Drekinn lét rauðar viðvaranir ekki stoppa sig

"Þrátt fyrir að hafa ekki litist á blikuna á leiðinni að bílaumboðinu var undirrituð hvergi smeyk undir stýri í BYD Tang sem haggaðist ekki í óviðrinu," segir í greininni. Morgunblaðið/Anton Brink

Kín­versk­um bíl­um hef­ur verið mætt með ákveðinni tor­tryggni á evr­ópsk­um markaði og hafa efa­semd­ir verið uppi um gæði þeirra og ör­yggi. Marg­ir kín­versk­ir bíla­fram­leiðend­ur hafa því lagt sig fram af nokkr­um þrótti við að stemma stigu við slík­um for­dóm­um og sýna fram á að þeir séu svo sann­ar­lega sam­keppn­is­hæf­ir utan Asíu.

Bíla­fram­leiðand­inn BYD hef­ur notið mik­illa vin­sælda á kín­versk­um markaði allt frá því að fyr­ir­tækið var stofnað árið 2003 og varð stærsti raf­bíla­fram­leiðandi í heimi á fjórða árs­fjórðungi árið 2023 þegar fé­lagið tók fram úr Tesla. BYD hef­ur líka verið stærsti bíla­fram­leiðand­inn í Kína frá 2023 þar sem Volkswagen hafði áður trónað á toppn­um í ár­araðir. Frá ár­inu 2021 hef­ur BYD svo hægt og bít­andi rutt sér til rúms á evr­ópsk­um markaði við góðar viðtekt­ir og hóf Vatt ehf. sölu á merk­inu hér á landi árið 2023.

Það skal viður­kenn­ast að und­ir­rituð vissi ekki mikið um BYD er hún arkaði niður í Skeifu í bílaum­boð Vatt ehf. til að sækja lykl­ana að glæ­nýj­um sjö sæta jeppa, BYD Tang 4x4. Fyrri út­gáfa Tang hef­ur þegar getið sér gott orð hér heima við en hér er til um­fjöll­un­ar splunku­ný út­færsla af fjöl­skyldu­bíln­um. Nýja út­gáf­an er raf­drif­inn borg­ar­jeppi með fjór­hjóla­drifi og með nóg af plássi.

Það má snúa upplýsingaskjánum lóðrétt og lárétt, eftir þörfum ökumanns.
Það má snúa upp­lýs­inga­skján­um lóðrétt og lá­rétt, eft­ir þörf­um öku­manns.

Nuddið nær í gegn­um úlp­una

Í fljótu bragði var margt sem kveikti áhuga minn er ég sett­ist und­ir stýri og ým­is­legt við hönn­un Tang og viðmót sem sló mig sem ný­stár­legt, skap­andi og ferskt. Það er öðru­vísi brag­ur yfir Tang en maður hef­ur van­ist en oft er hætt við að fram­leiðend­ur fylgi sömu stefn­um og straum­um um of og endi með of svipaðar niður­stöður. Ég stóðst því ekki mátið og glöggvaði mig á sögu bíls­ins og fram­leiðand­ans strax á bíla­stæðinu enda fór ósköp vel um mig í þægi­leg­um og mjúk­um sæt­un­um sem búa ekki ein­ung­is yfir snögg­um og skil­virk­um sæt­is­hita held­ur fjór­um nuddstill­ing­um í bæði bíl­stjóra- og farþega­sæt­inu. Tang er langt frá því að vera eini bíll­inn á markaðinum með nuddstill­ingu í fram­sæt­un­um en hann er án efa með bestu nuddstill­ing­arn­ar sem und­ir­rituð hef­ur prófað til þessa – jafn­vel í gegn­um hnausþykka úlpu bíl­stjór­ans þenn­an dag þegar rauð veðurviðvör­un var í gildi.

Sæt­in eru ekki ein­ung­is þægi­leg held­ur sömu­leiðis ein­stak­lega lag­leg og úr ekta leðri og eru skemmti­lega og fal­lega bólstruð með eins kon­ar dem­an­ta­löguðu mynstri. Þá var leðurá­klæði sæt­anna í bíln­um, sem feng­inn var til reynsluakst­urs, fal­lega kam­el­brúnt, sem er skemmti­leg til­breyt­ing frá svört­um og grá­um sæt­um úr end­urunn­um efn­um sem hafa verið í tísku að und­an­förnu. Sæt­isáklæðin og al­mennt viðmót bíls­ins gefa svo sann­ar­lega strax til kynna að um sé að ræða bif­reið í lúx­us­flokki.

