Svifið inn í framtíðina á rafskýi

XPeng G9 er nýkominn í sölu á Íslandi og er …
XPeng G9 er nýkominn í sölu á Íslandi og er glæsilegur á velli að mati blaðamanns. Eyþór Árnason

Greinin hefur veirð leiðrétt. Í innréttingu Xpeng G9 er notað leður en ekki leðurlíki, og 22 hátalarar um borð en ekki átta.

Kínverski rafbílaframleiðandinn XPeng hefur farið sístækkandi á síðustu árum, svo eftir hefur verið tekið. Fyrirtækið, sem fagnar nú tíu ára afmæli, hefur á síðustu þremur árum hafið innreið sína á Evrópumarkaðinn og stendur hún nú sem hæst. Segir það sína sögu um framtíðarhorfur XPeng að evrópski bílarisinn Volkswagen ákvað á síðasta ári að fjárfesta í fyrirtækinu fyrir 700 milljónir evra.

XPeng-rafbílarnir eru nú nýkomnir í sölu hér á Fróni, en á meðal þess sem boðið er þar upp á er krúnudjásnið þeirra, XPeng G9-sportjeppinn. Bíllinn er einkar glæsilegur að allri gerð og hönnun, enda kostar hann nýr með öllu 11.490.000 krónur. Verðið er hátt, en þó sambærilegt og samkeppnishæft við bíla frá evrópskum bílaframleiðendum.

Eitt risastökk fyrir meðaljóninn

Fyrir venjulegan meðaljón, sem venjulega keyrir um á meðalbíl sem er á meðalaldri hins íslenska bílaflota (ca. tólf ár), er það að setjast upp í G9 nánast eins og að setjast um borð í geimskipið Enterprise, slík hefur framþróunin verið á síðustu árum í öllu því sem snertir þægindi ökumannsins. Og XPeng hefur sko ekki dregið þar neitt undan.

Þægindi er nefnilega lykilorðið þegar kemur að innanbæjarakstrinum, og ná þau þægindi jafnt til ökumanns sem og farþega bæði í fram- og aftursætum. Baknudd af ýmsum mismunandi gerðum er í öllum sætum og glasahaldarar á hverju strái. Þá sjá 22 hátalarar í „surround“-kerfi til þess að öll tónlist hljómar vel.

Bíllinn er rúmgóður og fer vel um alla farþega hans, jafnt í fram- sem aftursætum, nánast of vel, þar sem undirritaður fór að hafa af því verulegar áhyggjur að frumburðurinn myndi gera uppreisn næst þegar hann yrði sóttur í skólann á meðalbílnum gamla. Þá kemst golfkylfupokinn vel fyrir í skottinu, svo ekki sé minnst á ferðatöskur og annað slíkt.

Þægindin ná líka til aksturshliðarinnar. Fjöðrunin byggist á loftpúðum, og er upplifunin nánast eins og svifið sé um á skýi. „Skutlið“ margfræga verður leikur einn og þegar undirritaður lenti í umferðarteppunni hefðbundnu ákvað dólgurinn í honum, sem venjulega hefði látið tafirnar pirra sig út í eitt, að sitja spakur og njóta þess að vera í lúxusjeppanum.

Innréttingin er einkar smekkleg og leðurklædd. Aksturstölva er í bílnum, líkt og nú er nánast staðall, og sýnir mælaborðið tölvugerða mynd af öllum hlutum. Tólf hátíðniskynjarar eru utan á bílnum, en auk þeirra eru fjórar umhverfismyndavélar, sjö skynvæddar myndavélar og ein myndavél inni í sjálfum bílnum.

Allar þessar myndavélar og stuttbylgjuradar hjálpast að við að greina nánast allt í nágrenni bílsins og túlka fyrir ökumanninn í tölvutæku formi. Þá varar bíllinn bæði við því þegar bílstjóri er að nálgast utanaðkomandi hluti, og einnig þegar bíllinn fyrir framan leggur af stað. Var hið síðarnefnda sérstaklega þægilegt í umferðarteppunum þegar kom að því að sitja löngum stundum við rauðu ljósin og láta hugann reika.

