Vetnisbíll gefur miklar væntingar

Vetnisbíllinn er mun léttari en forveri hans og kemur á …
Vetnisbíllinn er mun léttari en forveri hans og kemur á óvart hversu hljóðlátur hann er jafnvel á verstu vegum.

Rafknúnir bílar duga flestum almennum borgurum sem nota farartæki sitt til að komast frá A til B. Fyrir suma skapa rafbílarnir þó meira vesen en þeir eru virði. Toyota bauð blaðamönnum í grjótnámu vinnuvélaframleiðandans JCB þar sem þeir fengu að spreyta sig aðstæðunum þar á frumgerð vetnisdrifins Toyota Hilux-pallbíls.

Var það strax nokkuð ljóst að rafbíll myndi duga skammt í námunni, enda ekki valkostur að hlaða farartækið og engin rafhleðslustöð í grenndinni. Sömuleiðis væri erfitt að koma upp hleðslustöð við námuna þar sem leiða þyrfti um 78 km langa raflínu að svæðinu.

Vatnsbær og blátt lón

Svæðið er nánar tiltekið í nágrenni við Buxton-bæ í Miðhéruðum Englands en bærinn er einna þekktastur fyrir vatn. Vatnsflöskur í breskum matvöruverslunum eru margar hverjar merktar Buxton, sem var áður vinsæll orlofsbær breskra stórborgarbúa í leit að hvíld og endurnæringu í heilsulindum bæjarins.

Bæjarmyndin ber þess augljós merki að Buxton var á hátindi vinsælda sinna seint á 18. öldinni og eru flestar byggingar bæjarins í anda Georgstímabilsins.

Á bærinn ótrúlegt en sagt kennileiti sameiginlegt með Grindavík, en hann á sér einnig blátt lón þó að undirrituð leyfi sér að fullyrða að hið íslenska lón sé mun tilkomumeira – eða í það minnsta betur markaðssett. Bláa lónið í Buxton er raunar svo fullt af eiturefna- og bílaúrgangi að bæjaryfirvöld hafa í lengstu lög reynt að fæla ferðamenn frá því að synda í vatninu enda nóg af heilsulindum sem fólk getur sótt til að njóta jarðhitalindar bæjarins.

Toyota hefur framleitt 10 eintök af vetnisdrifna Toyota Hilux-pallbílnum en …
Toyota hefur framleitt 10 eintök af vetnisdrifna Toyota Hilux-pallbílnum en segir þróun á lokastigi.

Vetnisdrifnar vinnuvélar

Það var því fátt meira viðeigandi en að prufukeyra frumgerð vetnisdrifna Toyota Hilux-pallbílsins í nágrenni við bæinn, raunar í grjótnámu JCB-vinnuvélaframleiðandans sem hefur sótt innblástur í gnægtir vatnsins í umhverfinu og þróað vetnisdrifnar vinnuvélar.

Framleiðandinn hefur til þessa notast við vetni á sprengihreyfla (e. internal combustion engine) sem hafa sambærilega vinnslu og venjulegar bensín- og dísilvélar þar sem kveikt er í eldsneytinu.

Framleiðendur vinnubíla og vinnuvéla hafa raunar margir verið feimnir við að fara í raforkuskipti þar sem rafmagnið er einfaldlega óhentugra fyrir stærri vélar eða bíla sem þurfa að ferja þungan farm. Bílarnir þurfa stærri batterí sem eru þar að auki ekki besti kosturinn fyrir mikið notaða bíla sem keyra langar vegalengdir í öllum veðrum og vinna jafnvel á afskekktum svæðum fjarri hleðslustöðvum.

Tilgangur ferðarinnar var þó ekki að prufukeyra vetnisdrifna traktora eða þreskivélar JCB heldur eins og áður segir að kynnast frumgerð vetnisdrifins Toyota Hilux en pallbíllinn er með sambærilegan efnarafal og Mirai-vetnisbílarnir sem Toyota kynnti á markað árið 2014.

Í raun rafmagnsbíll

Aðeins hafa verið framleidd tíu eintök til þessa enda um að ræða tilraunaverkefni á lokastigi að sögn Toyota, þó að enn liggi ekki fyrir hvenær bíllinn kemur á almennan markað. Fimm eintök voru til reiðu til prufuaksturs fyrir blaðamenn en hinir fimm voru á leið til Parísarborgar til að taka þátt í setningarathöfn Ólympíuleikanna í júlí.

Toyota hefur fjárfest mikið í þróun vetnis síðan 1992 og gerir ráð fyrir að Evrópa verði einn stærsti vetniseldsneytismarkaður í heimi árið 2030. Framleiðandinn segir þróun vetnisdrifins Hilux vera mikilvægt skref í frekari þróun og útfærslu á vetnistækni og vetnisinnviðum um alla heimsálfuna.

Vetnisbílar eru í raun rafmagnsbílar þar sem vetni er framleitt með rafgreiningu úr vatni en þar er vetnið skilið frá súrefninu í vatninu. Vetninu er síðan dælt á bílinn þar sem það er leitt aftur saman við súrefni í efnarafli (e. fuel-cell). Við það myndast rafmagn sem notað er við að knýja bílinn. Eini „útblásturinn“ frá bílnum er því vatn.

Helsti kostur vetnisknúinna bíla er að einungis tekur örfáar mínútur að fylla fólksbíl af vetni sem dugar í 400-600 km akstur. Orkunýtingin er því ekki af verri taginu og enginn útblástur hljómar vel.

Helsti ókostur vetnis er eflaust hve flóknar vetnisstöðvar eru í uppsetningu og eins og innviðir eru í dag er lítið um áfyllingarstöðvar fyrir hinn almenna neytanda. Með verkefninu Hydrogen Mobility Europe (H2ME) er aftur á móti stefnt að fyrsta samevrópska neti vetnisáfyllingarstöðva um þessar mundir, sem mun greiða aðgang að vetnisáfyllingarstöðum til muna.

Hefur það til þessa sömuleiðis verið gagnrýnt hve orkufrek vetnisframleiðslan getur verið en svokallað „blátt vetni“ sem unnið er úr jarðgasi leiðir af sér talsverða koltvísýringslosun. Á hinn bóginn er svokallað „grænt vetni“ þar sem raforkan sem nýtt er í framleiðsluferli vetnisins kemur frá endurnýjanlegum orkugjafa. Framleiðsluferlið kallast rafgreining vatns en Orka Náttúrunnar er eini framleiðandi vetnis á Íslandi og framleiðir grænt vetni.

Hernaður og heimskaut

Frumgerð vetnisdrifins Hilux er afturhjóladrifin og er með einn rafmótor á afturásnum sem framleiðir um 134 kW afl og 300 Nm tog.

Toyota hefur komið fyrir þremur háþrýstieldsneytisgeymum í undirvagni bílsins, en hver tankur um sig getur innihaldið 2,6 kg af vetni. Fjöllaga efnarafallinn hefur 330 raffrumur og er festur fyrir ofan framás bílsins, en 1,2 kWh litíumrafhlaða geymir rafmagnið sem efnarafallinn framleiðir. Batteríið er staðsett aftarlega í undirvagninum fyrir ofan vetnisgeymana til að ganga ekki á plássið inni í farþegarými bílsins.

Bíllinn er með 600 km drægni, sem Toyota fullyrðir að sé mun meira en hægt væri að ná með rafhlöðudrifnum Hilux, þar sem vetnisdrifna aflrásin gerir bílinn mun léttari og veitir meiri hleðslu og dráttargetu fyrir vikið.

Útlit frumgerðarinnar er ekki frábrugðið hinum hefðbundna Hilux eins og hann hefur litið út á síðustu árum en bíllinn hefur vissulega þróast síðan hann var kynntur á markað árið 1968. Hafa innri burðir og afl bílsins sömuleiðis þróast mikið frá fyrstu útgáfu og hefur hann skapað sér nafn sem þolgóður og áreiðanlegur bíll sem getur staðið af sér flesta notkun eða beinlínis djöfulgang.

Það hefur einkum lýst sér í vinsældum hans til fjölbreyttrar notkunar sem nær yfir allt frá búskap og kappakstri að heimskautaleiðöngrum og jafnvel hernaði herskárra hópa.

Það var því vart hægt að ímynda sér við hverju væri að búast í fyrsta sinn bak við stýrið á vetnisdrifnum Toyota Hilux. Upplýsingapakkinn frá Toyota um reynsluaksturinn hafði raunar vakið fleiri spurningar en svör um hvað væri í vændum. Hvers vegna er reynsluaksturinn í grjótnámu? Af hverju þarf ég skó með stáltá? Er áþreifanlegur munur á dísil- og vetnis-Hilux?

Svarið við þeirri síðastnefndu kom svo sannarlega á óvart en undirrituð leyfir sér að fullyrða að það sé svo sannarlega himinn og haf á milli vetnisdrifins Hilux og þess dísildrifna.

Léttur og hljóðlátur

Blaðamenn fengu fyrst að spreyta sig á dísilbílnum í grjótnámunni til að fá tilfinningu fyrir hinum hefðbundna Hilux á vegum sem hann er ætlaður til notkunar á. Þrátt fyrir að hafa keyrt víða, þ. á m. um gríska fjallvegi og á alræmdum götum Parísarborgar, stóð undirritaðri ekki alveg á sama á lausum og rykugum vegum námunnar.

Dísilbíllinn gaf þó ekkert eftir og hélt sínu striki á grýttum jarðveginum og bröttum brekkunum. Það var þó vart hægt að heyra eigin hugsanir, hvað þá í farþeganum, enda bíllinn ansi hávær á vegi. Hugsanir um að skipta yfir í fjórhjólagír tóku einnig að sækja að á versta kafla brekkunnar, en bíllinn stóð það engu að síður af sér án gírbreytinga.

