Krúsað um í landi Krúnunnar

Bíllinn er glæsilegur og unir sér vél, hvort sem er …
Bíllinn er glæsilegur og unir sér vél, hvort sem er skoskri eða íslenskri náttúru. Jayson Fong

Ég var staddur á einum af fjölmörgum íþróttaviðburðum vetrarins um daginn þegar eldri maður vék sér upp að mér til að taka mig tali. Ég vissi hver hann var en þekkti hann þó ekki persónulega, hef séð honum bregða fyrir í íþróttahúsinu, og sjálfsagt höfum við einhvern tímann heilsast. Hann hóf samtalið á því að biðja mig um að afsaka framhleypnina, en hann hafði þó séð hjá syni sínum (sem ég þekkti) Instagram-færslu hjá mér þar sem ég var staddur í Skotlandi að reynsluaka nýjum Land Cruiser.

„Er hann ekki alveg geggjaður?“ spurði hann alveg ófeiminn og var greinilega spenntur að heyra svarið. „Hann er mjög flottur,“ svaraði ég af hógværð. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann hefði lengi vel átt Land Cruiser en það væru þó komin nokkur ár síðan. Var búinn að eiga 200-týpuna og síðar 150-týpuna, en féll aldrei alveg fyrir 120-týpunni. Hann hafði þó farið að skoða nýjustu útgáfuna, Land Cruiser 250, þegar bíllinn var til sýnis í Toyota fyrr í vor og verið dolfallinn yfir nýja bílnum. Það er svo sem ekkert að ástæðulausu, menn hafa beðið eftir nýja bílnum með nokkurri eftirvæntingu vitandi að hann væri á leiðinni, með nýrri hönnun og nýju útliti.

Maður sér vel í allar áttir, enda rúðurnar stærri en …
Maður sér vel í allar áttir, enda rúðurnar stærri en í fyrri útgáfum. Jayson Fong

Löng saga að baki

Land Cruiser á að baki yfir 70 ára sögu og það er svo sem við hæfi að með nýjustu útgáfunni, Land Cruiser 250, sé leitað aftur til upprunans í útliti og hönnun. Sumt breytist þó ekki, þetta er í grunninn hefðbundinn fjórhjóladrifinn jeppi með öfluga vél, góða fjöðrun, eiginleika sem nýtast bæði á malbiki og í erfiðum aðstæðum og þannig mætti áfram telja. Nýtt útlit hans er sígilt, hann er meira kassalaga en fyrri útgáfur – sem hljómar ekki vel á pappír en myndirnar tala sínu máli.

Land Cruiser 250 er fimmta kynslóð af sinni línu. Sú fyrsta, Land Cruiser 70, kom á markað um miðjan níunda áratuginn og síðan þá hefur bíllinn þróast mikið. Það hefur í raun ekki komið fram ný lína frá árinu 2009 þegar 150-línan kom á markað – og því var alveg kominn tími á breytingar. Eða hvað? Það er lítið hægt að alhæfa í þessu, því Land Crusier hefur notið gífurlegra vinsælda hér á landi á liðnum árum. Það er því kannski ekki rétt að halda því fram að Land Cruiser-notendur hafi verið að kalla eftir miklum breytingum, hvað þá nær alveg nýjum bíl, ef marka má sölutölur. Frá árinu 2020 hafa um 2.100 Toyota Land Cruiser verið nýskráðir hér á landi, en miðað við fjölda íbúa eru þessar tölur fáheyrðar í Evrópu. Það má þó alveg ætla að nýjasti bíllinn verði ekki síður vinsæll. Fyrir utan útlit og gæði, sem hvort tveggja verða bara enn betra, þá á hann sér dygga stuðningsmenn hér á landi.

Nýr LC 250 er tíu cm lengri, 9,5 cm breiðari …
Nýr LC 250 er tíu cm lengri, 9,5 cm breiðari og örlítið hærri en fyrirrennarar hans. Jayson Fong

Heimsókn í Balmoral

Það var rétt sem pabbi íþróttastráksins vísaði til; ég hafði þá nýlega farið til Skotlands að reynsluaka nýja bílnum. Það var alveg ástæða fyrir því að þessi reynsluakstur fór ekki fram á Spáni eða í Frakklandi; hér vorum við komnir til að senda bílinn í vinnu. Þess má til gamans geta að Land Cruiser-nafnið kom nú fyrst til þar sem bílnum var stillt upp sem keppinaut Land Rover, þannig að það var kannski við hæfi að stilla reynsluakstrinum upp á heimavelli Land Rover.

Það var ekki laust við að maður upplifði sig eins og maður væri staddur í þætti af The Crown, þá sérstaklega þegar komið var upp í sveit, þar sem menn klæddust tweed-fötum, vaxjökkum og grænum stígvélum. Við dvöldum í Ballater í Aberdeen, í Norðaustur-Skotlandi. Þetta er lítill bær, litlu stærri en Hvolsvöllur, þannig að upplifunin var svo sannarlega sú að við værum komnir í skoska sveit. Aðeins tíu kílómetrum vestar stendur Balmoral-kastali, hvar Elísabet II. Bretadrottning dvaldi löngum stundum og varði sínum síðustu dögum í september 2022. Á lokadegi akstursins lögðum við lykkju á leið okkar til að kíkja á Balmoral-kastala, það er ekki á hverjum degi sem maður kemur þangað. Við áttuðum okkur síðar á því að Toyota-menn biðu átekta eftir bílnum við hótelið til að þrífa hann eftir daginn, en það var samt þess virði að geta sagst hafa komið í Balmoral.

Toyota hafði flutt fjóra Land Cruiser til Skotlands fyrir viðburðinn. Lagt var upp með akstur í þrenns konar aðstæðum; á þjóðvegi, í fjalllendi og í torfæru. Akstur á þjóðvegi er, eins og búast mátti við, nokkuð þægilegur. Þrátt fyrir að standa hærri en fyrri Land Cruiser-bílar er 250-bíllinn stöðugur og rennur mun betur en 120- og 150-týpan sem mér hefur stundum fundist vagga eilítið á þjóðvegi. Þetta er fyrsti Land Cruiser-bíllinn sem kemur með rafknúinni aflstýringu og grindin er stífari en í fyrirrennurum hans.

Lúxusinn er orðinn meiri en hann var áður. Búið er að endurhanna mælaborðið þannig að allar stillingar eru mjög aðgengilegar og gluggarnir eru stærri en í fyrri útgáfum þannig að maður sér vel út allan hringinn. Hliðarspeglar eru stórir sem gefa manni góða yfirsýn en skapa þó ekki vindhljóð í akstri. Hvort sem ekið er innan bæjar eða út á þjóðvegi er bíllinn þægilegur, með fínan beygjuradíus og vart þarf að taka fram að hann er búinn öllum þeim öryggis- og aðstoðarfídusum sem gerðar eru kröfur um í nýjum bílum í dag. Með öðrum orðum, það er hægt að nota hann í miðbæ Reykjavíkur og leggja honum í þröng stæði, en það er líka hægt að njóta þess að aka honum hratt og greiðlega út á þjóðvegi.

Farangursrýmið er rúmt, allt upp í um 700 l með …
Farangursrýmið er rúmt, allt upp í um 700 l með fimm sæti uppi. Jayson Fong

Að láta bílinn vinna

Akstur í fjalllendi er eins og að drekka vatn. Maður getur stillt aksturseiginleika bílsins ef maður vill (þó ekki nauðsynlegt að breyta miklu), og bíllinn tekst vel á við þær hindranir sem honum kunna að mæta. Við ókum honum yfir hefðbundna malarvegi, yfir grjótvegi, holur, þúfur, læki og litlar ár og þannig mætti áfram telja og allan tímann glumdi gamla kosningaloforð Framsóknarflokksins í huga manns: Árangur áfram – ekkert stopp. Munurinn er þó sá að Land Cruiser dugar mun lengur en kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Þá kom að því að reyna bílinn í erfiðari aðstæðum. Búið var að útbúa það sem heimamenn vildu meina að væri erfið þrautabraut, full af drullu, vatni og að hluta til snjó. Það hafði þó rignt töluvert dagana á undan og var brautin því nokkuð hál á köflum. Það má ætla að drulla og snjór skapi að mörgu leyti sömu aðstæður, þannig að við skulum gefa okkur að bíllinn hagi sér að einhverju leyti eins. Það var aðeins hægt að leika sér með stillingar á bílnum, til dæmis hægt að læsa drifinu, og sem fyrr segir er það allt mjög aðgengilegt. Allt var þetta þó eitthvað sem bílinn réði vel við. Við vorum aldrei nálægt því að festa okkur, bíllinn lét vel að stjórn.

Í erfiðustu köflunum var áhugavert að prófa þann fídus sem líklega mætti kalla skriðbúnað (e. crawl control). Þetta er ekki alveg nýr eiginleiki en ég hafði þó ekki prófað hann áður. Hann lýsir sér í stuttu máli þannig að bíllinn keyrir sjálfur en ökumaður stýrir og getur stjórnað hraðanum lítillega með litlum snúningstakka. Þó maður stilli hraðann í efstu stillingu fer bíllinn hægt (en örugglega) yfir. Ég fór upp erfiða brekku þar sem ég keyrði sjálfur, en þar sem ég er vanur að keyra í slíkum aðstæðum á jeppum fannst mér þetta frekar einfalt. Ég lét skriðbúnaðinn hins vegar þoka bílnum niður aðra brekku sem var sleip og full af drullu, og ég skal viðurkenna að það var þægilegt að vinna þetta með bílnum. Á sama tíma getur maður séð á skjá aðstæður fyrir utan bílinn, til dæmis í kringum dekkin, sem getur hjálpað manni við akstur í erfiðum aðstæðum.

Reyndir ökumenn kunna að fussa yfir slíkum tæknibúnaði en fyrir þá sem eru minna vanir, eða vilja bara láta bílinn vinna fyrir sig, má hæglega mæla með því að nota þetta. Við skulum orða það þannig að það er meiri reisn í því að nota búnaðinn og komast á leiðarenda heldur en að þurfa að standa úti og moka sig út úr skafli eða slabbi.

Alveg ótengt þessu, þá má nú nefna að bæði framendi og afturendi Land Cruiser eru settir saman úr mörgum pörtum, þannig að ef eitthvað skaddast í erfiðum aðstæðum er hægt að skipta um þann hluta sem skemmist en þess gerist ekki þörf að skipta um hálfan bílinn.

Allar stillingar eru mjög aðgengilegar.
Allar stillingar eru mjög aðgengilegar. Jayson Fong

Það sem skiptir máli

Maður veltir því oft upp hvað það er sem skiptir mestu máli þegar kemur að bílum. Fyrir suma er það merkið sjálft, fyrir aðra er það notagildið, verðið, gæðin, þægindin o.s.frv.

Það skiptir væntanlega máli að geta notað bílinn innanbæjar með hentugum hætti. Sem fyrr segir á það við um Land Cruiser 250. Það sama á við um akstur á þjóðvegi.

Það skiptir suma máli að hafa kost á því að geta keyrt utan þjóðvegar, hvort sem er á sveitavegum eða í meira krefjandi aðstæðum. Það er óhætt að segja að þessi bíll mæti þeim kröfum.

Síðan eru það þeir sem vilja bara Land Cruiser og helst ekkert annað. Þar mætir nýi bíllinn öllum helstu kröfum. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að þessi eigi eftir að rokseljast hér á landi á næstu árum. Pabbi íþróttastráksins sem ég nefndi hér í upphafi er ekki sá eini sem er að bíða eftir því að hann komi til landsins í almenna sölu í haust.

Skjárinn sýnir aðstæður fyrir utan bílinn.
Skjárinn sýnir aðstæður fyrir utan bílinn. Jayson Fong

Land Cruiser 250

2,8 l turbo dísilvél

Um 204 hestöfl

Kemur í fimm útfærslum;
First Edition, Luxury, VX,
GX Plus og GX

Umboð: Toyota á Íslandi

Verð: 16,5-25 m.kr.

Annað sem er bætt í LC 250 er að plássið …
Annað sem er bætt í LC 250 er að plássið fyrir farþega er mun betra. Jayson Fong
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: