Vinnur við að keyra Koenigsegg

Flestir sportbílaframleiðendur eru með prófunarökumenn (e. test drivers) á sínum snærum. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að keyra bílana meðan þeir eru í þróun og gefa umsagnir sem verkfræðingar og aðrir tæknimenn nota svo til að sníða alla vankanta af bílunum.

Oft eiga prófunarökumenn að baki áratugalangan og glæstan feril í mótorsporti, samanber Walter Röhrl sem prófar fyrir Porsche. Ef Röhrl kemur í vinnuna eftir bíltúr og segir að framdempararnir þurfi að vera 3% stífari, þá fer her manna í að reikna, breyta og bæta og á endanum eru dempararnir gerðir 3% stífari. Slíkt er traustið sem til hans er borið, og slík er ábyrgðin sem fylgir starfi hans.

Hjá Koenigsegg er þetta pínulítið öðruvísi. Það er Robert Serwanski prófunarökumaður. Serwanski er 25 ára gamall og fyrir utan að hafa keppt í gokart frá því hann var tólf ára, hefur hann líka keppt síðan 2009 í sænska MX5 flokknum, þar sem hann hefur reyndar hampað meistaratitli tvisvar. 

Vinnan hans felst ekki bara í því að keyra einn dýrasta fjöldaframleiðslubíl í heimi, heldur þarf hann oftar en ekki sjálfur að gera þær breytingar sem honum finnst að eigi að gera. Hann vinnur nú við nýjasta bíl Koenigsegg, Agera R, sem skilaði honum á blaðsíður heimsmetabókar Guinnes.

Og suma daga er hann líka að vinna við að standsetja bíla sem bíða þess að komast í hendur eigenda sinna. Þannig er þetta í litlum fyrirtækjum.

Ef þú vilt fræðast meira um hlutverk prófunarökumanna, og hvernig vinnuvikan hjá Serwanski er, skaltu skoða myndbandið hér að neðan.

mbl.is