Ekki má þó gleyma að Hilux er pallbíll svo hann er kannski ekki lipur í beygjum og hringtorgum og því ráðlegast að draga vel úr hraða í beygjum – eins og gildir almennt um bíla af slíkum toga.

Sagan var aftur á móti gjörólík í vetnisbílnum en sjaldan hefur bíll verið jafn hljóðlátur á vegi svo ekki sé minnst á grýttan námuveg. Þá var einna mest áberandi hve léttur en stöðugur vetnis-Hiluxinn er, svo mikið raunar að maður varð þess vart var að keyra yfir grjóthnullung eða ofan í stóra holu. Vetnis-Hilux er eiginlega eins og dísil-Hilux hafi farið í megrun – mun liprari í beygjum og mjúkur á jafnvel verstu vegum.

Eins og áður sagði er fátt sem stöðvar Hilux bílana almennt en vetnisútgáfan stendur óneitanlega undir orðsporinu og fór léttilega með moldartroðning, brattar brekkur, möl og grjót. Ekki gafst færi á að prófa bílinn yfir fljót eða hlaða hann þungum farmi að sinni en áhugavert væri að sjá hvort hann standi sig jafn vel eða betur en forverar hans. Eitt er þó víst og það er að vetnisútgáfan er svo sannarlega engin undantekning þegar kemur að akstri og gerir raun betur í þægindum og öryggistilfinningu fyrir bílstjórann.

Reynsluaksturinn var stuttur að þessu sinni enda aðeins fimm bílar til afnota fyrir tíu blaðamenn, en það má hiklaust fullyrða að nýi Hiluxinn hafi á skömmum tíma gert sig eftirminnilegan og fyllt undirritaða tilhlökkun til að prófa lokaafurðina þegar þar að kemur.

Þar sem bíllinn er enn í vinnslu var innrétting hans ekki fullkláruð að sögn vélaverkfræðingsins Barneys Gardners, sem var með í prufuakstrinum til leiðsagnar. Það var óneitanlega léttir að heyra að enn ætti eftir að fínpússa viðmót í farþegarými bílsins sem var satt best að segja örlítið fábrotið og óspennandi. En þar sem enn er um frumgerð að ræða er það fyrirgefið – að sinni.

„Það liggur í augum uppi að vetni er góður kostur …
„Það liggur í augum uppi að vetni er góður kostur þegar kemur að grænni orku fyrir vinnuvélar og vinnubíla á borð við Hilux.“

Einblínt á rafbíla

Í spjalli um framtíð vetnisins við verkfræðinginn Gardner sagði hann um áherslu undanfarinna ára á raforkuskipti bílaframleiðenda að að hans mati væru þau einfaldlega ekki framkvæmanleg. Viðurkenndi Gardner að hann væri vissulega ekki hlutlaus, enda hefði hann unnið að þróun vetnisdrifna Hilux-bílsins í þrjú ár, en að mikilvægt væri að horfa til fjölbreyttari lausna en einungis rafbíla.

Það er ekkert launungarmál að Toyota hefur ekki verið að flýta sér inn á rafbílamarkaðinn og eflaust myndu sumir segja að þeir hafi sofnað á verðinum við að koma sér inn á ört vaxandi markaðinn. Á hinn bóginn var Toyota mikill frumkvöðull þegar kom að þróun tvinnbíla (e. hybrid) sem framleiðandinn var fyrstur til að kynna á almennan markað árið 1997. Hefur Toyota því í staðinn ákveðið að taka af stað á eigin hraða og marka sína eigin stefnu til að draga úr losun með því að horfa lengra til framtíðar.

Stefna Toyota miðar að því að „nota öll verkfærin í verkfærakistunni“ enda ekki sami bíll sem hentar hverjum og einum einstaklingi, samfélagi eða umhverfi og ekki endalaust framboð á rafhlöðum sem duga til.

Þess skal þó geta að Toyota hefur tilkynnt að rafdrifin útgáfa af Hilux-bílnum muni líta dagsins ljós í lok árs 2025 í Taílandi.

Það liggur aftur á móti í augum uppi að vetni er góður kostur þegar kemur að grænni orku fyrir vinnuvélar og vinnubíla á borð við Hilux sem hingað til hefur verið dísildrifinn. Getur vetni meira að segja verið framtíðarsvarið við að binda enda á losun lesta og skipa – en þá erum við komin út fyrir efni þessarar greinar.

Voldugir gulir háþrýstieldsneytisgeymar eru í undirvagni bílsins og tekur hver …
Voldugir gulir háþrýstieldsneytisgeymar eru í undirvagni bílsins og tekur hver um sig 2,6 kg af vetni. Unnið er að fjölgun vetnisstöðva.

Toyota Hilux H2 Frumgerð

Afturhjóladrifinn

Drægni: Allt að 600 km

Hámarkstog: 300 Nm

Hámarksvélarafl: 134 kW

Batterí: Litíum

Umboð: Toyota

Ekki liggur fyrir hvenær
bíllinn fer á almennan mark

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: