Þegar Citroën svipti hulunni af DS bílnum árið 1955 á bílasýningunni í París má segja að þeir sem börðu hann augum hafi misst kjálkana í gólfið.
Með sinn straumlínu- og dropalaga skrokk og endalausan lista af tæknilegum uppgötvunum var hann eitthvað sem enginn gat átt von á svo skömmu eftir stríð. Hann varð strax athyglisverðasti bíll í heimi og þykir reyndar enn þann dag í dag stórkostlegur bíll sem stenst vel nútímakröfur.
Það sem aðdáendur hans vissu ekki þá var að ótrúlegir eiginleikar hans myndu síðar bjarga lífi forseta þeirra. Það er engin mýta og verður skýrt út síðar í greininni.
Citroën hefur lengi haft þann ágæta stimpil á sér að framleiða bíla sem eru langt á undan sinni framtíð, bæði hvað varðar ytra útlit og tækninýjungar. Árgerð 1934 af Traction Avant er gott dæmi um það. Hann var fyrsti bíllinn með heilan undirvagn og framhjóladrifinn. Hann markaði því slóðina fyrir aðra bílaframleiðendur. Rétt fyrir stríð voru verkfræðingar Citroën farnir að vinna að hönnun tveggja framtíðarbíla. Annar þeirra átti að vera einfaldur og ódýr og hinn lúxusbíll hlaðinn nýjungum og þægindum og einfaldlega langbesti bíll í heimi. Þá skall stríðið á og Þjóðverjar réðust inn í Frakkland árið 1940.
Forstjóri Citroën, sem hataði nasista ósegjanlega, fyrirskipaði að teikningar af þessum tveimur bílum yrðu faldar svo þær féllu ekki í hendur nasistum, sem hann óttaðist að myndu nota þá sem stríðstól. Þessir tveir bílar eru ekki óþekktari bílar en 2CV og DS. Báðir áttu þeir að vera hagkvæmir í rekstri og þola álag misgóðra vega. Það reyndust þeir báðir geta, þó langt væri í smíði þeirra enn.
Charles De Gaulle var mikil stríðshetja úr seinni heimsstyrjöldinni og var forsætisráðherra í ríkisstjórn Frakklands sem var í útlegð í Englandi að tilstuðlan Þjóðverja. Eftir stríð gegndi hann áfram því embætti til skamms tíma en hætti eftir töluverða stjórnmálakrísu sem í landinu var. Hann var síðan kjörinn forseti Frakklands árið 1958. Þá naut Citroën DS gríðarlegra vinsælda og þótti hæfa vel sem forsetabifreið.
Bíllinn hafði flest til að bera umfram aðra bíla, hann var framhjóladrifinn með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, með bremsudiska að framan, byggður á heilli grind (unibody), var sjálfskiptur og hafði feikimikið innanrými sem var hlaðið lúxus. Það atriði af öllum þessum nýjungum sem mestu skipti svo forsetinn mætti halda lífi var hin frábæra fjöðrun bílsins, sjálfstæð á öllum hjólum og dempararnir voru með pressuðu gasi og olíu sem gerði bílnum kleift að lyfta sér eftir þörfum og aðlaga sig þyngd og hvaða aðstæðum sem var. Þessi fjöðrun hélt bílnum alltaf stöðugum sama hvað gekk á.
Það átti einmitt ýmislegt eftir að ganga á í kringum De Gaulle. Á hans valdatíma var 30 sinnum reynt að ráða hann af dögum. De Gaulle veitti Alsír sjálfstæði árið 1962 og það mislíkaði mönnum í samtökum einum sem börðust hatrammlega fyrir því að nýlendan lyti áfram stjórn Frakklands. Svo langt gengu þeir í baráttu sinni að þeir reyndu að myrða forsetann í mikilli eftirför þar sem skotið var 140 byssukúlum að Citroën DS bíl forsetans. Við það létust tveir lögreglumenn á mótorhjólum sem fylgdu bílnum.
Kúlurnar sprengdu öll dekk bílsins og méluðu afturrúðuna. Það dugði alls ekki til þess að för DS bílsins yrði stöðvuð. Ökumanni hans tókst að aka bílnum við þessar hrikalegu aðstæður á slíkri ferð að forsetinn komst undan ómeiddur. Það hefði tæplega tekist á mörgum bílum enn þann dag í dag en eiginleikar þessa bíls eru slíkir að ökumenn hans segja að það sé eins og að svífa um á töfrateppi.
Þessari hrikalegu eftirför er vel lýst í kvikmyndinni Dagur Sjakalans og er atriðið ódauðlegt í kvikmyndasögunni. Ást forsetans á DS bílnum jókst mikið við þennan atburð og þegar Fiat reyndi að kaupa fjárvana Citroën árið 1969 steig De Gaulle inn í og takmarkaði eignarhluta Fiat við 15%. Seinna átti fyrirtækið aftur eftir að verða alfranskt.