Ameríska Top Gear á Íslandi

Kynnar ameríska Top Gear.
Kynnar ameríska Top Gear. Topgear.com

Þessa dag­ana er tök­ulið frá Am­er­íku­úti­búi Top Gear sjón­varpsþátt­anna statt á Íslandi við tök­ur. Meðal ann­ars sást til þeirra við Hall­gríms­kirkju í vik­unni, þar sem þrír stór­ir, am­er­ísk­ir trukk­ar höfðu tekið sér stöðu og vöktu mikla at­hygli.

Þætt­irn­ir eru, eins og kunn­ugt er, byggðir á sömu hug­mynd og bresku þætt­irn­ir en eru hvorki fugl né fisk­ur í sam­an­b­urði. Engu að síður létu tvær millj­ón­ir áhorf­enda sig hafa það að horfa á fyrsta þátt síðustu seríu, en eng­um sög­um fer af áhorfi næstu þátta þar á eft­ir. 

Auk stjórn­enda þátt­ar­ins, þeirra Adam Fer­rera, Tanner Faust og Rut­led­ge Wood, er tæp­lega þrjá­tíu manna tök­ulið með í för, sam­kvæmt frétt RÚV. För­inni er heitið burt úr þétt­býl­inu og verða fyrr­nefnd­ir trukk­ar lík­lega í aðal­hlut­verki. 

Ef Alaska-þátt­ur þríeyk­is­ins (sjá mynd­band neðar) gef­ur ein­hverja hug­mynd um það sem koma skal er rétt að benda Um­hverf­is­stofn­un strax á að fylgj­ast náið með ferðum þeirra kump­ána. Í þeim þætti voru svipaðir bíl­ar keyrðir utan vega í óbyggðum Alaska, og eins og ís­lenskt jeppa­fólk get­ur strax komið auga á eru Fer­rera, Faust og Wood senni­lega hvorki al­van­ir krefj­andi jeppa­ferðum, né því að um­gang­ast viðkvæma nátt­úru.

Von­andi fer þó allt vel fram hér á landi og úr verður hin mesta skemmt­un. Þátt­ur­inn sem tek­inn verður upp á næstu dög­um verður að öll­um lík­ind­um sýnd­ur á History-sjón­varps­stöðinni í mars eða apríl.

Til gam­ans má geta þess að einnig er til ástr­alsk­ur Top Gear þátt­ur, og áhuga­söm­um er bent á að skoða neðra mynd­bandið sem fylg­ir þess­ari frétt.

mbl.is