Alvöru bílahasar í Die Hard 5

Jon McCLane lendir í ævintýrum enn á ný, en nú …
Jon McCLane lendir í ævintýrum enn á ný, en nú á Unimog. Youtube-skjáskot

Nýjasta myndin um harðjaxlalögguna John McClane verður frumsýnd í febrúar og því ekki seinna vænna fyrir aðdáendur hasarmynda að fara að setja sig í stellingar.

Myndin heitir A Good Day to Die Hard, en gengur einnig undir gælunafninu Die Hard 5. Haft er eftir áreiðanlegum heimildum að í myndinni verði „vondir kallar“, kjarnorkuvopn og töluverðir hetjutaktar. Auk þess er sonur aðalsöguhetjunnar áberandi í myndinni, og svo auðvitað 14 mismunandi tegundir af Mercedes Benz-bílum.

Já, fjórtán!

Augljóst er að góðir samningar hafa náðst við þýska bílarisann, því nánast allir bílar sem aðalsöguhetjurnar koma nálægt eða horfa á eru Benz. Má þar nefna E-, C-, GL og G-Benz, en einnig stærri bíla á borð við Sprinter, Vito og Zetros. Rúsínan í pylsuendanum er svo gamall Unimog, en myndin gerist að miklu leyti í Moskvu.

Ef eitthvað er að marka stiklurnar hér fyrir neðan er engin vöntun á alvöru bílahasar í myndinni og unnendur góðra eltingaleikja, sprenginga og áhættuatriða verða varla sviknir.

Athygli vekur einnig að ýjað er að því í stiklunum að á meðan „góðu kallarnir“ aki allir á Benz, þá séu bófarnir á BMW. Gaman væri að vita hvort það hafi verið hluti af samningnum við Benz.

Hvað um það, hallið ykkur aftur og njótið þess að horfa á stiklurnar.

mbl.is