Ef aftasta sætaröðin er felld niður er skottið 763 lítrar …
Ef aft­asta sætaröðin er felld niður er skottið 763 lítr­ar að stærð. Morg­un­blaðið/​Ant­on Brink

Form­lín­ur drek­ans

Tang-jepp­inn er jú hluti af Dyna­sty-syrpu fram­leiðand­ans og sæk­ir nafn sitt til Tang-veld­is­ins, auðug­asta keis­ara­veld­is­ins í sögu Kína sem ríkti frá 618 til 907 á eft­ir Sui-veld­inu og því óhætt að segja að BYD sé stolt af upp­runa sín­um og menn­ing­ar­sögu. Þá vís­ar BYD sömu­leiðis til drek­ans, ein­kenn­is­tákns og fyrr­ver­andi þjóðardýrs Kína, í lýs­ingu sinni á bíln­um. Drek­ar eru tákn fyr­ir styrk og kraft og hef­ur aðal­hönnuður BYD, Wolfgang Egger, samþætt þá eig­in­leika í hönn­un nýs BYD Tang. Afrakst­ur­inn er jeppi þar sem ein­stakt hand­verk, kraft­mikl­ar form­lín­ur og glæsi­leiki sam­ein­ast. Eggers er eng­inn byrj­andi í bíla­hönn­un og hef­ur m.a. getið sér frægð fyr­ir hönn­un sína fyr­ir fram­leiðend­ur á borð við Audi, Lam­borg­hini og Alfa Romeo.

Bíll­inn er óneit­an­lega glæsi­leg­ur, stór og íburðar­mik­ill líkt og nafnið gef­ur til kynna. Fram­ljós­in kveikja og slökkva á sér lið fyr­ir lið, sem er ávallt til merk­is um að hönnuðir hafi hugað að hverju ein­asta smá­atriði. Inni í bíln­um er einnig fal­legt og skemmti­legt ljósa­kerfi í öll­um regn­bog­ans lit­um sem hægt er að stilla eft­ir eig­in höfði hverju sinni. Vanda þarf til verka þegar kem­ur að marg­lit­um ljós­astill­ing­um sem geta auðveld­lega litið út eins og LED-ljósa­keðja á stúd­enta­görðum, leikja­tölvu­borð í ung­linga­her­bergi eða ósmekk­leg jólasería. Hönnuðum Tang hef­ur bless­un­ar­lega tek­ist vel til og er lýs­ing­in eng­an veg­inn trufl­andi held­ur dans­ar skemmti­lega yfir mæla­borðið á lit­rík­an og smekk­leg­an hátt. Er hann einnig bú­inn mynd­ar­legu sólþaki, sem hægt er að opna, loka og skyggja þó að ekki hafi gef­ist tæki­færi til að prófa þann búnað í ofs­veðrinu í byrj­un fe­brú­ar.

Ekki er hægt að tala um BYD Tang án þess að tala um hve rúm­góður og pláss­mik­ill hann er, en jepp­inn er til­val­inn fyr­ir fjöl­skyld­ur sem eiga barnaláni að fagna og eru alls sjö sæti í bíln­um, hvar af tvö þeirra eru niður­fell­an­leg í stóru skott­inu. Pláss und­ir far­ang­ur og stærri farm er því vissu­lega fórn­ar­kostnaður í þágu sjötta og sjö­unda farþeg­ans en skottið er 763 lítr­ar aft­an við aðra sætaröð í fremstu still­ingu, 578 lítr­ar aft­an við aðra sætaröð í öft­ustu still­ingu og 192 lítr­ar aft­an við þriðju sætaröð, þ.e. þegar öll sæt­in eru uppi. Ver­andi elst í stór­um systkina­hóp má segja að ég sé vel sjóuð þegar kem­ur að sjö sæta fjöl­skyldu­bif­reiðum enda dugði ekk­ert minna und­ir fimm systkini og for­eldra. Þrátt fyr­ir að ég hugsi til gömlu Chrysler-smárútu fjöl­skyld­unn­ar með hlýhug þá verður að viður­kenn­ast að Tang-jepp­inn hefði verið aðeins meira töff í æf­inga­akst­ur­inn minn á sín­um tíma, en hefði enn hentað vel í skóla­skutl, inn­kaupaleiðangra og dags­ferðir.

