Traustur kostur fyrir stórar fjölskyldur

EV9-jeppinn frá Kia er rafmagnaður fjöl- skyldubíll með bæði getu …
EV9-jeppinn frá Kia er rafmagnaður fjöl- skyldubíll með bæði getu og pláss til að flytja þig og þína hvert á land sem er. Eyþór Árnason

Þú verður ekki svik­inn af þess­um – Þetta var það fyrsta sem sagt var við mig þegar komið var upp í umboð Kia við Krók­háls 13 í Reykja­vík, en þangað var ég mætt­ur til að sækja raf­magnaðan fjöl­skyldu­bíl af stærri gerðinni. Og veistu hvað, ég er sam­mála. Þessi Kia er frá­bær bíll!

Það var í fe­brú­ar sem fengið var að láni nýtt flagg­skip kór­eska fram­leiðand­ans Kia, svo­nefnd­ur EV9. Fram und­an var ferðalag frá Reykja­vík til Stykk­is­hólms á Snæ­fellsnesi og það með fjög­ur börn í bíl­stól­um, konu og óhóf­legt magn af far­angri.

Feng­inn var að láni topp­ur­inn hjá EV9, svo­kölluð GT Line-út­færsla. Í stuttu máli er þessi bíll stút­full­ur af þæg­ind­um og ör­ygg­is­búnaði fyr­ir bæði öku­mann og farþega. Má sem dæmi nefna 360 gráðu mynda­véla­kerfi; hita í stýri; hita og kæl­ingu í fram- og aft­ur­sæt­um; raf­magn­sopn­un á aft­ur­hlera; sta­f­ræn­an bak­sýn­is­speg­il – kem að hon­um bet­ur seinna; nudd í öku­manns­sæti og síma­hleðslu. Þetta er auðvitað hvergi nærri því að vera tæm­andi upp­taln­ing, best er fyr­ir áhuga­sama að kynna sér þæg­ind­in á heimasíðu Kia á Íslandi, nú eða hrein­lega með því að kíkja þangað í heim­sókn.

Aðgengi að skottinu er mjög gott og með öftustu sæti …
Aðgengi að skott­inu er mjög gott og með öft­ustu sæti uppi er pláss þar tals­vert. Eyþór Árna­son

Fyrstu kynni afar ánægju­leg

Ég veit ekki al­veg hvað það er með raf­magns­bíla og sjálf­virk aðfell­an­leg hurðar­hand­föng. Það er nán­ast eins og gef­in hafi verið út til­skip­un um til­vist þeirra og nauðsyn. Í sum­um til­fell­um virka þessi hand­föng bæði seint og illa en í til­felli EV9 eru þau „klár“, þ.e. hand­föng­in spretta fram til­bú­in til notk­un­ar þegar gengið er upp að bíln­um. Og talandi um þessi hand­föng. Þau eru stór og nán­ast klunna­leg. Takið er gott og manni finnst bíll­inn all­ur þétt­ur og sterk­byggður fyr­ir vikið. Sú til­finn­ing styrk­ist bara þegar sest er við stýrið og hurðinni lokað. Þá heyr­ist traust­vekj­andi hljóð, ekki þessi dósa­hljóm­ur sem stund­um heyr­ist frá öðrum bíl­um.

Það fyrsta sem ökumaður tek­ur eft­ir er vafa­laust sport­legt en stórt fjög­urra arma stýri, en á því má finna stjórn­búnað fyr­ir ólík kerfi á borð við hraðastilli og marg­miðlun­ar­kerfi. Einnig eru þarna hnapp­ar sem virkja ólíka akst­ur­seig­in­leika, s.s. spar- eða spor­takst­ur, og hnapp­ar sem búa bíl­inn und­ir ólíkt und­ir­lag á borð við snjó eða mal­ar­veg. Allt er þetta ein­falt, aðgengi­legt og þægi­legt í notk­un.

