Íslenskir neytendur eru mjög áhugasamir um umhverfisvæna bíla. Brynjar Elefsen Óskarsson er vörustjóri hjá Heklu og segir hann græna og sparneytna bíla skipa æ stærri hluta af heildarsölu bílaumboðsins. Þróunin er hröð, verðsamanburðurinn hagstæður og ekki von á öðru en að grænu bílarnir muni halda áfram að sækja á.
„Við áætlum að árið 2016 verði um 50% af þeim bílum sem við seljum grænir bílar, þ.e. eitthvað annað en hefðbundnir bensín- og dísilbílar,“ segir Brynjar.
Hekla selur bíla frá Volkswagen, Audi, Mitsubishi og Skoda. Framleiðendurnir hafa lagt áherslu á ólík afbrigði grænna bíla og hafa viðskiptavinirnir úr mörgum möguleikum að velja:
„Síðastliðin ár hefur Mitsubishi lagt ofuráherslu á þróun rafmagnsbíla. Þróunarvinnan hefur m.a. borið ávöxt í bílnum i-MiEV, fjögurra sæta smábíl sem gengur fyrir rafmagni eingöngu. Það sem af er árinu höfum við selt sjö i-MiEV bíla, bæði til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana,“ segir Brynjar.
Rafmagnsbíllinn kostar 3.890 þús. og er sambærilegur í stærð við VW Polo. Til samanburðar kostar bensín-útgafan af Polo um 2,8 milljónir. „Reiknað hefur verið út að á u.þ.b. 4-5 árum greiði eldsneytissparnaðurinn upp þennan mun. Ef miðað er við 15.000 km akstur á ári er ekki fjarri lagi að eldsneytið á bensínbíl kosti um 200.000 kr. Þá bætist við að reikna má með ódýrara viðhaldi á rafmagnsbílnum því vél og drifbúnaður eru gerð úr færri einingum.“
Árið 2010 voru gerðar ítarlegar prófanir á i-MiEV hér á landi. Segir Brynjar að prófanirnar hafi leitt örfáa vankanta í ljós sem Mitsubishi brást við með því að gera ýmsar betrumbætur. „Það kom t.d. í ljós að þegar vindmótstaða var mikil, ekið um nokkuð hæðótt borgarandslag, og bíllinn notaður í miklum kulda var drægi einnar hleðslu ekki 160 km eins og reiknað hafði verið með, heldur á bilinu 70-80 km. Þetta var hægt að laga að stórum hluta með því að tengja miðstöðina við fjarstýringu. Þannig er hægt að hita bílinn áður en lagt er af stað, á meðan hann er enn í sambandi, og spara með því móti mikið af hleðslunni.“
Í umræðunni um rafmagnsbila hafa skotið upp kollinum áhyggjuraddir um endingu rafhlöðunnar. Þeir sem nota fartölvur kannast við að rafhlöður hafa sína endingu og kosta líka sitt. „Ætla má að um helmingur af verði bílsins sé vegna rafhlöðunnar,“ segir Brynjar en bætir við að reikna megi með að rafhlaðan endist jafnlengi og bíllinn. „Á rafhlöðu i-MiEV er 5 ára ábyrgð og gera prófanir ráð fyrir því að eftir 8-10 ára notkun haldi rafhlaðan um 80% af fullri hleðslu. Reikna má með að í framtíðinni verið svo hægt að selja notaðar rafbíla-rafhlöður, kannski fyrir 30% af upphaflegu verði, en menn hafa séð not fyrir slíkar rafhlöður til að jafna álagið á rafmagnskerfið þar sem þörf er á.“
Volkswagen hefur einbeitt sér að metanvélum og segir Brynjar metanbíla mjög vinsæla hérlendis. „Við höfum selt yfir 200 metanbíla frá ársbyrjun 2010 og er ekkert lát á,“ segir hann. Áhuginn ætti ekki að koma á óvart enda sameinar metanbíllinn góða drægni og lítinn eldsneytiskostnað. „Það kostar um 40% minna að aka á metanbil en á bensínbíl, og um 25% minna en að nota dísil.“
Það sem helst stendur metanbílnum fyrir þrifum er að eldsneytið fæst ekki víða. „Enn sem komið er eru bara tvær metanstöðvar á höfuðborgarsvæðinu en áætlanir eru uppi um að fjölga afgreiðslustöðvum. Sumir hafa áhyggjur af að metanframleiðslunni á Álfsnesi séu takmörk sett, en framleiðslan þar á að geta dugað fyrir 3.500 bíla. Sjálfur tel ég ósennilegt að metanskortur verði vandamál og veit m.a. að verið er að athuga möguleika á frekari metanvinnslu. Ef sala á metanbílum tæki mikinn kipp væri markaðurinn fljótur að bregðast við, því það á alls ekki að taka langan tíma að byggja og gangsetja metanverksmiðju.“
Ef það er freistandi að kaupa grænan og sparneytinn bíl í dag þá verður freistingin ennþá meiri á næstu árum. Brynjar segir von á miklu úrvali alls kyns umhverfisvænna bíla næstu 2-3 árin og ættu allir að geta fundið bíl sem smellpassar að þeirra þörfum. „Við eigum von á sex nýjum metanbílum á næsta ári, þar á meðal Skoda Octavia og VW Golf auk ýmissa tvinn-bíla sem eiga vafalítið eftir að henta vel aðstæðum á Íslandi, þ.ám. Mitsubishi Outlander.“
Að aka um á grænum bíl er eitthvað sem fólk er enga stund að venjast, að sögn Brynjars. „Það kemst mjög fljótt upp í vana að stinga rafmagnsbílnum í samband þegar heim er komið og ég veit t.d. ekki til þess að nokkur hafi lent í því að stranda á tómum rafmagnsbíl í borginni. Að fylla á metantank er ögn öðruvísi en að nota bensíndæluna en handtökin eru ekki flókin og lærast fljótt. Ég var sjálfur orðinn fullfær í þessu þegar ég dældi á metanbíl í annað sinn.“
Aksturseiginleikarnir eru líka þeir sömu, og jafnvel betri ef eitthvað er. „Að aka bíl með metanvél er alveg eins og að aka með bensínvél, nema metanvélin er hljóðlátari. Rafmagnsbilar geta svo verið mjög skemmtilegir í akstri enda viðbragðsfljótir.“
Þeir sem vilja áfram halda sig við bensínið eða dísilvélar hafa líka úr grænum kostum að velja. Brynjar nefnir t.d. Bluemotion-bílana frá Volkswagen. Þar er ofuráhersla lögð á hagkvæma eldsneytisnotkun og að minnka mengun í útblæstri. Bluemotion-vélin drepur t.d. sjálfkrafa á sér þegar bíllinn er stöðvaður í stutta stund, til að draga úr eldsneytisnotkun í kyrrstöðu. Notuð eru dekk með minna viðnámi og meira að segja breytingar gerðar á gírskiptingunni til að ná fram enn meiri hagkvæmni í akstri.
Tæknin virkar greinilega því Bluemotion-bíll frá Volswagen sló árið 2010 Guinnes-heimsmet í sparakstri þegar hann komst tæplega 2.500 km á einum 77,25 lítra tanki. „Þrátt fyrir kosti metans og rafmagns munu bensín- og dísilbílar áfram vera hentugasti valkosturinn fyrir marga.“
ai@mbl.is