XPeng-framleiðandinn er tíu ára á þessu ári og hyggur á …
XPeng-framleiðandinn er tíu ára á þessu ári og hyggur á landvinninga í Evrópu á næstu árum. Eyþór Árnason

Pinninn kitlaður á löglegan hátt

G9 kemur með ýmiss konar akstursstillingum fyrir ökumanninn, þar sem hægt er að stilla á orkusparandi akstur eða ECO-mode, hefðbundna stillingu og svo að lokum svokallaða „Sport“-stillingu. Það var í þeirri síðastnefndu sem undirritaður brá betri fætinum undir sig og keyrði nokkuð út fyrir borgarmörkin.

Inngjöfin brást þar vel við blýfætinum þegar gefið var í, og stýrið höndlaði vel flestallar beygjur, en að sjálfsögðu þýddi Sport-stillingin líka, að það gekk heldur hraðar á orkuna en í hinum stillingunum. Að sögn framleiðandans tekur það bílinn 3,9 sekúndur að fara úr núllinu og upp í hundraðið.

Ég sem löghlýðinn ökumaður get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um það, en ég get staðfest að ég náði varla að ljúka „eitt þúsund og einn, eitt þúsund og tveir“ áður en ég var kominn upp að löglegum hámarkshraða þar sem ég lét reyna á hröðunina.

Venjulega ætti bíllinn að drífa 520 km við bestu mögulegu aðstæður, en líkt og við Íslendingar vitum, þá eru þær kannski ekki alltaf fyrir hendi. Bíllinn býður upp á hraðhleðslu, en jafnvel þótt hún sé ekki notuð, þá á bara að taka ca. 19-20 mínútur að hlaða bílinn úr 10% og upp í 80%, sem þýðir þá að fyrir lengri ferðir ætti stutt stopp á hinum hefðbundnu vegasjoppum að vera allt sem ökumaðurinn þarfnast áður en aftur er lagt „í'ann“.

G9 býður einnig upp á að notandinn setji inn sínar eigin akstursstillingar, og getur hann þá í raun sniðið bílinn að sínum ökumannsstíl, valið það sem honum finnst best úr ECO-, Standard-, og Sport- og jafnvel meira. Fyrir þá sem vilja setja sig algjörlega inn í aksturseiginleika bílsins er það líklegasta besta ráðið, að prófa sig áfram og finna það sem gerir bílinn að þínum.

Áklæðin eru úr leðurlíki, og er lagt mikið upp úr …
Áklæðin eru úr leðurlíki, og er lagt mikið upp úr innra útliti G9. Eyþór Árnason

Tölvukerfið að slíta barnsskónum

Þar komum við að einum af „göllum“ bílsins, þar sem tölvukerfið er vissulega flott, en það er ekki alveg eins notendavænt og best yrði á kosið. Það tók nokkurt bix að fara í gegnum stýrikerfið til þess að gera sumar breytingar, og sumir valkostir eins og að stilla stýri og spegla voru á aðeins of skrítnum stöðum innan kerfisins fyrir minn smekk.

Um þetta gildir þó eins og flest annað í tækni- og tölvumálum, að þegar maður er búinn að fara í gegnum „lærdómskúrfu“ stýrikerfisins er maður yfirleitt fljótur að finna allt sem maður þarf.

Hægt er að „tala“ við bílinn og heilsa með „Hey, Xpeng“. Bíllinn skilur ýmsar skipanir, svo lengi sem þær eru á ensku, og er hægt að kveikja á útvarpi, skipta um stöðvar og hækka og lækka hitann í miðstöðinni.

Í farþegasætinu er svo sérstakur skjár, sem ökumaðurinn sér alls ekki á, og þar er hægt að setja á YouTube, Netflix og aðrar streymisveitur til þess að halda farþegum bílsins uppteknum á meðan ekið er.

Þarna lenti undirritaður í einum af fáum vandræðum sem fylgdu því að keyra þennan lúxusbíl, því að þegar einlæg ósk kom úr aftursætinu um að slökkva á skjánum var ekki hlaupið að því.

Ökumaðurinn þurfti að einbeita sér að akstrinum, og ákvað því að spyrja Xpeng hvort hann gæti ekki slökkt fyrir sig. „Hey, XPeng?“ Bíllinn ákvað þá að kveikja og slökkva á útvarpi bílsins í staðinn.

Í stuttu máli sagt var þetta nánast eins og að tala við Siri, Alexu og önnur slík snjallspjallsforrit, en þau krefjast flestöll ákveðinnar lagni vilji menn eiga samtöl við þau og ég hafði einfaldlega ekki haft tíma til þess að tileinka mér þá lagni sem XPeng-spjallmennið vildi.

Skottið er rúmgott og tekur auðveldlega við golfkylfupokanum og ferðatöskunum.
Skottið er rúmgott og tekur auðveldlega við golfkylfupokanum og ferðatöskunum. Eyþór Árnason

Tíðar uppfærslur

GPS-kerfi bílsins er fínt, en fyrir þá sem eru vanir Google Maps eða öðrum slíkum öppum voru það nokkur viðbrigði að treysta á akstursleiðirnar sem bíllinn valdi frekar en þær sem síminn vildi. Rétt er að taka fram að þær voru hvorki verri né betri en í sambærilegum forritum, en stundum voru akstursleiðir bílsins frábrugðnar þeirri leið sem ég hefði valið. Hvor skyldi hafa rétt fyrir sér?

Góðu fréttirnar á þeim vígstöðvum eru að XPeng er mjög duglegt að uppfæra hugbúnaðinn í bílnum út frá reynslu viðskiptavina sinna, og munu þessi atriði öll því eflaust bara batna eftir því sem meiri reynsla fæst á íslenskar akstursleiðir og -aðstæður.

Rétt er að ítreka hér að flestallir þeir agnúar sem ég gat fundið sneru í raun að mjög litlum hlutum, og ég tel ekki að neinn þeirra sé sérstök frágangssök eða dragi úr notagildi bílsins. Þá get ég ekki útilokað að miðaldur undirritaðs hafi átt sinn þátt í þessum vandræðum og jafnvel meiri en ég vil viðurkenna.

Barnfóstruríkið minnir á sig

Sumt vakti þó meiri athygli en annað. Það voru t.d. viðbrigði að fá viðvörun í hvert einasta sinn sem ég fór yfir skráðan hámarkshraða, jafnvel þótt ég væri enn innan vikmarka. Viðvörun af þessu tagi getur reyndar verið mjög gagnleg, en á sama tíma bauð bíllinn upp á að slökkva á henni tímabundið. Þá vaknar sú spurning hvort þeir sem helst þurfa á þessum viðvörunum að halda muni ekki alltaf láta það vera sitt fyrsta verk í öllum bíltúrum að slökkva á viðvörununum? Rétt er að geta þess hér, að þetta eftirlit með hámarkshraðanum mun ekki vera að frumkvæði Kínverja heldur Evrópusambandsins.

Þá hafði bíllinn mjög góðar gætur á því að ég færi ekki of nálægt næstu akrein, og skammaði mig jafnvel einu sinni fyrir að taka aðra höndina af stýrinu! Hvað ætli Bjössi á mjólkurbílnum myndi segja?