Nefna má að BYD Tang 4x4 hlaut fimm stjörn­ur í ör­yggis­próf­un Euro NCAP og er bú­inn háþróuðu ADAS-kerfi (Advanced Dri­ver Ass­ist­ance System) og fjöl­breyttu úr­vali ör­ygg­is­búnaðar. Bíla­fram­leiðend­ur í Kína hafa vissu­lega gerst fram­sækn­ari á alþjóðamarkaðnum á síðustu árum í kjöl­far raf­bíla­væðing­ar­inn­ar. Marg­ir hverj­ir geta boðið upp á betri verðmiða en evr­ópsk­ir og banda­rísk­ir fram­leiðend­ur og hafa einnig sér­hæft sig í raf­hlöðum sem þola hita- og kulda­breyt­ing­ar bet­ur en aðrar. Áhyggj­ur hafa þó verið uppi um að verðmun­in­um fylgi skerðing á gæðum og að stöðlum fram­leiðslu og hönn­un­ar á bíl­um í Kína sé háttað öðru­vísi. Á það þó aug­ljós­lega ekki við í til­felli BYD Tang 4x4 að mati ör­ygg­is­ráðsins, sem tel­ur hann ívið ör­ugg­ari en marga aðra bíla á vest­ræn­um markaði.

Und­ir­rituð hef­ur þó ekki alltaf verið sam­mála ör­ygg­is­vott­un­um Euro NCAP en stund­um kunna hinar ýmsu ör­ygg­is­still­ing­ar að valda meiri háska en ella, enda er ekk­ert meira trufl­andi í akstri en bjöll­ur og flaut­ur píp­andi yfir minnstu smá­atriðum, eða belti sem herðir um háls bíl­stjór­ans eða stýri sem rykk­ir í á móti bíl­stjór­an­um eins og and­stæðing­ur í reip­togi.

Það á þó svo sann­ar­lega ekki við í til­felli Tang sem hef­ur fundið góðan milli­veg í ör­yggi og því að vera ekki gjör­sam­lega óþolandi og óþjáll í akstri – að und­an­skil­inni still­ing­unni sem lækk­ar í tón­list­inni þegar bíl­stjóri ekur 1 kíló­metra yfir há­marks­hraða sem er jú ein­göngu til þess fallið að ala á öku­bræði. Hljóm­kerfi bíls­ins býr yfir 12 há­töl­ur­um á víð og dreif í bíln­um en hljóðgæði eru ekki eft­ir­minni­lega mik­il þótt ágæt séu. Þá leyfi ég mér að kvarta yfir hljóðtökk­um þessa ágæta bíls en þeir eru inn­byggðir í stýri bíls­ins og í miðju­stokki á hægri hendi bíl­stjór­ans. Um er að ræða skrolltakka en ef þrýst er á þá slökkva þeir á hljóm­kerf­inu. Þó að tækn­in kunni að hljóma mein­laus kom það nán­ast und­an­tekn­inga­laust fyr­ir að ég slökkti óvart á tón­list­inni þegar ég ætlaði mér að hækka eða lækka í henni, sem get­ur hratt orðið þreyt­andi.

Takkarnir til að stýra útvarpinu gátu verið örlítið til vandræða.
Takk­arn­ir til að stýra út­varp­inu gátu verið ör­lítið til vand­ræða.

Raf­stöð á hjól­um

Það leyn­ir sér þó ekki að BYD-menn vita hvað þeir syngja í öðrum efn­um og má þar helst nefna 108,8 kWst BYD Bla­de-raf­hlöðu sem Tang-jepp­inn er bú­inn og tek­ur ein­ung­is 30 mín­út­ur að hlaða hana úr 30% í 80% með hraðhleðslu­búnaði. Þá gagn­ast raf­hlaðan einnig sem fær­an­leg raf­stöð og er hægt að tengja raf­magns­tæki eins og kaffi­vél­ar, viðlegu­búnað eða raf­magns­grill við raf­hlöðu bíls­ins.

BYD hef­ur verið leiðandi í þróun nýj­unga við raf­hlöðufram­leiðslu og hef­ur fyr­ir­tækið aflað sér mik­ill­ar reynslu og viður­kenn­ing­ar við fram­leiðslu annarra raf­tækja, sem virðist koma að góðum not­um við bíl­smíðina. Hef­ur fyr­ir­tækið til að mynda lengi ann­ast fram­leiðslu spjald­tölv­unn­ar iPad fyr­ir Apple og þarf því ekki að koma á óvart að skjá­ir og sner­ti­tækni í bíl­um úr röðum fram­leiðand­ans eru nær óaðfinn­an­leg.