Að baki stýr­inu er rúm­lega 12 tommu marg­miðlun­ar­skjár sem sýn­ir helstu upp­lýs­ing­ar fyr­ir öku­mann, s.s. hraða, hleðslu og drægni, en hægra meg­in þar við er ann­ar sam­bæri­leg­ur skjár sem m.a. sýn­ir upp­lýs­ing­ar um tón­list­ar­val og leiðsögu­kerfi. Upp­lausn er mjög góð og virkni enn betri. Aldrei kom upp hik né vanda­mál á meðan bíll­inn var í reynsluakstri og það er mjög ein­falt að læra á still­ing­ar og virkni þessa kerf­is.

En þar með er ekki öll sag­an sögð. Mitt á milli þess­ara kerfa, eig­in­lega í skugga af stýris­hringn­um, má finna stjórn­búnað fyr­ir miðstöðvar­kerfi og rúðuhita. Og það verður að segj­ast að þessi staðsetn­ing er eig­in­lega stórfurðuleg. Ég gat hið minnsta aldrei haft öku­manns­sætið rétt stillt fyr­ir mig og séð þenn­an stjórn­búnað án þess að sveigja höfuðið sér­stak­lega til hliðar og horfa þannig fram hjá stýr­inu. Ófyr­ir­gef­an­legt atriði – nei, senni­lega ekki. En ein­stak­lega pirr­andi þó.

Styrk­ur þessa bíls er tví­mæla­laust plássið og er hann aug­ljós­lega hannaður með þarf­ir fjöl­skyld­unn­ar í huga. Glögg­ir les­end­ur muna e.t.v. að í upp­hafi grein­ar var þess getið að fjór­um barna­bíl­stól­um hefði verið komið fyr­ir í bíln­um meðan á reynsluakstri stóð. Þetta eru pláss­mikl­ir og klunna­leg­ir stól­ar, en það var hins veg­ar leik­ur einn að koma þeim fyr­ir í EV9, meira að segja í öft­ustu sæt­um. Spilaði þar inn í gott aðgengi og hversu vel er hægt að opna aft­ur­dyr bíls­ins.

Sá bíll sem reynslu­ekið var hef­ur sex bíl­sæti og eru þau öll sam­bæri­leg hvað varðar stærð og þæg­indi. Hægt er að fá EV9 fyr­ir sjö manns, en í mínu til­felli var raun­ar þægi­legra að hafa bíl­inn sex manna því þannig gátu krakk­arn­ir farið óhindrað í öft­ustu sætaröð án þess að færa til sæti.

Inni í þessum miðjustokki er kælihólf sem kemur sér vel …
Inni í þess­um miðju­stokki er kæli­hólf sem kem­ur sér vel á lengri ferðalög­um. Árni Sæ­berg

Stein­ligg­ur á veg­in­um

Frá höfuðborg­inni var stefn­an sett á Snæ­fells­nes og var bíll­inn hlaðinn fólki og far­angri. Það verður að segj­ast að með öft­ustu sæt­in uppi kom plássið í skott­inu skemmti­lega á óvart. Tösk­ur, bak­pok­ar og úti­vist­ar­dót – allt fór þetta þangað inn án vand­ræða. Fyr­ir barna­fólk vil ég einnig nefna að með öft­ustu sæti uppi væri einnig hægt að koma fyr­ir kerru eða minni vagni í skott­inu. Svo pláss­gott er það. Með sæt­in niðri er nán­ast sem eng­in tak­mörk séu á þeim far­angri sem hægt er að flytja. Skottið er í raun risa­stórt.

Kia EV9 er stór bíll, rúm­ir fimm metr­ar á lengd og tæp­ir 1,8 metr­ar á hæð. Breidd­in er einnig dágóð, eða rétt tæp­lega tveir metr­ar. Þrátt fyr­ir þetta er ökumaður mjög fljót­ur að átta sig á stærð bíls­ins og ekki þarf mikla æf­ingu áður en hægt er að aka af ör­yggi um jafn­vel þrengstu göt­ur. Á þjóðveg­in­um er hann þó á al­ger­um heima­velli. Bíll­inn er bæði kraft­mik­ill og lip­ur og fer afar vel með öku­mann­inn. Fljót­lega eft­ir að borg­inni sleppti var kveikt á skriðstilli sem jafn­framt les gang um­ferðar fyr­ir fram­an bíl­inn. Þessi tækni ásamt veg­línu­fylgd gerði það að verk­um að mín helsta áskor­un við akst­ur­inn var að velja úr ólík­um teg­und­um af svæðanuddi.

En bíln­um var einnig ekið utan þjóðveg­ar og þá m.a. á mal­ar­veg­um og snjóþung­um veg­leys­um. Í stuttu máli sagt þá stein­ligg­ur EV9. Hann var í raun ótrú­lega þægi­leg­ur og traust­ur í akstri óháð und­ir­lagi. Ef­laust skipt­ir skótauið ein­hverju máli, en bíll­inn er á 21 tommu Yo­kohama-dekkj­um sem átu hverja áskor­un­ina á fæt­ur ann­arri.

Voldugt stýrið er bæði áberandi og þægilegt í notkun.
Vold­ugt stýrið er bæði áber­andi og þægi­legt í notk­un. Árni Sæ­berg

Vel heppnaður í út­liti

Útlit EV9, hvort sem það er að utan eða inn­an, verður að telj­ast afar vel heppnað. Bíll­inn er sterk­leg­ur í út­liti, kassa­laga en straum­línu­lagaður á sama tíma. Fram­ljós­in setja mik­inn svip á bíl­inn sem og svart­ir bret­ta­kant­arn­ir. Hann verður ein­hvern veg­inn meira „röff“ með þessa inn­römm­un um dekk­in. Svarta lit­inn er þó að finna víðar, s.s. við glugga, neðarlega á hurðum, á felg­um, við vind­skeið og á fram- og aft­ur­enda. Þetta val hönnuða Kia kem­ur vafa­laust tals­vert bet­ur út en ef reynt hefði verið að klína krómlist­um á bíl­inn. Slíkt er allt of al­gengt og fer bíl­um mis­vel. Að inn­an er EV9 al­gjör draum­ur. Ber þá fyrst að nefna svart­hvítu leður­sæt­in sem um­vefja farþeg­ana og höfuðpúðann á fram­sæt­un­um. Já, þú last rétt. Þessi höfuðpúði er nokkuð sem þú, les­andi góður, verður að upp­lifa til að skilja. Hann set­ur ný viðmið í þæg­ind­um.

Hægra meg­in við öku­mann er stór miðju­stokk­ur sem geym­ir hleðslu­bakka fyr­ir farsíma, góð og mik­il geymslu­hólf, gla­sa­hald­ara fyr­ir tvo og fjóra hnappa sem stjórna m.a. mynda­véla­kerfi bíls­ins og fjar­lægðarskynj­ur­um. Neðan við marg­miðlun­ar­skjá sem finna má á miðju mæla­borði eru nokkr­ir flýti­hnapp­ar, m.a. fyr­ir út­varp og miðstöð. Megi hönnuðir Kia fá hrós fyr­ir, því fátt veit ég leiðin­legra en að leita að hverri ein­ustu smá­st­ill­ingu á tölvu­skjá. Hnapp­ar mættu vera meira ríkj­andi í nýj­um bíl­um!

Áður en við fær­um okk­ur í aft­ur­sæt­in er vert að segja bet­ur frá þess­um sta­f­ræna bak­sýn­is­spegli sem getið var í upp­hafi grein­ar. Ein­hverj­ir kynnu að halda að hann sé al­ger­lega óþarf­ur, klass­ísk­ur speg­ill skili sömu niður­stöðu. En svo er alls ekki. Þegar bíll­inn er drekk­hlaðinn far­angri, eins og í mínu til­felli, þá er sta­f­rænn speg­ill sem tengd­ur er mynda­vél nauðsyn­leg­ur til að sjá aft­ur fyr­ir bíl­inn. Gæði upp­lausn­ar í sta­f­ræna spegl­in­um eru mjög mik­il og hann virk­ar einnig vel við lé­leg birtu­skil­yrði. Vilji menn hins veg­ar hafa gamla góða speg­il­inn, þá er það ekk­ert mál. Boðið er upp á hvort tveggja.

Aft­ur í er mikið pláss, hvort sem menn leggja áherslu á fóta­rými eða loft­hæð. Það er nær óhugs­andi að láta illa um sig fara í sex manna út­færsl­unni og ef ein­hver verður þyrst­ur á ferðalag­inu er hægt að geyma svala­drykki í kæliskúffu sem aðgengi­leg er úr aft­ur­sæt­um. Í öll­um sætaröðum er svo aðgengi að inn­stungu til að hlaða helstu snjall­tæki og -síma. Þetta get­ur komið sér vel á löng­um ferðalög­um.

Kia EV9 er svo einnig með nokk­urs kon­ar stemn­ings­lýs­ingu í inn­rétt­ingu þegar dimma tek­ur. Hægt er að velja um nokkra mis­mun­andi liti en sjálf­um finnst mér rauð lýs­ing afar skemmti­leg og set­ur fágað yf­ir­bragð á bíl­inn.

Vest­ur á Stykk­is­hólm komst EV9 á um hálfri hleðslu. Ég er eng­inn sér­stak­ur raf­bílamaður og þekki því frem­ur lítið til raun­d­rægni ólíkra raf­bíla, en þessi eyðsla hlýt­ur að telj­ast ásætt­an­leg. Það var kalt í veðri, vinda­samt og bíll­inn drekk­hlaðinn.

En myndi ég kaupa EV9 – já, ekki spurn­ing. Það eina sem ég myndi velta fyr­ir mér er lit­ur­inn. EV9 frá Kia er frá­bær val­mögu­leiki fyr­ir stór­ar og raf­magnaðar fjöl­skyld­ur.

Fjórir stólar prýða aftara rými bílsins og fer þar vel …
Fjór­ir stól­ar prýða aft­ara rými bíls­ins og fer þar vel um alla farþega enda pláss mikið. Eyþór Árna­son

Kia EV9

Orku­gjafi: Raf­magn

Drif: AWD

Hest­öfl: 384

Stærð raf­hlöðu: 99,8 kWst

Drægni: Allt að 522 km,
sam­kvæmt WLTP

0-100 km/​klst: 5,3 sek

Eig­in þyngd: 2.674 kg

Lengd: 5.010 mm

Hæð: 1.755 mm

Breidd: 1.980 mm

Hjól­haf: 3.100 mm

Far­ang­urs­rými: 333 l (öll sæti
uppi); 828 l (öft­ustu sæti
niðri) og 2.393 l (öll sæti niðri)

Hæð und­ir lægsta punkt:
1.770 mm

Ábyrgð: 7 ár

Umboð: Askja

Verð frá: 13.490.777 kr

Framsætin í EV9 eru sérstaklega þægileg og litasamsetningin afar fáguð.
Fram­sæt­in í EV9 eru sér­stak­lega þægi­leg og lita­sam­setn­ing­in afar fáguð. Árni Sæ­berg
Kraftaleg kassalaga form einkennna hönnunina.
Krafta­leg kassa­laga form ein­kennna hönn­un­ina. Árni Sæ­berg
Hönnun verður að teljast vel heppnuð og er bíllinn bæði …
Hönn­un verður að telj­ast vel heppnuð og er bíll­inn bæði kraft­mik­ill og straum­línu­lagaður í út­liti. Grái lit­ur­inn fer hon­um einnig vel. Árni Sæ­berg
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bílar »