Hin hliðin á bílnum úr barnfóstrusamfélaginu er að með þessu eftirliti koma mikil þægindi. Myndavélar bílsins skynja líkt og fyrr sagði alla umferð í kringum ökutækið. Bíllinn er sömuleiðis duglegur að vara við hættum og getur jafnvel veitt virka hemlunaraðstoð til þess að koma í veg fyrir árekstra. Er ekki þess virði að fórna smá ökumannsfrelsi fyrir öryggið sem fylgir þessum viðvörunum? Sem betur fer þurfti Benjamín Franklin aldrei að fá sér rafbíl.

Þessi þægindi sem G9 veitti voru raunar slík að mér leið nánast eins og hver sem er gæti keyrt þennan bíl, svo fremi sem viðkomandi næði niður á pedalana og sæi út fyrir gluggann, eða að minnsta kosti á mælaborðið.

Bíllinn leggur sér sjálfur í stæði, líkt og fleiri bílar gera vissulega. Fyrir undirritaðan var þetta þó algjörlega ný upplifun að verða vitni að, þar sem XPeng hefur gert það að leggja sjálfvirkt einstaklega létt, jafnvel fyrir hinn miðaldra lúddíta. Aksturstölvan greinir möguleg stæði og það eina sem ökumaðurinn þarf að gera er að ýta á snertiskjáinn og passa að sleppa höndunum af stýrinu.

Mér varð hugsað til fleygra orða vísindaskáldsagnahöfundarins Arthurs C. Clarke, sem sagði eitt sinn að öll tækni sem væri nógu háþróuð væri óaðgreinanleg frá töfrum. Og þannig leið mér, þar sem ég sat, nánast hjálparlaus fyrir aftan stýrið á meðan bíllinn bakkaði einn og óstuddur í eitt það þrengsta bílastæði sem ég hef séð á ævi minni. Þá getur bíllinn meira að segja keyrt sig sjálfur út úr stæðinu með hjálp þar til gerðs snjallsímaforrits, og hjálpar það til við að hleypa fólki inn í bílinn þegar þröng er á þingi.

Þó að ég hafi hér að ofan talið til ýmis smáatriði sem stungu í stúf verður að taka aftur fram að í stóru myndinni eru þau öll fremur smávægileg í mínum huga. Heildarmyndin er skýr: G9 er flott viðbót við rafbílaflóruna hér á landi, sér í lagi fyrir þá sem vantar góðan og þægilegan bíl fyrir alla fjölskylduna sem hentar jafnvel innanbæjar og á þjóðvegi nr. 1.

Verðmiðinn endurspeglar það, og eru eflaust ýmsir sem munu telja milljónirnar ellefu sem hann kostar full „XPengsive“. Þá er sportjeppinn vissulega umfangsmikill, sér í lagi ef ökumaðurinn er vanari minni bílum.

Fyrir þá sem setja þessi tvö atriði fyrir sig má nefna að XPeng býður einnig upp á G6, sem er minni og ódýrari útgáfa af G9, en hann fékk lofsamlega dóma á þessum vettvangi í júlí sl.

Það myndi allavega koma undirrituðum lítið á óvart ef að þeir bræður G6 og G9 ákvæðu að fjölmenna á götum borgarinnar á næstu misserum. Á endanum kemur svo að því að meðalbílnum gamla verður lagt endanlega í skiptum fyrir rafbíl. Þegar sú stund kemur mun XPeng klárlega koma til greina sem framleiðandi í huga undirritaðs.

Átta hátalarar sjá til þess að hljóðið berst vel.
Átta hátalarar sjá til þess að hljóðið berst vel. Eyþór Árnason

Xpeng G9

Drægni allt að 520 km

Hleðsla úr 10% í
80% á 20 mín.

551 hestöfl

Frá 0-100 km/klst. á 3,9 sek.

Dráttargeta: 1.500 kg

Lengd: 4.891 mm

Breidd: 1.937 mm

Hæð: 1.670-1.680 mm

Þyngd: 2.190-2.435 kg

Afhending: Haust 2024

Umboð: Una

Verð frá 10,99-11,49
milljónum með styrk

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: