Sportjeppi í sportbílaformi

Macan 4 og Macan Turbo eru væntanlegir til Íslands síðar …
Macan 4 og Macan Turbo eru væntanlegir til Íslands síðar á árinu en hægt er að forpanta þá nú þegar. Þeir eiga eftir að njóta sín vel á íslenskum vegum og hafa það sem til þarf. Ljósmynd/Porsche

Það hefur eflaust verið töluverð áskorun fyrir þýska framleiðandann Porsche að koma fram með betri útgáfu af sportjeppanum Porsche Macan, sem hefur frá því að hann var fyrst kynntur árið 2015 verið mest seldi bíllinn frá Porsche. Svo virðist sem framleiðandanum hafi þó tekist það með nýjustu útgáfunum, Macan 4 og Macan Turbo. Báðir bílarnir eru alrafmagnaðir.

Macan 4 og Macan Turbo eru væntanlegir til Íslands síðar á árinu en hægt er að forpanta þá nú þegar.

Að flestu leyti er útlit bílsins kunnuglegt frá fyrri útgáfum …
Að flestu leyti er útlit bílsins kunnuglegt frá fyrri útgáfum af Porsche Macan, þ.e. grunnurinn er sá sami. Ljósabúnaðurinn hefur þó verið uppfærður og helsta breytingin er línulegri ljósabúnaður að aftan. Gísli Freyr

Flott uppfærsla

Það verður ekki annað sagt en að Porsche hafi tekist vel upp með uppfærsluna á Macan. Það má hafa í huga að til að framleiða svo kraftmikinn bíl sem knúinn er bensín eða dísilolíu þarf öfluga vél með mikið slagrými og strokkun og um leið öfluga kælingu. Í raun þarf það sama fyrir bíl sem knúinn er rafmagni, þ.e. vélin þarf að hafa sömu eiginleika auk skilvirkrar gírskiptingar. Allt þetta tekst Porsche ágætlega.

Þá hefur Porsche með hverri uppfærslu á Macan tekist að gera bílinn sportlegri. Á því er engin undantekning nú. Nokkuð hefur verið lagt upp úr því að hanna bíl sem veitir litla loftmótstöðu, en í tilviki nýs Macan hefur Porsche tekist að ná vindstuðlinum niður í 0,25 (var áður 0,35), sem er lægsti vindstuðull sem framleiðandinn hefur náð.

Að flestu leyti er útlit bílsins kunnuglegt þeim sem þekkja vel til Porsche, þ.e. grunnurinn er sá sami og áður þó svo að bíllinn sé sportlegri. Ljósabúnaður bílsins hefur þó verið uppfærður, bæði að framan og aftan, en helsta breytingin frá fyrri útgáfum er væntanlega línulegri ljósabúnaður að aftan. Bíllinn kemur á 22” felgum, sem gefur honum vígalegt útlit.

Eins og gefur að skilja er ekkert grill framan á Macan, ekki frekar en öðrum rafmagnsbílum í dag, en þó má finna loftinntak fyrir neðan húddið sem dregur inn loft eftir þörfum til að kæla batteríið sem liggur undir bílnum. Þá eru einnig ventlar til að hleypa lofti út að aftan.

Ökumaður hefur fyrir framan sig 12,6“ skjá sem auðvelt er …
Ökumaður hefur fyrir framan sig 12,6“ skjá sem auðvelt er að stilla, auk fjölmargra eiginleika í stýrinu sjálfu. Ljósmynd/Porsche

Reynsluaksturinn

Porsche bauð fjölmiðlamönnum að prufukeyra bílinn í Antibes, rétt við Nice, í Frakklandi. Að komast í suðrænt loftslag var út af fyrir sig ákveðinn lúxus og það er að mörgu leyti sérstök tilfinning að keyra nýjan Porsche Macan upp um hæðir svæðisins. Það krefst þó ákveðinnar þolinmæði að komast út úr borginni, vitandi að maður er með öll þessi hestöfl undir sér, n.t.t. 640 hestöfl, sem fá ekki að njóta sín í hægri síðdegisumferðinni. Það er þó huggun harmi gegn að vita að maður verður brátt kominn út á hraðbraut og þaðan upp í hæðirnar þar sem hægt er að nýta allt það sem bílinn hefur upp á að bjóða.

Vart þarf að nefna hversu gaman það er að keyra svona bíl á hraðbraut í útlöndum. Hámarkshraðinn á hraðbrautinni var 130 en hér var uppi sama viðhorf og til íslenskra laga um smásölu á áfengi, þar sem lögin eru aðeins til viðmiðunar og framkvæmdin síðan allt önnur. Bílinn liggur vel á um 150-160 km hraða þó líklega sé erfitt að halda honum lengi á þeim hraða á íslenskum vegum. Í nýjum Macan situr ökumaður aðeins lægra en í fyrri útgáfum, auk þess sem bílinn er um 12 mm lægri en fyrri útgáfur, og það er líklega við þessar aðstæður sem maður skilur af hverju verið er að lækka bílinn. Það gefur meiri sport-tilfinningu að sitja aðeins neðar og hjálpar ökumanni að hafa góða stjórn á bílnum.

Útlit mælaborðsins er kunnuglegt. Það sem er nýtt er að …
Útlit mælaborðsins er kunnuglegt. Það sem er nýtt er að farþegi í framsæti hefur aðgang að 10,9” skjá fyrir sig. Ljósmynd/Porsche

Þegar upp í hæðirnar er komið gefur bíllinn ekkert eftir. Hann liggur vel í beygjum, jafnvel á miklum hraða, og í raun finnur maður aldrei fyrir því að bíllinn sé að streða nokkuð. Mótorinn í bílnum er fyrir aftan aftari öxulinn (Porsche er þekktur fyrir að hafa þyngdarpuntinn aftarlega í bílum sínum) en þá gefur 5° snúningseiginleiki í aftari hjólabúnaði bílnum góðan stuðning í kröppum beygjum.

Það er gaman frá því að segja að starfsmaður Bílabúðar Benna, sem er umboðsaðili Porsche á Íslandi, fylgdi okkur tveimur fjölmiðlamönnum í aksturinn. Eitthvað fannst honum við feimnir við að taka á bílnum í hlíðum fjallanna fyrir ofan Nice og bað því kurteisislega um að fá að keyra örstuttan spöl sjálfur. Við urðum að sjálfsögðu við því. Þar sýndi hann okkur hvað bíllinn getur í raun og veru, þegar farið var í krappar beygjur á umtalsverðum hraða, látið á það reyna hversu hratt bíllinn kemst úr kyrrstöðu upp í 100 km hraða – já, það tekur aðeins 3,3 sekúndur, og hvernig hægt er að nýta aðra eiginleika bílsins í akstri. Auðvitað keyrir enginn bíl á svo miklum hraða í kröppum beygjum til lengri tíma, og hvað þá með farþega, en það er þó ágætt að fá að kynnast því hvaða eiginleika bíllinn hefur. Sú kynning var mikilvæg.

Rétt er að taka fram að hægt er að stilla fjöðrunina á bílnum eftir aðstæðum, eða láta bílinn um að gera það sjálfan enda tæknin orðin slík að hann ræður við það sjálfur.

Farangursrýmið býður upp á um 540 l geymslupláss, sem verður …
Farangursrýmið býður upp á um 540 l geymslupláss, sem verður um 1.350 l ef sætin eru felld niður. Ljósmynd/Gísli Freyr

Aðbúnaður til fyrirmyndar

Allur aðbúnaður er til fyrirmyndar, bæði fyrir ökumann og farþega. Macan Turbo er leðurklæddur að innan, ekki bara í sætum heldur eru stýrið og mælaborðið einnig þakin leðri. Í Macan 4 er hægt að velja leðurlíki eða fíber ef svo ber undir.

Þá er skemmtilegur fídus að geta stillt hljóðið á bílnum sjálfum. Eins og aðrir rafmagnsbílar er bíllinn hljóðlátur, en hægt er með nokkuð einföldum hætti í skjá bílsins að stilla á vélarhljóð ef þannig má að orði komast, þannig að þeir sem inn í bílnum sitja fá þá tilfinningu að verið að sé að gefa vélinni vel inn – en þetta er ekki síður gagnlegt fyrir gangandi eða hjólandi sem verða þá fyrr varir við bílinn.

Mælaborðið er að mestu stafrænt. Ökumaður hefur fyrir framan sig 12,6“ skjá sem auðvelt er að stilla og nota eftir hentugleik, fyrir miðju er 10,9“ snertiskjár sem frekar auðvelt er að læra á og nota með skilvirkum hætti – og eflaust eru fídusar þar sem við náðum ekki að nota í tveggja daga reynsluakstri en lærast þó fljótt með tímanum fyrir þann sem notar bílinn til lengri tíma. Þá er skemmtileg viðbót fyrir farþega sem situr frammi í, það er er annar 10,9“ skjár sem ýmist er að hægt að stilla á sjónvarpsefni eða leiðsögukerfi. Þegar bíllinn fer af stað sér ökumaður ekki á þann skjá, aðeins farþegi, þannig að hann ætti ekki að trufla ökumanninn. Það er einnig fín uppsetning á leiðbeiningum sem varpast upp í framrúðu fyrir ökumann (e. head-up display), þá sérstaklega ef verið er að nota leiðsögukerfi við akstur. Það er ekkert út á aðbúnaðinn, öryggisþætti eða aðra upplifun af bílnum að setja.

Síðan er eftir að koma í ljós hvort Macan verður vinsæll hér á landi, en sjálfsagt á að hann eftir að veita bæði bróður sínum Cayenne einhverja samkeppni sem og öðrum sportjeppum – sem sífellt verða betri og flottari.

Porsche var með til sýnis undirvagn Macan. Hér sést 800 …
Porsche var með til sýnis undirvagn Macan. Hér sést 800 V rafhlaðan, sem skipt er í tvær 400 V rafhlöður sem liggja á botni bílsins. Mótorinn sjálfur er aftarlega sem færir þyngdarpunktinn aftar, líkt og í öðrum Porsche-bílum. Ljósmynd/Gísli Freyr

Porsche Macan 4 og Turbo

5,2 og 3,3 sekúndur í 100 km hraða

Hestöfl: 408 – 639

Drægni: 613 km (Macan 4) og 591 km (Turbo)

Hleðsla upp í 80%: 21 mín

Umboð: Bílabúð Benna

Verð: Frá 14,9 m.kr.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 18. júní 2024.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: