Skriðdrekar og þotur í F&F 6

Enginn skortur á hasar hér.
Enginn skortur á hasar hér.

Þó svo að Fast & Furius 6 verði ekki frumsýnd fyrr en í maí geta áhangendur svalað þorstanum á meðfylgjandi stiklu þangað til. 

Söguþráðurinn er meira og minna eins og í hinum fimm myndunum - Dom og Brian eru röngu megin við lögin en eru fengnir til að redda málunum þegar bófaflokkur veður uppi og laganna verði skortir aksturshæfileika til að ... ja, þið þekkið þetta.

Það sem vekur sérstaka athygli í stiklunni er að fyrir utan bíla sem von er á í svona mynd (Imprezur, Ferrari, amerískir kögglar ...) má líka sjá óvænt faratæki í eltingaleikjum, eins og risaþotu og skriðdreka.

Einnig má sjá herútgáfu af Land Rover Defender bregða fyrir, sem er óneitanlega stef við svipaða vísu og sungin er í Die Hard 5, hvar Bruce Willis þeysir um Moskvu á Unimog.

Í aðalhlutverki eru, sem fyrr, Paul Walker og Vin Diesel en leikstjóri er Justin Lin. 

mbl.is