15,6 tommu skjár fyr­ir miðju mæla­borði jepp­ans er með framúrsk­ar­andi gæðum og ljóst að BYD hef­ur sérþekk­ingu á því sviði. Þá get­ur bíl­stjór­inn kosið sér hvort hann vilji hafa skjá­inn langs­um eða þvers­um og er alltaf gam­an að hafa ólíka val­mögu­leika, jafn­vel þegar kem­ur að ein­hverju svo smá­vægi­legu, sem gera bíl­stjór­an­um kleift að sér­sníða bíl­inn eft­ir eig­in höfði.

Rás­fast­ur í rok­inu

Jepp­inn var feng­inn að láni er rauðar viðvar­an­ir voru í gildi um land allt og stóð hann veður og vinda létti­lega af sér. Þrátt fyr­ir að hafa ekki lit­ist á blik­una á leiðinni að bílaum­boðinu var und­ir­rituð hvergi smeyk und­ir stýri í BYD Tang sem haggaðist ekki í óviðrinu. Örygg­is­til­finn­ing á vegi bygg­ist nefni­lega ekki bara á nýj­um og ESB-til­skipuðum ör­ygg­is­still­ing­um held­ur líka staðfast­leika, stærð og gæðum öku­tæk­is­ins. Þrátt fyr­ir stærð Tang, sem gæti talið manni trú um að hann sé þung­lama­leg­ur í akstri, er jepp­inn ansi létt­ur og frár á vegi og leys­ir afl sitt úr læðingi hratt og áreynslu­laust þegar stigið er á afl­gjöf­ina. Stýr­ing­in er þægi­leg og létt og eru eng­ir hnökr­ar og hnykk­ir þegar stigið er af gjöf­inni, eins og er því miður of al­gengt í of viðkvæm­um raf­bíl­um. Þá er framrúðuglæja (HUD) sem nýt­ist vel í akstri auk 360° mynda­vél­ar sem kom skemmti­lega á óvart, enda mjög mis­jafnt hvernig út­færsl­ur á slík­um mynda­vél­um eru og hversu vel þær nýt­ast í akstri.

Gam­an var að spreyta sig á að nota raddaðstoð jepp­ans sem hægt er að ávarpa með orðunum „Hey BYD.“ Eins og á við um flest­ar raddaðstoðir þreytt­ist maður fljótt á að blaðra við hana enda margt sem þær eiga eft­ir að læra eða hafa ekki heim­ild til að læra. BYD-aðstoðin má þó eiga það að hún er vök­ul, skýr og heyr­ir orðaskil hjá jafn­vel lág­mælt­um muldr­ur­um.

BYD Tang 4x4 hef­ur upp á margt að bjóða og býður vest­ræn­um bíla­fram­leiðend­um svo sann­ar­lega birg­inn þegar kem­ur að gæðum og ör­yggi. BYD-drek­inn hef­ur sýnt fram á að hann er ekki ein­ung­is sam­keppn­is­hæf­ur held­ur er hann mætt­ur til að veita al­vöru sam­keppni á nýj­um markaði.

Leðuráklæðið á reynsluakstursbílnum var í einkar skemmtilegum lit.
Leðurá­klæðið á reynsluakst­urs­bíln­um var í einkar skemmti­leg­um lit.

BYD Tang 4x4

Fjór­hjóla­drif­inn

Há­marks­afl: 380 kWst

BYD Bla­de-raf­hlaða (LFP) 108 kWst

Drægni: 530-682 km (WLPT)

Drátt­ar­geta: 1500 kg

Há­marks­hleðslu­geta: AC/​DC: 11kW/​170kW

Hröðun 0-100 á 4,9 sek.

Há­marks­hraði: 190 km/​klst.

Heild­arþyngd: 3.205 kg

Far­ang­urs­rými: 763 lítr­ar aft­an við aðra sætaröð í fremstu still­ingu. 578 lítr­ar aft­an við aðra sætaröð í öft­ustu still­ingu. 192 lítr­ar aft­an við þriðju sætaröð.

Verð: 11.690.000 kr.

Umboð: Vatt ehf.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bílar »