Yaris fær andlitslyftingu

Í söndum og leirlitu landslagi Sitges með fagurblátt Miðjarðarhafið í …
Í söndum og leirlitu landslagi Sitges með fagurblátt Miðjarðarhafið í bakgrunni var ekki hjá því komist að falla fyrir skærbláum bílnum sem myndast óneitanlega vel. Ljósmynd/Toyota

Fáir bílar eru jafn áreiðanlegir og vinsælir þvert á alla hópa og Toyota Yaris – þá sérstaklega sem borgarbíll. Hvort sem um er að ræða unglinginn, ömmuna eða stórborgarföðurinn, Yarisinn skilar sínu og gerir það vel. Var svo sannarlega engin undantekning þar á þegar undirrituð hélt til Spánar í boði Toyota til að prófa nýja og betrumbætta útgáfu af Toyota Yaris, nánar tiltekið Hybrid 130 Premiere Edition.

Förinni var heitið til strandbæjarins Sitges rétt sunnan við borgina Barcelona sem var kærkomin tilbreyting frá þungbæru skammdeginu á Íslandi. Miðjarðarhafsbærinn skartar miðaldakastala, 17. aldar kirkju og nýbyggðum orlofshúsum fyrir sólarsólgna, sem heimsækja bæinn eins oft og færi gefst, eins og margir Íslendingar þekkja af eigin raun. Er bærinn meðal annars þekktur fyrir árlega kvikmyndahátíð, karnival og ríka hinsegin-menningu og jafnvel nefndur „Saint-Tropez Spánar“.

Það var því líf og fjör í bænum er blaðamann bar að garði en hið árlega karnival, sem stendur í sjö daga, var í fullum gangi. Lítríkar fjaðrir, dans og læti einkenndu bæjarbraginn en einnig kynningarteiti bílsins þar sem karnival-dansarar léku listir sínar fyrir bílablaðamenn á hinu glæsilega Sabàtic-hóteli úr röðum Marriott-hótelanna.

Í fyrstu virtist Sitges ekki beint augljós staður fyrir reynsluakstur, en þegar betur er á það litið „meikar staðsetningin fullkominn sens“. Rétt fyrir ofan bæinn við sjávarmálið eru nefnilega fjallshlíðar, skóglendi og snarpar beygjur á þröngum vegum og hraðbraut rétt handan við bæjarmörkin. Bærinn er þægilegur að aka í og því einstaklega gott að prófa bílinn á vel skipulögðum götum Sitges og í endalausum hringtorgum, sem Spánverjar eru einstaklega elskir að. Hafði staðsetningin því upp á fjölbreytt landslag og aksturslag að bjóða í reynsluakstrinum.

Kynningarferðin var, sem fyrr segir, helguð nýrri útgáfu af Toyota Yaris. Bíllinn hefur tekið á sig þó nokkuð sportlegri og nútímalegri mynd, a.m.k. miðað við fyrsta Yarisinn sem kom út 1999, en nýja útgáfan státar einnig af ýmsum tækni- og öryggisnýjungum, að ógleymdri nýrri og mun öflugri vél.

Tekið fram úr með kraftmeiri vél

Þetta er ekki venjulegur blendingur, þar sem rafvélin léttir undir með þessari hefðbundnu, heldur er þetta alblendingur (e. full hybrid), sem gengur lengra og lengur alfarið fyrir rafmagni. Helsta breyting frá fyrri gerð bílsins er nýr sambyggður gírkassi og drif (e. transaxle) með kraftmeiri rafvél, áður 59 kW en afkastar nú 62 kW, ásamt uppfærslu á hugbúnaði og vélbúnaði í aflstýringunni (PCU). Fyrir vikið aukast heildarafköstin um 12%, úr 116 DIN hö./85 kW í 130 DIN hö./96 kW.

Það eru ekki aðeins meiri afköst á pappírnum, aukinn krafturinn finnst vel í akstri á Hybrid 130 Yarisnum og hefur hámarkstog frá MG2-rafmótornum aukist um 30% eða úr 141 Nm í 185 Nm. Það skilar sér í meiri hröðun bílsins og er hann nú hálfri sekúndu fljótari í hundraðið og fer úr kyrrstöðu í 100 km/klst. á 9,2 sekúndum. Þar sem bílstjórar Yarisins eru aftur á móti ekki oft að spyrna í kvartmílukeppni er vert að nefna að öflug hröðun er einnig tiltæk til að taka fram úr öðrum bílum og fer hann úr 80 í 120 km/klst. á aðeins 7,5 sekúndum.

Toyota hefur lengi verið leiðandi í hybrid-tækninni svo það á ekki að koma á óvart að koltvísýringsútblástur er enn í fyrsta flokki, 87-98 g/km, meðan eldsneytisnýtingin er um 3,9-4,3 l/100 km á WLPT. Í spálíkani endurhleðslukerfisins eru notuð gögn úr leiðsögukerfinu, t.d. í umferðarteppum eða akstri niður á móti, til að tryggja hámarkshleðslustig rafhlöðunnar miðað við leið og aðstæður.

Tilvalinn fyrir takkaóða

Bíllinn hefur þó ekki einungis tekið breytingum undir húddinu heldur einnig í innréttingu og viðmóti. Þá þykir mér sérstaklega vert að hæla hönnuðum bílsins fyrir að streitast á móti straumnum innan bílahönnunar þar sem framleiðendur virðast staðráðnir í að útrýma hefðbundnum tökkum. Eflaust er það smekksatriði eins og flest annað, en persónulega þykir blaðamanni fátt koma í stað hnappa fyrir hið mikilvægasta, enda eru tölvustillingar á flóknum skjámyndum það síðasta sem maður vill vera að basla við á ferð.

Toyota hefur því svo sannarlega bænheyrt undirritaða og aðra takkaóða bílstjóra en bíllinn er með akkúrat réttan fjölda af tökkum og hefur staðsett þá að mínu skapi – á sínum stað. Hönnuðir bílsins hafa nefnilega sleppt því að reyna að finna upp hjólið með því að koma miðstöðvarstillingum fyrir á nýjum stað og hafa haldið henni fyrir miðju á hægri hönd bílstjórans. Þá finnst mér einnig gaman að sjá að þrátt fyrir að stýrið sé vissulega orðið sportlegra er útlit gírstangarinnar enn í sama anda og í eldri bílunum og því enginn vafi á hvert hann á rætur sínar að sækja.

Þá er mælaborð bílsins afar skemmtilegt, en það tók blaðamann engu að síður nokkrar tilraunir að átta sig á því hvernig ætti að fara inn í ýmsar stillingar. Til að mynda var ég dregin inn í þó nokkra ranghala við ítrekaðar tilraunir til að slökkva á fjölmörgum öryggisstillingum bílsins, þá einkum stillingu sem atyrðir ökumanninn fyrir of hraðan akstur, eiginleiki sem er síður heppilegur í prufuakstrinum eða þegar maður er orðinn of seinn í vinnuna. Það er þó ekki við Toyota, eða bílaframleiðendur almennt, að sakast heldur nýjustu öryggisreglugerðir ESB.

Eftir sem áður skilar tæknin sínu og er hægt að aðlaga aksturslag bílsins eftir notkun og smekk bílstjórans með fjórum stöðluðum valmöguleikum: Casual, Smart, Tough og Sporty. Þá gleður það einnig augað að þegar skipt er um akstursstillingu keyrir nýr bíll inn á mælaborðið og minnir þannig einna helst á að bílstjórinn sé velja sér karakter í tölvuleik.

Skjár bílsins hefur verið uppfærður og stækkaður og er hann …
Skjár bílsins hefur verið uppfærður og stækkaður og er hann talsvert smekklegri og þægilegri fyrir vikið.

Í öruggum höndum Yaris

Þá má einnig hæla nýjum öryggisviðbótum Toyota, svo sem virkni sem dregur úr skyndilegri hröðun til að koma í veg fyrir árekstur og neyðarhemlunarkerfi, sem skynjar ef bílstjórinn sofnar eða missir meðvitund undir stýri. Í slíku tilfelli myndi bíllinn reyna að gera ökumanninum viðvart með hljóð- og sýnilegum viðvörunum, en ef bílstjórinn sýnir enn ekki viðbrögð stöðvast bíllinn rólega, það kviknar á viðvörunarljósunum og hurðir aflæsast. Má því vægast sagt segja að maður sé í öruggum höndum skyldi eitthvað koma upp á.

Þá varð undirrituð einnig einstaklega kát við að uppgötva að Premium-útgáfa bílsins er með svokallaða framrúðuglæju (e. HUD, heads-up display) sem sýnir ökumanni upplýsingar á framrúðunni, en nýjar viðbætur við glæjuna eru m.a. akreinaaðstoð, beygjuhraðastýring og forvirk akstursaðstoð, sem greinir til að mynda gangandi vegfarendur, hjólreiðamenn og ökutæki.

Bíllinn er með snertiskjá fyrir miðju og er augljóst að hönnuðirnir hafa tekið ábendingum um fyrri útgáfur Yarisins til sín, uppfært og stækkað skjáinn en hann er talsvert smekklegri og þægilegri fyrir vikið. Þá getur bílstjóri einnig valið og raðað snjallforritum og búnaði á skjáinn eftir eigin höfði. Skjárinn hefur verið hækkaður örlítið upp á mælaborðinu sem kann að valda áhyggjum um skert útsýni ökumanns. Ekki get ég þó sagt að það hafi angrað mig í akstri en því skal þó haldið til haga að undirrituð er 174 cm á hæð svo að lágvaxnari bílstjórar kunna að hafa aðra sögu að segja.

Þá hefur símhleðslufleti verið bætt við í hliðarhólf bílsins eins og er sífellt að verða algengara í nýrri bílum. Einnig hefur hleðsluinnstungum verið bætt við, þar sem fyrri útgáfa bílsins var aðeins með eina, en þar að auki hafa innstungurnar verið uppfærðar í USB-C í takt við fyrirmæli ESB um að öll hleðslutengi skuli vera af þeirri gerð fyrir lok þessa árs. Geta tónlistarunnendur og hlaðvarpshlustendur einnig glaðst yfir JBL-hljóðkerfi bílsins, en afar góður ómur er í bílnum, sem er í þokkabót vel einangraður og hljóðlátur á vegi.

Fagurblár Pixar-bíll

Þá er ljúft og skylt að minnast á ytra útlit bílsins, en hann er einstaklega skemmtilegur í hönnun og augljóst að hönnuðir Toyota hafa leyft sér að „flippa“ eilítið. Það skín nefnilega í gegn að smáatriðum hefur verið gefinn góður gaumur og augljóst að mikið hefur verið nostrað við hönnun bílsins. Línur hans eru í senn mjúkar og skarpar og er hann óneitanlega orðinn talsvert sportlegri í útliti en þegar hann var fyrst kynntur á markað árið 1999. Þak bílsins er kúpt og bakendinn sömuleiðis en ljósin að aftanverðu stingast skarplega út og „augu“ bílsins eru hvöss. Satt best að segja er ekki laust við að hann minni á teiknimyndafígúru úr Pixar-myndinni Bílar.

Flestir kynningarbílarnir skörtuðu svörtu þaki og einstökum skærbláum lit – sem ber hið ægifagra nafn Neptune Blue, þótt hann minni kannski einna frekar á framandi fugl eða jafnvel Twitter-fuglinn fræga. Undir venjulegum kringumstæðum hefði blái liturinn ekki endilega fallið að mínum smekk, en í söndum og leirlitu landslagi Sitges með fagurblátt Miðjarðarhafið í bakgrunni var ekki hjá því komist að falla fyrir honum. Ekki spillti það heldur fyrir að liturinn myndast afbragðsvel og féll vel að skærum litum karnivalsins.

Var það einstaklega ánægjulegt að sjá að litapallettan hélt áfram inni í bílnum í bláum saumum á sætisáklæðinu, röndum á hanskahólfi og meðfram dyrum. Sjálf hef ég mikið dálæti á bláum saumi á svartri eða grárri innréttingu enda samsetning sem getur ekki klikkað að mínu mati.

Sæti bílsins voru einnig afar þægileg og féllu náttúrulega að ökumanni og farþega. Leyfi ég mér að fullyrða að hugað hafi verið að hverju einasta smáatriði hvað varðar þægindi í akstri en til að mynda eru hurðirnar hannaðar með það í huga að þægilegt sé að hvíla annan handlegginn á þeim. Almennt eru þægindin í fyrirrúmi í bílnum sem er bæði rúmgóður í framsætum og aftursætum og því auðvelt að gleyma að um sé að ræða lítinn bíl á evrópskan kvarða (B-Segment á Euro Car Segment).

Þá hefur Toyota einnig kynnt til leiks nýja snjallsímalausn í appi framleiðandans sem kallast MyT. Veitir forritið allt að fimm notendum aðgengi að bílnum og er hægt að læsa, aflæsa og ræsa bílinn án þess að taka símann upp úr töskunni eða vasanum. Framtíðin virðist því nær en nokkru sinni fyrr og mannskepnan einu skrefi nær því að geta gengið út um útidyrnar án þess að þylja í hljóði „lyklar, veski, sími“-möntruna fyrst.

Þá mun einnig vera hægt að biðja bílinn um að blikka ljósum til að auðvelda leit á troðnum bílastæðum og kveikja á miðstöðvarkerfinu úr símanum áður en stigið er inn í bílinn og mun kuldahrollur á vetrarmorgnum því heyra sögunni til fyrir eigendur Yarisins.

Fyrst og fremst er bíllinn skemmtilegur í akstri og sýndi það sig einkum í fjallshlíðum Sitges enda fór hann léttilega með snarpar beygjur og þrönga sveitavegi. Yarisinn er því svo sannarlega enn í þróun og verið að bæta við hann í bæði virkni og stíl – og ekki hægt að fullyrða annað en að „andlitslyftingin“ á þessum gamla en góða hafi tekist vel. Yarisinn er enn tilvalinn fyrir borgarbúa í hugleiðingum um kaup á fyrsta bíl, þá sem vilja ekki vera á of stórum bíl eða þá sem vilja minnka við sig án þess að gefa eftir í afli þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrinu.

Nýja „Hybrid 130“ fæst sem staðalbúnaður í Yaris Premiere Edition og GR Sport, en í sumum Evrópulöndum fæst hann einnig í High Grade-útgáfunni. Bíllinn verður frumsýndur hérlendis í fyrri hluta apríl.

Útlitsbreytingarnar hafa, heilt á litið, heppnast vel.
Útlitsbreytingarnar hafa, heilt á litið, heppnast vel.

Toyota Yaris

Afl mótors: 130 DIN hö./96 kW

Hámarkstog: 185 Nm

Hámarkshraði: 175 km/klst.

Hröðun: 0-100 km/klst.: 9,2 sekúndur

Hröðun 80-120 km/klst.: 7,5 sekúndur

Losun: CO2: 87-98 g/km (WLTP)

Eyðsla: 3,9-4,3 l/100 km (WLTP)

Umboð: Toyota á Íslandi

Verð liggur ekki fyrir enn

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: