Er ekki lítill þótt hann sé smár

„LBX er eilítið frábrugðinn systkinum sínum úr Lexus-fjölskyldunni í útliti …
„LBX er eilítið frábrugðinn systkinum sínum úr Lexus-fjölskyldunni í útliti en til að mynda er hann fyrsti Lexusinn sem skartar ekki „snældulaga“ grilli sem hingað til hefur einkennt alla Lexus-bíla.“ Eyþór Árnason

Er ég hóf störf sem bílablaðamaður hjá Morgunblaðinu var mér tjáð að oft gæti reynst erfiðara að skrifa um góða bíla en þá slæmu. Það vafðist því óneitanlega fyrir mér í fyrstu að setja orð á blað um Lexus LBX-bílinn sem ég tók til reynsluaksturs í byrjun ágúst, en fátt er út á hann að setja. Fyrir utan smá klúður af eigin hálfu í startholunum, sem leiddi til þess að ég þurfti að fara með skottið á milli lappanna í umboðið og biðja um start, rann bíllinn mjúklega af stað. Var strax ljóst frá fyrstu akreinaskiptingu að LBX er tilkomumikill, áreiðanlegur en ekki síst skemmtilegur í akstri.

Hreyfist ekki hár á höfði

Býr hann yfir öflugri blendingsaflrás og hefur upp á ýmislegt að bjóða í akstri. Móðurfyrirtækið Toyota var jú frumkvöðull á sviði þróunar tækninnar á sínum tíma og því við fáu öðru að búast en góðum akstri og eyðslugrönnum bíl. Í blendingsbílum, eða tvinnbílum eins og þeir eru einnig kallaðir, vinna bensín og rafmagn í sameiningu að því að tryggja umhverfisvænan og sparneytinn akstursmáta og eru bílarnir raunar sjálfhlaðandi – og því aldrei þörf á að stinga þeim í samband.

Módelið sem undirrituð fékk til afnota var nánar tiltekið Lexus Relax Premium með fjórhjóladrifi. Eru valkostirnir mun fleiri þegar kemur að LBX en gengur og gerist þegar jepplingar af svipaðri stærð eru annars vegar og því strax áberandi að LBX er bíll á lúxusskala. Hægt er að velja á milli Elegant, Emotion, Relax og Cool sem fást bæði í framhjóladrifinni útfærslu og fjórhjóladrifinni. Fyrir ofantaldar týpur er hægt að velja á milli þriggja búnaðarpakka: Tech, Premium og Advanced, en LBX er að sjálfsögðu einnig fáanlegur í staðalútfærslu með framhjóladrifi og Original Edition, og þá er hann öllu búinn og fjórhjóladrifinn.

LBX býr yfir 1,5 lítra þriggja strokka bensín- og rafmótorblöndu, sem skilar 136 hestöflum, ásamt rafrænni skiptingu, en hægt er að sjá á mælaborðinu hvernig bíllinn skiptir á milli mótoranna tveggja í akstri. Er hröðun hans ekki af verri endanum og fer LBX frá 0-100 á innan við 9,2 sekúndum. Ekki ber á því inni í bílnum sem er frár og stöðugur í senn og geysist af stað án þess að hár hreyfist á höfði bílstjórans. Ekki er laust við að hann urri eilítið þegar fast er gefið í sem þarf þó alls ekki alltaf að vera slæmt, að mati undirritaðrar, enda ekki laust við að maður sakni þess að það heyrist aðeins í bílum, í örri rafbílavæðingunni.

Fallegar 18″ krómfelgur eru einkennandi fyrir útlit bílsins og er …
Fallegar 18″ krómfelgur eru einkennandi fyrir útlit bílsins og er stíll hans með japönsku ívafi. Eyþór Árnason

Ríki frændi Yaris Cross

Hugsanlegar samsetningar á innréttingu bílsins eru einnig fjölmargar en hægt er að velja á milli fjögurra sætisefna, fjögurra öryggisbeltislita, 15 sætasaumslita og tveggja útsaumsstíla fyrir hurðir bílsins. Kostirnir eru ekki síðri þegar kemur að ytra byrðinu sem er hægt að sérsníða enn frekar enda hægt að velja á milli níu eintóna og sjö tveggja tóna ytri lita. Sjálf er ég veik fyrir fallegum saumi og fallegu áklæði og er það vægast sagt tilfellið í LBX. Fallegur saumur dregur línu í gegnum bak stólsins en sama saum má finna á mælaborði, miðjustokk og dyrum og eru allir snertifletir bílsins mjúkir við snertingu – sem staðfestir enn frekar að LBX er ekki hefðbundinn lítill jepplingur heldur Lexus-jepplingur.

