Traustur kostur fyrir stórar fjölskyldur

EV9-jeppinn frá Kia er rafmagnaður fjöl- skyldubíll með bæði getu …
EV9-jeppinn frá Kia er rafmagnaður fjöl- skyldubíll með bæði getu og pláss til að flytja þig og þína hvert á land sem er. Eyþór Árnason

Þú verður ekki svikinn af þessum – Þetta var það fyrsta sem sagt var við mig þegar komið var upp í umboð Kia við Krókháls 13 í Reykjavík, en þangað var ég mættur til að sækja rafmagnaðan fjölskyldubíl af stærri gerðinni. Og veistu hvað, ég er sammála. Þessi Kia er frábær bíll!

Það var í febrúar sem fengið var að láni nýtt flaggskip kóreska framleiðandans Kia, svonefndur EV9. Fram undan var ferðalag frá Reykjavík til Stykkishólms á Snæfellsnesi og það með fjögur börn í bílstólum, konu og óhóflegt magn af farangri.

Fenginn var að láni toppurinn hjá EV9, svokölluð GT Line-útfærsla. Í stuttu máli er þessi bíll stútfullur af þægindum og öryggisbúnaði fyrir bæði ökumann og farþega. Má sem dæmi nefna 360 gráðu myndavélakerfi; hita í stýri; hita og kælingu í fram- og aftursætum; rafmagnsopnun á afturhlera; stafrænan baksýnisspegil – kem að honum betur seinna; nudd í ökumannssæti og símahleðslu. Þetta er auðvitað hvergi nærri því að vera tæmandi upptalning, best er fyrir áhugasama að kynna sér þægindin á heimasíðu Kia á Íslandi, nú eða hreinlega með því að kíkja þangað í heimsókn.

Aðgengi að skottinu er mjög gott og með öftustu sæti …
Aðgengi að skottinu er mjög gott og með öftustu sæti uppi er pláss þar talsvert. Eyþór Árnason

Fyrstu kynni afar ánægjuleg

Ég veit ekki alveg hvað það er með rafmagnsbíla og sjálfvirk aðfellanleg hurðarhandföng. Það er nánast eins og gefin hafi verið út tilskipun um tilvist þeirra og nauðsyn. Í sumum tilfellum virka þessi handföng bæði seint og illa en í tilfelli EV9 eru þau „klár“, þ.e. handföngin spretta fram tilbúin til notkunar þegar gengið er upp að bílnum. Og talandi um þessi handföng. Þau eru stór og nánast klunnaleg. Takið er gott og manni finnst bíllinn allur þéttur og sterkbyggður fyrir vikið. Sú tilfinning styrkist bara þegar sest er við stýrið og hurðinni lokað. Þá heyrist traustvekjandi hljóð, ekki þessi dósahljómur sem stundum heyrist frá öðrum bílum.

Það fyrsta sem ökumaður tekur eftir er vafalaust sportlegt en stórt fjögurra arma stýri, en á því má finna stjórnbúnað fyrir ólík kerfi á borð við hraðastilli og margmiðlunarkerfi. Einnig eru þarna hnappar sem virkja ólíka aksturseiginleika, s.s. spar- eða sportakstur, og hnappar sem búa bílinn undir ólíkt undirlag á borð við snjó eða malarveg. Allt er þetta einfalt, aðgengilegt og þægilegt í notkun.

Að baki stýrinu er rúmlega 12 tommu margmiðlunarskjár sem sýnir helstu upplýsingar fyrir ökumann, s.s. hraða, hleðslu og drægni, en hægra megin þar við er annar sambærilegur skjár sem m.a. sýnir upplýsingar um tónlistarval og leiðsögukerfi. Upplausn er mjög góð og virkni enn betri. Aldrei kom upp hik né vandamál á meðan bíllinn var í reynsluakstri og það er mjög einfalt að læra á stillingar og virkni þessa kerfis.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Mitt á milli þessara kerfa, eiginlega í skugga af stýrishringnum, má finna stjórnbúnað fyrir miðstöðvarkerfi og rúðuhita. Og það verður að segjast að þessi staðsetning er eiginlega stórfurðuleg. Ég gat hið minnsta aldrei haft ökumannssætið rétt stillt fyrir mig og séð þennan stjórnbúnað án þess að sveigja höfuðið sérstaklega til hliðar og horfa þannig fram hjá stýrinu. Ófyrirgefanlegt atriði – nei, sennilega ekki. En einstaklega pirrandi þó.

Styrkur þessa bíls er tvímælalaust plássið og er hann augljóslega hannaður með þarfir fjölskyldunnar í huga. Glöggir lesendur muna e.t.v. að í upphafi greinar var þess getið að fjórum barnabílstólum hefði verið komið fyrir í bílnum meðan á reynsluakstri stóð. Þetta eru plássmiklir og klunnalegir stólar, en það var hins vegar leikur einn að koma þeim fyrir í EV9, meira að segja í öftustu sætum. Spilaði þar inn í gott aðgengi og hversu vel er hægt að opna afturdyr bílsins.

Sá bíll sem reynsluekið var hefur sex bílsæti og eru þau öll sambærileg hvað varðar stærð og þægindi. Hægt er að fá EV9 fyrir sjö manns, en í mínu tilfelli var raunar þægilegra að hafa bílinn sex manna því þannig gátu krakkarnir farið óhindrað í öftustu sætaröð án þess að færa til sæti.

Inni í þessum miðjustokki er kælihólf sem kemur sér vel …
Inni í þessum miðjustokki er kælihólf sem kemur sér vel á lengri ferðalögum. Árni Sæberg

Steinliggur á veginum

Frá höfuðborginni var stefnan sett á Snæfellsnes og var bíllinn hlaðinn fólki og farangri. Það verður að segjast að með öftustu sætin uppi kom plássið í skottinu skemmtilega á óvart. Töskur, bakpokar og útivistardót – allt fór þetta þangað inn án vandræða. Fyrir barnafólk vil ég einnig nefna að með öftustu sæti uppi væri einnig hægt að koma fyrir kerru eða minni vagni í skottinu. Svo plássgott er það. Með sætin niðri er nánast sem engin takmörk séu á þeim farangri sem hægt er að flytja. Skottið er í raun risastórt.

Kia EV9 er stór bíll, rúmir fimm metrar á lengd og tæpir 1,8 metrar á hæð. Breiddin er einnig dágóð, eða rétt tæplega tveir metrar. Þrátt fyrir þetta er ökumaður mjög fljótur að átta sig á stærð bílsins og ekki þarf mikla æfingu áður en hægt er að aka af öryggi um jafnvel þrengstu götur. Á þjóðveginum er hann þó á algerum heimavelli. Bíllinn er bæði kraftmikill og lipur og fer afar vel með ökumanninn. Fljótlega eftir að borginni sleppti var kveikt á skriðstilli sem jafnframt les gang umferðar fyrir framan bílinn. Þessi tækni ásamt veglínufylgd gerði það að verkum að mín helsta áskorun við aksturinn var að velja úr ólíkum tegundum af svæðanuddi.

En bílnum var einnig ekið utan þjóðvegar og þá m.a. á malarvegum og snjóþungum vegleysum. Í stuttu máli sagt þá steinliggur EV9. Hann var í raun ótrúlega þægilegur og traustur í akstri óháð undirlagi. Eflaust skiptir skótauið einhverju máli, en bíllinn er á 21 tommu Yokohama-dekkjum sem átu hverja áskorunina á fætur annarri.

Voldugt stýrið er bæði áberandi og þægilegt í notkun.
Voldugt stýrið er bæði áberandi og þægilegt í notkun. Árni Sæberg

Vel heppnaður í útliti

Útlit EV9, hvort sem það er að utan eða innan, verður að teljast afar vel heppnað. Bíllinn er sterklegur í útliti, kassalaga en straumlínulagaður á sama tíma. Framljósin setja mikinn svip á bílinn sem og svartir brettakantarnir. Hann verður einhvern veginn meira „röff“ með þessa innrömmun um dekkin. Svarta litinn er þó að finna víðar, s.s. við glugga, neðarlega á hurðum, á felgum, við vindskeið og á fram- og afturenda. Þetta val hönnuða Kia kemur vafalaust talsvert betur út en ef reynt hefði verið að klína krómlistum á bílinn. Slíkt er allt of algengt og fer bílum misvel. Að innan er EV9 algjör draumur. Ber þá fyrst að nefna svarthvítu leðursætin sem umvefja farþegana og höfuðpúðann á framsætunum. Já, þú last rétt. Þessi höfuðpúði er nokkuð sem þú, lesandi góður, verður að upplifa til að skilja. Hann setur ný viðmið í þægindum.

Hægra megin við ökumann er stór miðjustokkur sem geymir hleðslubakka fyrir farsíma, góð og mikil geymsluhólf, glasahaldara fyrir tvo og fjóra hnappa sem stjórna m.a. myndavélakerfi bílsins og fjarlægðarskynjurum. Neðan við margmiðlunarskjá sem finna má á miðju mælaborði eru nokkrir flýtihnappar, m.a. fyrir útvarp og miðstöð. Megi hönnuðir Kia fá hrós fyrir, því fátt veit ég leiðinlegra en að leita að hverri einustu smástillingu á tölvuskjá. Hnappar mættu vera meira ríkjandi í nýjum bílum!

Áður en við færum okkur í aftursætin er vert að segja betur frá þessum stafræna baksýnisspegli sem getið var í upphafi greinar. Einhverjir kynnu að halda að hann sé algerlega óþarfur, klassískur spegill skili sömu niðurstöðu. En svo er alls ekki. Þegar bíllinn er drekkhlaðinn farangri, eins og í mínu tilfelli, þá er stafrænn spegill sem tengdur er myndavél nauðsynlegur til að sjá aftur fyrir bílinn. Gæði upplausnar í stafræna speglinum eru mjög mikil og hann virkar einnig vel við léleg birtuskilyrði. Vilji menn hins vegar hafa gamla góða spegilinn, þá er það ekkert mál. Boðið er upp á hvort tveggja.

Aftur í er mikið pláss, hvort sem menn leggja áherslu á fótarými eða lofthæð. Það er nær óhugsandi að láta illa um sig fara í sex manna útfærslunni og ef einhver verður þyrstur á ferðalaginu er hægt að geyma svaladrykki í kæliskúffu sem aðgengileg er úr aftursætum. Í öllum sætaröðum er svo aðgengi að innstungu til að hlaða helstu snjalltæki og -síma. Þetta getur komið sér vel á löngum ferðalögum.

Kia EV9 er svo einnig með nokkurs konar stemningslýsingu í innréttingu þegar dimma tekur. Hægt er að velja um nokkra mismunandi liti en sjálfum finnst mér rauð lýsing afar skemmtileg og setur fágað yfirbragð á bílinn.

Vestur á Stykkishólm komst EV9 á um hálfri hleðslu. Ég er enginn sérstakur rafbílamaður og þekki því fremur lítið til raundrægni ólíkra rafbíla, en þessi eyðsla hlýtur að teljast ásættanleg. Það var kalt í veðri, vindasamt og bíllinn drekkhlaðinn.

En myndi ég kaupa EV9 – já, ekki spurning. Það eina sem ég myndi velta fyrir mér er liturinn. EV9 frá Kia er frábær valmöguleiki fyrir stórar og rafmagnaðar fjölskyldur.

Fjórir stólar prýða aftara rými bílsins og fer þar vel …
Fjórir stólar prýða aftara rými bílsins og fer þar vel um alla farþega enda pláss mikið. Eyþór Árnason

Kia EV9

Orkugjafi: Rafmagn

Drif: AWD

Hestöfl: 384

Stærð rafhlöðu: 99,8 kWst

Drægni: Allt að 522 km,
samkvæmt WLTP

0-100 km/klst: 5,3 sek

Eigin þyngd: 2.674 kg

Lengd: 5.010 mm

Hæð: 1.755 mm

Breidd: 1.980 mm

Hjólhaf: 3.100 mm

Farangursrými: 333 l (öll sæti
uppi); 828 l (öftustu sæti
niðri) og 2.393 l (öll sæti niðri)

Hæð undir lægsta punkt:
1.770 mm

Ábyrgð: 7 ár

Umboð: Askja

Verð frá: 13.490.777 kr

Framsætin í EV9 eru sérstaklega þægileg og litasamsetningin afar fáguð.
Framsætin í EV9 eru sérstaklega þægileg og litasamsetningin afar fáguð. Árni Sæberg
Kraftaleg kassalaga form einkennna hönnunina.
Kraftaleg kassalaga form einkennna hönnunina. Árni Sæberg
Hönnun verður að teljast vel heppnuð og er bíllinn bæði …
Hönnun verður að teljast vel heppnuð og er bíllinn bæði kraftmikill og straumlínulagaður í útliti. Grái liturinn fer honum einnig vel. Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka