Þessa dagana er tökulið frá Ameríkuútibúi Top Gear sjónvarpsþáttanna statt á Íslandi við tökur. Meðal annars sást til þeirra við Hallgrímskirkju í vikunni, þar sem þrír stórir, amerískir trukkar höfðu tekið sér stöðu og vöktu mikla athygli.
Þættirnir eru, eins og kunnugt er, byggðir á sömu hugmynd og bresku þættirnir en eru hvorki fugl né fiskur í samanburði. Engu að síður létu tvær milljónir áhorfenda sig hafa það að horfa á fyrsta þátt síðustu seríu, en engum sögum fer af áhorfi næstu þátta þar á eftir.
Auk stjórnenda þáttarins, þeirra Adam Ferrera, Tanner Faust og Rutledge Wood, er tæplega þrjátíu manna tökulið með í för, samkvæmt frétt RÚV. Förinni er heitið burt úr þéttbýlinu og verða fyrrnefndir trukkar líklega í aðalhlutverki.
Ef Alaska-þáttur þríeykisins (sjá myndband neðar) gefur einhverja hugmynd um það sem koma skal er rétt að benda Umhverfisstofnun strax á að fylgjast náið með ferðum þeirra kumpána. Í þeim þætti voru svipaðir bílar keyrðir utan vega í óbyggðum Alaska, og eins og íslenskt jeppafólk getur strax komið auga á eru Ferrera, Faust og Wood sennilega hvorki alvanir krefjandi jeppaferðum, né því að umgangast viðkvæma náttúru.
Vonandi fer þó allt vel fram hér á landi og úr verður hin mesta skemmtun. Þátturinn sem tekinn verður upp á næstu dögum verður að öllum líkindum sýndur á History-sjónvarpsstöðinni í mars eða apríl.
Til gamans má geta þess að einnig er til ástralskur Top Gear þáttur, og áhugasömum er bent á að skoða neðra myndbandið sem fylgir þessari frétt.