LBX er eilítið frábrugðinn systkinum sínum úr Lexus-fjölskyldunni í útliti en til að mynda er hann fyrsti Lexusinn sem skartar ekki „snældulaga“ grilli sem hingað til hefur einkennt alla Lexus-bíla. Er hann í staðinn búinn grilli sem myndar svipað mynstur og má finna í býkúpu og gefur bílnum afar skemmtilegt og nýstárlegt útlit og er ekki laust við að yfirbragðið nikki eilítið til Japans. Fallegar 18″ krómfelgur eru sömuleiðis einkennandi fyrir útlit bílsins og skörp ljósin virðast nánast pírð.

Bílnum svipar engu að síður óneitanlega til bíls úr röðum móðurfyrirtækisins Toyota og er LBX eins og ríki og fíni frændi Yaris Cross. Innan Lexus-fjölskyldunnar er LBX aftur á móti minnstur og í þokkabót ódýrastur en alls ekki síðri þegar kemur að þægindum, akstri eða útliti. Raunar lagði Lexus mikið upp úr að tala um bílinn sem „sannan“ Lexus er hann kom fyrst á markað, enda eflaust margir sem bjuggust við eins konar „diet“ Lexus á lægra verði. LBX vantar þó síður en svo karaktereinkenni, ekki frekar en stærri bifreiðarnar frá Lexus.

Fátt hefur verið til sparað í bílnum og hefur yfirhönnuður hans, Kunihiko Endo, fullyrt að teymið hafi á móti þurft að finna nýjar leiðir og lausnir til að framleiða lúxusbíl á lægra verði. Að sögn Endos var krefjandi að halda í við fágaða og ríkulega staðla Lexus og þurftu hönnuðir því að nálgast hönnunina öðruvísi en þeir hjá Lexus eru vanir með notkun hljóðeinangrunarefna. Var sérstök áhersla lögð á að viðhalda sömu aksturstilfinningu og Lexus kennir alla sína bíla við, þéttleika og öryggi. Orð framleiðandans hafa ekki reynst innantóm og hefur Lexus sannað ágæti sitt með því að hljóta titilinn „bíll ársins 2024“ frá breska bílatímaritinu What Car?

Viðmót bílsins er afar gott og fallegur en einfaldur miðjustokkur …
Viðmót bílsins er afar gott og fallegur en einfaldur miðjustokkur aðskilur sætin. Eyþór Árnason

 

Japönsk Gestrisni

LBX á taugar til Japan að mörgu leyti en framleiðsla hans og hönnun fór m.a. fram þar. Bíllinn er framleiddur með svokölluðu Takumi-handbragði – en hver og einn Takumi-meistari hefur 25 ára reynslu að baki og einkennast vinnubrögð þeirra af nákvæmni, hraða og ástríðu fyrir handverki. Hönnun bílsins byggir einnig á japanska gildinu „omotenashi“ – eða gestrisni.

Omotenashi þýðir raunar að gestgjafi sjái þarfir gestsins fyrir og hann þurfi því aldrei að biðja um neitt. Það finnst vel að hönnuðir bílsins hafa haft þá hugsjón að leiðarljósi við hönnunina og er sem LBX vænti þarfa bílstjórans. Til að mynda er viðmót bílsins vel hannað í kringum þarfir í akstri en bílstjóranum á hægri hönd eru höldur undir kaffimál og til að leggja frá sér símann. Undirrituð var farin að spyrja sig hvort það gæti verið að aðeins væri pláss fyrir eitt drykkjarmál í bílnum en uppgötvaði þá að hægt væri að renna sætisarminum eilítið til baka og finna þar aukapláss fyrir drykkjarmál.

Ágætis geymslupláss er í bílnum miðað við stærð, þá sérstaklega undir miðjustokknum og undir sætisarminum. Skottið var sömuleiðis afar passlegt undir helgarferðarfarangurinn eða Sorpuferðina þó að smá brún sé á milli sæta og skotts og eru sætin því ekki alveg flöt þegar þau eru lögð niður sem getur verið minna praktískt. Af nægum USB-hleðsluinnstungum er að taka í bílnum og er auk þeirra einnhleðsluflötur, sem reyndar virtist einum of gjarn á að missa tengingu við símann.

Fallegur saumur dregur línu í gegnum bak stólsins og prýðir …
Fallegur saumur dregur línu í gegnum bak stólsins og prýðir mælaborð og dyr. Eyþór Árnason

Bop it-handföng

Eflaust er það umdeild skoðun en það er eitthvað heillandi við útstæð ytri handföng á nýjum bílum, enda óútskýranlegt hvers vegna allir nýir bílar á markaðnum þurfa að vera með innfellanleg handföng. Það er í það minnsta ekki mikill vá-faktor yfir því lengur. Sagan er aftur á móti önnur þegar kemur að innri handföngum LBX sem eru satt best að segja ögn pirrandi. Erfitt er að átta sig á því hvaða handbragði á að beita til þess að opna dyrnar, hvort þrýsta eigi tvisvar á handfangið, snúa eða toga. Manni fer hratt að líða eins og maður sé fastur í Bop it-leik sem maður bað ekki um að taka þátt í. Eiginleikinn er víst í öryggisskyni en almáttugur – hvers á maður að gjalda?

Rafræna læsingarkerfið í LBX er þó einnig tengt við blindsvæðisskynjara bílsins sem er ágætis aðstoðarkerfi fyrir örugga útgöngu og kemur í veg fyrir að farþegar opni dyrnar ef til dæmis bílar eða hjólreiðafólk er beint við hlið bílsins.

Að allri dramatík undanskilinni er fátt annað að LBX að finna hvað varðar virkni. Hann skilar sínu og gerir það vel. Líkt og flestir úr fjölskyldunni er LBX einnig búinn tökkum fyrir miðstöðvarkerfi og helstu stillingar, sem undirrituð getur ekki lofað nóg enda fátt verra en að þurfa að fikta í skjá til að kveikja á blæstri. Útlit takkanna og viðmót miðstokksins mætti reyndar alveg uppfæra eilítið og gera meira móðins en ég kann engu að síður að meta tilvist þeirra.

Til að auðvelda akstur í þröngum rýmum getur myndavél bílsins veitt 360° yfirsýn í rauntíma yfir svæðið kringum bílinn, ásamt mynd af svæðinu undir bílnum. Einnig býður myndavélin upp á þrívíða mynd af bifreiðinni úr lofti ásamt leiðbeiningum á skjánum til að aðstoða við akstur í þröngum aðstæðum. Vert er að taka fram að þessi eiginleiki er ekki í boði í staðalútgáfu LBX. Bakkmyndavélin veitir sömuleiðis skýra og greinilega mynd – raunar svo skýra að hægt er að lesa á skilti í gegnum hana.

Japanska omotenashi-hugmynda fræðin birtist í hverju smáatriði LBX. Hugsað hefur …
Japanska omotenashi-hugmynda fræðin birtist í hverju smáatriði LBX. Hugsað hefur verið fyrir nánast öllu. Eyþór Árnason

„Eitthvað lítið og dýrt“

Margmiðlunarkerfi LBX er afbragðsgott og býður að sjálfsögðu upp á tengingu við Apple Car Play og Android Auto. Sjálft kerfi Lexus er þó ekki af verri gerðinni og er leiðsagnarkerfið þjált og nákvæmt þó að undirrituð freistist sjaldan til að nota annað en Google Maps. Hljóðkerfi LBX á eiginlega skilið sérkafla en hljómburðurinn er á við í heimabíói eða álíka – en er aftur ekki fáanlegt í staðalútgáfunni. 13 hátalara Mark Levinson Premium-hljóðkerfið er sérhannað fyrir innanrými bílsins og skilar einstökum 7,1 rásar hljómi. Naut undirrituð svo sannarlega nýrrar plötu Charli XCX í botn í sönnum Brat-sumarstíl. Raddstýring er einnig innbyggð í bílinn og m.a. hægt að gefa fyrirskipanir í akstri, eins og að opna glugga, sem er ansi framtíðarleg upplifun. „Hey Lexus“-raddaðstoðin skilur venjulegt talmál og samhengi í setningum eins og „mér er kalt“ og getur greint hvor farþeginn í framsætinu talar.

Býður Lexus LBX einnig upp á tengingu við snjallforritið Lexus Link+ en í forritinu getur bílstjóri hitastillt bílinn eða brætt ísinn af rúðunum – jafnvel áður en hann er kominn fram úr rúminu. Sömuleiðis gerir forritið viðvart ef bíllinn er ólæstur, gluggi opinn eða ef gleymst hefur að slökkva á aðalljósunum. Frekar þægilegt fyrir klaufagangs- og athyglisbrestspésa heimsins.

Það er eins og fyrr sagði fátt út á LBX að setja að undanskildum örfáum smáatriðum. Vel tekst til við að láta bílinn troða nýjar slóðir á vegum Lexus án þess þó að hann hafi minna upp á að bjóða en forverar hans og hann er knár þótt hann sé smár. Föðuramma mín heitin var mikill fagurkeri og spurð hvað hún vildi í jóla- og afmælisgjöf svaraði hún iðulega: „Eitthvað lítið og dýrt.“ Lexusinn er kannski ódýrari í samanburði við systkini hans en maður finnur svo sannarlega fyrir því að hann er lítill lúxusbíll í fremsta flokki – og hefði því vel getað sómt sér sem gjöf fyrir ömmu.

Sjá má hvernig bíllinn skiptir á milli orkugjafa.
Sjá má hvernig bíllinn skiptir á milli orkugjafa. Eyþór Árnason

Lexus LBX Relax Premium

Fjórhjóladrifinn

136 hestöfl

Hröðun 0-100 km/klst.: 9,2 sek.

Hámarkshraði: 170 km/klst.

Hámarkstog vélar: 120 Nm

Hámarkstog rafmótors: 185 Nm

Eldsneytiseyðsla blandaður akstur: 4,5 l/100 km

Heildarþyngd: 1.820 kg

Eldsneytisgeymir: 36 lítrar

Dráttargeta: 650-750 kg

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: