfæruskjá. Þar eru þá stillingar og aðgerðir fyrir akstur í torfærum og einnig á skjá ökumannsins. Myndavélarnar nýtast þá einnig til að sjá hvað leynist handan vélarhlífarinnar, þegar útsýninu um framrúðuna sleppir.

Stilla má sæti á fjóra mismunandi vegu, meðal annars fyrir …
Stilla má sæti á fjóra mismunandi vegu, meðal annars fyrir aukinn mjóbaksstuðning. mbl.is/Arnþór Birkisson

Torfærustillingin lagar veggrip, hemlastýringu og akstursmáta að akstursaðstæðum og kveikir á sérstakri torfærulýsingu ef bíllinn er búinn stafrænni lýsingu, en allar gerðir nema sú ódýrasta hafa þann möguleika.

Dýrustu gerð bílsins, svokallaðri Power-útgáfu, fylgir 710 vatta og 15 hátalara hljóðkerfi frá Burmester. Ekki fékk ég að reyna það en ég get þó sagt að Advanced-hljóðkerfi Progressive-útgáfunnar, þeirrar næstu fyrir neðan, reyndist fáránlega vel. Er það samt aðeins 225 vatta til samanburðar.

Þá má fá sportjeppann með sólþaki sem framleiðandi segir gefa fallega birtu og tilfinningu fyrir auknu rými, hvort sem glugginn er opinn eða lokaður. Í það minnsta er sólþakið mjög fallegt að utan og gefur ytra byrði bílsins sérstaklega létt yfirbragð.

Geymslupláss er prýðilegt, eins og við má búast af bíl í þessum stærðarflokki, með góðum hólfum í hurðum. Á milli framsæta er rými sem má loka, tveir glasahaldarar og svo þráðlaust hleðslurými, sem er þannig úr garði gert að ekki sést á skjá símans þegar hann er geymdur þar.

Farangursrýmið getur tekið 470 lítra en svo má fella sætin …
Farangursrýmið getur tekið 470 lítra en svo má fella sætin niður. mbl.is/Arnþór Birkisson

Tekur mið af tengivagninum

Farangursrýmið geymir 470 lítra og 1.530 lítra þegar sætin eru felld niður, en það má auðveldlega gera með rofa í farangursrýminu. Fella má hvert og eitt þeirra þriggja niður sérstaklega og því geta til dæmis tveir farþegar setið hvor sínum megin aftur í með lengri farangur á milli sín, á borð við skíði.

Þurfi ökumaður að flytja eitthvað fleira má hér nefna að leiðsagnarkerfið getur tekið tillit til þess ef jeppanum er ekið með tengivagn þegar leið er reiknuð. Þá er hún jafnvel reiknuð út eftir gerð og stærð tengivagnsins. Þannig reynir kerfið að forðast mikinn halla og krappar beygjur eftir atvikum.

Ef fara á yfir allan þann aukabúnað sem er í boði þá entist varla þetta blað fyrir textann. Mesta athygli vekur búnaður sem skynjar þegar hliðarárekstur vofir yfir. Grípur hann þá til aðgerða og færir þann farþega sem næstur er hliðarhögginu nær miðju bílsins. Er þetta vitanlega sagt geta dregið úr hættu á meiðslum.

Hér er því kominn lúxussportjeppi sem hentar íslenskum aðstæðum en einnig því formi gjaldtöku sem stjórnvöld hafa ákveðið. Og það áður en tekið er til við að hlaða hann öllum mögulegum aukabúnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka