Töffaralegur í borg og sveit

Yaris Cross hentar vel bæði í innanbæjarakstur sem og á …
Yaris Cross hentar vel bæði í innanbæjarakstur sem og á sveitavegum. Þessi míni-jepplingur er bæði sparneytinn og smart og nýja útgáfan er mun hærri en sú gamla. Ásdís Ásgeirsdóttir

Veðurfarið í maí var ansi rysjótt og minnti oft og tíðum helst á vetur. Því sló blaðamaður ekki hendinni á móti nokkurra daga ferð til Mallorca að prufukeyra Toyota Yaris Cross sem nú hefur verið „fínstilltur“ til þess að notandinn njóti enn frekar aksturs og öryggis. Notalegt var að stíga út úr vélinni í tuttugu stiga hita og skilja gráa hversdagsleikann eftir heima um stund. Með í för var Toyota-maðurinn Páll Þorsteinsson. Bílstjóri á vegum Toyota var til reiðu að keyra okkur á hótel sem þjónar venjulega helst golfurum en hentar einnig vel til að taka á móti blaðamönnum hvaðanæva úr heiminum sem komnir eru til að berja augum og prufukeyra uppfærða útgáfu af Yaris Cross.

Við komuna á hótelið blöstu við skínandi fallegir og sportlegir bílar í röðum; í afar fallegum grágrænum lit. Eftir góðan kvöldverð utandyra var haldið í háttinn, en dagurinn á eftir reyndist hvíldardagur, sem var kærkomið eftir ferðavolkið. Undirrituð dreif sig í spa og nudd en rétt fyrir matinn fengu blaðamenn fordrykk og kynningu á þessum sportlega litla jepplingi.

Fagrir og grágrænir stóðu bílarnir í röðum og biðu eftir …
Fagrir og grágrænir stóðu bílarnir í röðum og biðu eftir að blaðamenn reynsluækju þeim á Mallorca Ásdís Ásgeirsdóttir

Gamli Yaris á sterum

Yaris hefur lengi verið vinsæll smábíll á Íslandi en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan hann kom fyrst á markað árið 1999. Smábíllinn sá er nú mikið breyttur en fyrir fjórum árum kom á markaðinn Yaris Cross, og má þá segja að Yarisinn hafi bæði stækkað og bætt á sig vöðvum. Cross er nefnilega varla neinn smábíll, heldur frekar míni-jepplingur, kraftlegur og sportlegur, og bæði smart og þægilegur í innanbæjarsnatt sem og í utanbæjarakstur. Hann er mun hærri en sá gamli þannig að bílstjóri og farþegar eiga auðvelt með að setjast inn í hann og sitja hærra en í venjulegum fólksbíl. Útsýnið er gott og að innan er hann bjartur og nokkuð rúmgóður, en vel fór um farþega í aftursætinu hjá okkur í reynsluakstrinum. Þarna tekst Toyota að sameina eiginleika jepplings og fólksbíls og setja hann auk þess í fallegan búning. Ekki er verra að bíllinn er tvinnbíll og því afar sparneytinn, en vel er hægt að sleppa með að eyða fimm lítrum á hundraðið, en hann er sjálfhlaðandi. Ekki er að undra að Yaris Cross er vinsæll í Evrópu og hefur verið valinn besti litli jepplingurinn.

Betri tækni og meiri kraftur

Yaris Cross er ekki alveg nýr af nálinni en nýja útgáfan er enn betri en sú fyrri. Hann er kraftmeiri en áður með hluta af fimmtu kynslóð af hybrid-kerfinu frá Toyota. Fimmtán hestöfl hafa bæst við og því er hann hálfri sekúndu sprækari upp í hundrað. Skjárinn er einnig nýr og flottari og afar auðveldur í notkun, en hann er fáanlegur 9 eða 10,5 tommu margmiðlunarsnertiskjá, með snerti- og raddstýringu. Annað sem hefur bæst við í tækninni er stafræni lykillinn sem gerir þér kleift að deila aðgangi að bílnum, og einnig er hægt að stilla loftræstinguna og ræsa Yaris Cross í gegnum MyToyota-appið á snjallsímanum þínum. Hjóðeinangrun hefur einnig verið bætt með betri dempurum á vélarfestingum og þykkara gleri í rúðum.

Þrjár stillingar eru fyrir aksturinn; Eco, Normal og Sport og gerir þessi stiglausa gírskipting bílinn lipran og léttan í akstri. Crossinn er framhjóladrifinn en einnig er hægt að fá hann fjórhjóladrifinn, sem auðveldar akstur í snjó og drullu.

Verkfræðingar Toyota hafa nú tekið annars fínan bíl og gert hann notandavænni og enn kraftmeiri.

Yaris Cross er léttur í stýri og lætur vel að …
Yaris Cross er léttur í stýri og lætur vel að stjórn.

Góður í sveit og borg

En aftur að Mallorca og reynsluakstrinum! Nýr dagur rann upp og sól skein í heiði, eins og líklega gerist oft á eyjunni fögru. Eftir morgunmat fengu blaðamenn í hendurnar eitt stykki skínandi hreinan Cross sem var tilbúinn í akstur dagsins. Það er alltaf sérstök tilfinning að setjast inn í glænýjan bíl, strjúka hendinni eftir sætunum, fikta í nýjum tökkum, leggja af stað og gefa aðeins í. Fram undan var þriggja tíma akstur um eyjuna með viðkomu í höfuðborginni Palma til að prófa innanbæjarakstur.

Eins og venja er í reynsluakstursferðum var búið að stilla leiðina inn í staðsetningartækið og var því auðvelt að rata með því að horfa á skjáinn eða hlýða kvenmannsröddinni sem benti manni á að nú ætti að beygja. Oftast gekk það vel, enda Páll í framsætinu að passa upp á að blaðamaður færi rétta leið út úr hinum fjölmörgu hringtorgum sem urðu á vegi okkar. Tókst okkur ágætlega að rata, þó stöku sinnum þyrfti að snúa við, en í rólegheitunum fundum við alltaf réttu leiðina. Enda var enginn að flýta sér á svona fallegum sumardegi!

Ekið var í upphafi um sveitavegi sem lágu síðar út á hraðbraut. Bíllinn var eins og hugur manns í akstri, stýrið var létt og þægilegt og frábært útsýni og gott veður skemmdi ekki fyrir. Leiðin lá inn í Palma þar sem reyndi á innanbæjaraksturinn og sýndi það sig þar að bíllinn hentar vel í borgum þar sem hann er minni en hefðbundnir jepplingar. Yaris Cross er eiginlega stór bíll í felubúningi lítils.

Eftir bílferðina í Palma var aftur ekið út í sveit. Landslagið er nokkuð hrjóstrugt en þó voru tún græn og allt í blóma. Haf og fjöll, grænar grundir, vínekrur og litlir sveitabæir var það sem blasti við augum áður en við fengum kaffisopa og kruðerí á dásamlegum stað, inn á milli vínekra. Í fjarska stóð gömul vindmylla til að fullkomna annars guðdómlegt útsýni. Þarna var tilvalið að hvíla sig yfir kaffinu og taka myndir af Crossinum í fallega landslaginu.

Haldið var af stað á ný og keyrt eftir hlykkjóttum sveitavegum, framhjá mörgum sprækum hjólreiðamönnum, og síðan brunað eftir hraðbrautum í áttina aftur að hótelinu. Þarna fékk Crossinn að prófa allt í senn, hraðbrautir, sveitavegi og götur borgarinnar og stóð sig vel á alla kanta.

Yarisinn er sportlegur að aftan og á fallegum felgum. Útlitið …
Yarisinn er sportlegur að aftan og á fallegum felgum. Útlitið er allt mjög kraftalegt Ásdís Ásgeirsdóttir

Öryggið á oddinn

Að sjálfsögðu er ekki nóg að bíllinn sé töff á að líta og þægilegur í akstri. Öryggið skiptir hvað mestu máli og þar er Toyota ekkert að spara. Boðið er upp á fimm öryggiskerfi, árekstrarviðvörunarkerfi eða árekstrarviðvörunarkerfi með greiningu gangandi eða hjólandi vegfarenda eða öðrum ökutækjum, LDA-akreinaskynjara, sjálfvirkt háljósakerfi, umferðarskiltagreiningu og sjálfvirkan hraðastilli. Þannig er hægt að forðast hættulegar aðstæður og tryggja öryggi þitt og farþega þinna. Notast er við myndavélar og ratsjá til að greina hættu á að keyra á gangandi vegfarendur og sjálfvirkur hraðastillir heldur þér í lágmarksfjarlægð frá næsta bíl fyrir framan og minnkar líkur á að keyra aftan á næsta bíl. Takist ökumanninum ekki að hemla í tæka tíð er hemlað sjálfkrafa til að forða árekstri eða draga úr höggi. Einnig er vel passað upp á að fara ekki yfir löglegan hámarkshraða sem getur verið hvimleitt en auðvitað er best að keyra á löglegum hraða og sleppa við hraðasektir.

Bíllinn „hugsar“ fyrir ýmsu öðru. Ef bílstjóri sofnar eða missir meðvitund fær ökumaður fyrst hljóðviðvörun og ef það skilar engum viðbrögðum, hægir bíllinn á sér og stöðvast svo með hættuljósin á. Einnig aflæsast dyr svo neyðaraðilar eiga aðgang að ökumanni ef þess gerist þörf.

Annað sem er hentugt er blindsvæðisskynjari sem gerir ökumanni viðvart um bíla sem lenda í blinda svæðinu. Þannig nemur hann bæði bíla og hjólreiðafólk, bæði með hljóðmerkjum og stefnuljósi í hliðarspegli. Fyrir fólk sem á erfitt með að leggja í stæði, hjálpar Toyota Teammate-bílastæðakerfið þér að leggja bílnum.

Lipur og hentugur

Eftir aksturinn var blaðamaður orðinn ansi skotinn í Yaris Cross; hann er fyrirferðarlítill bíll með stóra nærveru, lipur og smart með eiginleika sportjeppa. Yaris hentar vel einstaklingum, er fínn hjónabíll eða fyrir minni fjölskyldur, og gæti hæglega hentað yngra fólki sem vill eiga smart pæju- eða gæjabíl. Svo er hann á viðráðanlegu verði; rúmlega sex milljónir. Í Yaris Cross eru góð hljómtæki og ágætt skott og fer vel um alla farþega. Einnig er hægt að fá sportútgáfuna, GR, sem er þá aðeins sportlegri í útliti.

Það væsir sannarlega ekkert um mann í Yaris Cross.

Vel fór um bílstjórann undir stýri.
Vel fór um bílstjórann undir stýri.

Toyota Yaris Cross

Bensínvél 1,5 lítra og rafmótor

Framdrif/fjórhjóladrif

116/130 hestöfl

0-100 km/klst. á 11,2 – 11,8 sekúndum

Hámarkshraði: 170 km/klst.

CO2 losun: 75-88 g/km

Eyðsla í blönduðum akstri: 4,5 - 5,0 l/100 km

Eigin þyngd: 1190-1360 kg

Umboð: Toyota á Íslandi

Verð frá 6.460.000 kr.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 18. júní 2024.

Farangursrýmið var nokkuð drjúgt, miðað við bíl af þessari stærð.
Farangursrýmið var nokkuð drjúgt, miðað við bíl af þessari stærð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: