Stjörnurnar vestanhafs fá jafnan greitt í milljörðum og því endurspeglar lífsstíll þeirra innkomuna. Þær þurfa því ekki beint að spara við sig og það sést gjarna á bílaeign þeirra.
Þegar maður veit vart aura sinna tal er ekki við öðru að búast en að viðkomandi láti eftir sér farartæki sem kemur manni frá A til B með tilhlýðilegum stíl.
Hér eru nokkur dæmi um ofurdýra bíla þekktra einstaklinga.
Framleiðslu Maybach ofurlúxusbílanna, sem var í eigu Mercedes Benz, hefur nú verið hætt enda náði framleiðslan aldrei að borga sig. Meðal afreka Maybach má þó telja Exelero. Bíllinn sá er bókstaflega einstök smíð því aðeins einn var búinn árið 2005 eftir sérpöntun. Bíllinn, sem Jay-Z fékk lánaðan fyrir myndbandið við lag sitt „Lost One“, hefur þrívegis skipt um eiganda síðan þá, með síhækkandi verði, og er í dag í eigu rapparans og bíladellumannsins Birdman sem snaraði út 8 milljónum dala, eða sem svarar rúmum milljarði króna, fyrir leiktækið. Þessi bíll er 12 strokka og með tveimur forþjöppum, skilar 700 hestöflum og þeytir þessum stóra bíl í hundraðið á 4,4 sekúndum.
Áðurnefndur Birdman virðist mikill aðdáandi dýrra og flottra bíla því hann á einnig Bugatti Veyron, sem er hraðskreiðasti fjöldaframleiddi bíll í heimi og var bara framleiddur í 300 eintökum. Birdman hefur þó vel efni á þessum tveimur bílum því eignir hans eru metnar á 125 milljónir Bandaríkjadala. Bugatti Birdman kemst á 408 kílómetra hraða. Annar þekktur maður sem fæst við að dæma tónlist á sams konar bíl, Simon nokkur Cowell. Hann á reyndar líka Ferrari og Rolls Royce Phantom.
Sá sem síðast hlær í heimi grínista virðist Seinfeld. Hann hefur safnað að sér miklum fjárfúlgum og hefur meðal annars eytt þeim í Porsche 959 sem kostar hátt í hundrað milljónir króna. Þetta er ekki eini bíll grínistans því hann er forfallinn bílaáhugamaður og í bílskúr hans eru 46 bílar. Bílskúrinn góði er reyndar flugskýli á Santa Monica flugvellinum í Kaliforníu. Aðeins 337 eintök eru til af Porsche 959.
Ekki er langt síðan Nicolas Cage fór með aðalhlutverk í mótorhjólamyndinni Ghost Rider, sem floppaði illilega. Það er kannski ekki nema von þar sem áhugasvið Cage liggur ekki þar, heldur í bílum. Hann keypti sér til dæmis Ferrari Enzo, ofursnöggan bíl sem kemst í hundraðið á 3,4 sekúndum. Það eru aðeins 399 eintök til af þeim bíl, sem er með 12 strokka vél.
Ekki aðeins er hláturinn besta meðalið heldur getur hann fært sumum mikil auðævi. Það á að minnsta kosti við Jay Leno sem er einn þekktasti bílasafnari í heimi. Meðal þeirra bíla sem hann á er Mercedes Benz SLR McLaren. Jay Leno á bílskýli sem er 1.600 fermetrar og þar stendur meðal annarra 1906 árgerðin af Stanley Steamer, Dodge Challenger árgerð 1970 og EcoJet flugvél sem Leno hefur framleitt í samstarfi við General Motors.
Knattspyrnugoðið David Beckham er stoltur eigandi Rolls Royce Phantom Drophead bíl með verðmiða uppá 52 milljónir, sem hann munar örugglega lítið um. Bíllinn er útfærður sem fjölskyldubíll, ekki bara hreinræktaður sportbíll, en Beckham er margra barna faðir og sést oft aka um Beverly Hills hverfið með sonum sínum þremur og Victoriu kryddpíu. Rolls Beckham er á 24 tommu felgum sem eru í sama lit og innrétting bílsins og númerið 23 er bróderað í sætin. Því númeri skrýðist hann er hann bregður sér í stuttbuxur og knattspyrnutreyju.
P. Diddy er enn einn rapparinn sem gert hefur það gott og fjárfest í Maybach bíl. Hans er þó ekki með verðmiða í líkingu við bíl Birdmans. Þessi bíll er þó ekki ætlaður honum sjálfum heldur 16 ára syni hans, Justin. Þegar hann afhenti syni sínum bílinn að gjöf var hann með stóra rauða slaufu og fallega innpakkaður. Auk þess fylgdi bílnum einkabílstjóri sem skutlað gæti Justin hvert sem er um New York borg. Ekki slæmur pabbi þar.
Ekki er alveg vitað fyrir hvað Paris Hilton er fræg en eitt er þó víst, hún kemur til með að erfa forríkan hóteleigandann föður sinn. Bentley Continental GT er alveg sæmilega vel útbúinn en Paris lét þó bæta við heilli demantahrúgu í mælaborðið. Eins og henni einni er lagið var bíllinn jólagjöf til hennar sjálfrar og af því svo nú var er flestallt bleikt í bílnum, innan sem utan. Bleiki bíllinn hennar Paris er þó ekki með neina Barbie-vél, heldur 12 strokka sleggju sem skilar þessu þunga málmstykki í hundraðið á 4,8 sekúndum, sem ætti að duga henni til að stinga ljósmyndarana af, ef hún fengi einhvern tíma áhuga á því.
Enn önnur dívan sem á nóg af peningum en enginn veit fyrir hvað er Kim Kardashian sem festi kaup á Ferrari F430 bíl. Hún átti áður bíl eins og Paris Hilton, Bentley Continental GT, en skipti honum út fyrir Ferrari bílinn, rétt eins og hún skipti Kris Humphries út fyrir enn frægari Kanye West. Ferrari bíll Kim er 8 strokka vél sem upprunin er frá Maserati og undirvagn bílsins er að mestu úr áli.