Dreymdi um ofurbíl frá fimm ára aldri

Koenigsegg á Íslandi.
Koenigsegg á Íslandi. mbl.is/ÞÖK

Þegar ég var níu ára gamall fór pabbi minn með okkur krakkana í Gamla bíó að sjá norska leikbrúðumynd sem hét Álfhóll – Kappaksturinn mikli. Í minningunni var þetta skemmtileg mynd um mann sem vann við að gera við reiðhjól, en smíðar sér svo kappakstursbíl til að taka þátt í kappakstrinum sem myndin heitir eftir.

Fyrir annan mann, þá aðeins fimm ára að aldri hafði hún djúpstæðari áhrif. Eftir að hafa horft á myndina dreymdi Christian Erland Harald von Koenigsegg um að framleiða hinn fullkomna sportbíl. Tæpum tuttugu árum síðar hrinti hann hugmynd sinni í framkvæmd þegar hann stofnaði Koenigsegg-merkið.

Smíðaði hraðskreiðasta bílinn

Fyrsta frumgerð bílsins var handgerð eftir teikningum Christians sjálfs af litlum hópi starfsfólks sem hann réð til verkefnisins. Fyrsti bíllinn var tilbúinn aðeins tveimur árum seinna og var sér á parti, með sérhannaðri fjöðrun byggðri á einrýmis grind. Framleiðslan hófst 2002 á CC8S-bílnum, bíl sem uppfyllti allar kröfur um framleiðni og árekstrarkröfur til að vera titlaður framleiðslubíll. Markmiðið var að framleiða hraðskreiðasta bíl í heimi. Til að geta talist framleiðslubíll þurfti fyrirtækið að hanna og smíða hluti eins og vélar sjálft. Því var fenginn maður með reynslu í vélarsalinn, Curt Hill sem áður hafði hannað 550 hestafla vélina í Ford GT ofurbílinn. Markið var þó sett mun hærra í Koenigsegg eða í 900 hestöfl.

Hefur átt fjölda meta

Í febrúar 2005 féll heimshraðamet Guinness fyrir framleiðslubíl þegar CCX-útgáfa Koenigsegg náði 389 km hraða á Nardó-hringnum á Ítalíu, braut sem oft hefur verið notuð til þess að ná miklum hraða ökutækja. Metið stóð reyndar aðeins í rúmlega hálft ár en Bugatti Veyron-bíllinn sló metið í september sama ár þegar hann náði 408 km hraða.

Þetta er alls ekki eina metið sem þetta merki hefur átt. Bíll af CCX-gerð á líka met ef met skyldi kalla, fyrir mesta hraða sem mælst hefur á hraðamyndavél í Bandaríkjunum. Þá mældist svona bíll á 389 km hraða í Gumball-kappakstrinum árið 2003. Koenigsegg CCXR á ennþá metið fyrir besta hlutfall hestafla á kíló á framleiðslubíl sem er 1,3 kíló á hvert hestafl. Einnig á Koeingsegg Agera R metið fyrir fljótasta tímann í 300 km hraða eða aðeins 21,19 sekúndur.

Kom til Íslands 2006

Ári seinna birtist svo Koenigsegg CCX á klakanum þegar tímaritið Bílar & Sport flutti hann inn á bílasýningu sem það hélt í Laugardalshöll. Með bílnum komu Koenigsegg-hjónin, Christian og Halldóra sem er íslensk að ættum. Áður en bíllinn var frumsýndur í Höllinni fór hann í ferðalag norður í land, nánar tiltekið á Mývatn þar sem hann var ljósmyndaður í bak og fyrir. Þar gafst undirrituðum einstakt tækifæri til að reynsluaka honum milli Mývatns og Akureyrar.

Með mér í bílnum var Christian sjálfur sem útskýrði eiginleika bílsins og hvernig hann varð til á leiðinni til Akureyrar. Að sögn Christians sjálfs hafði þessi bíll síðast sést í vinsælum sjónvarpsþætti í Bretlandi þar sem hvítklæddur maður með samlitan Bandit-hjálm flengkeyrði hann um kappaksturbraut. Christian og kona hans Halldóra eru bæði einstaklega viðkunnanleg og buðu mér að heimsækja sig við fyrsta tækifæri í Svíþjóð. Þar fer fram þróun og framleiðsla bílsins á landareign greifans og þar er líka sérhönnuð braut til að prófa hraðskreiða bílana.

Christian Erland Harald von Koenigsegg heldur áfram að hanna og smíða ofursportbíla og selja þá með dyggri aðstoð konu sinnar. CCXR Trevita er rúmlega þúsund hestöfl og aðeins framleiddur í þremur eintökum enda með mjög sérstakri og dýrri yfirbyggingu úr demantablönduðum koltrefjum. Koenigsegg Agera er með nýjum sjö gíra gírkassa og sérstakri innréttingu sem kölluð er „Ghost light“ en hún er eins og hún lýsi í gegnum álið í innréttingunni.

njall@mbl.is

Koenigsegg vakti mikla athygli á bílasýningu á Íslandi.
Koenigsegg vakti mikla athygli á bílasýningu á Íslandi. mbl.is/ÞÖK
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka