Jeppamenn telja að sér sótt

Í frumvarpi til náttúruverndarlaga eru ákveðnir fyrirvarar settir við akstur …
Í frumvarpi til náttúruverndarlaga eru ákveðnir fyrirvarar settir við akstur á snjó að vetrarlagi sem má banna við tilteknar aðstæður.

Meðal jeppamanna er almennur skilningur á því að nokkrum leiðum á hálendinu megi loka. Hins vegar er gengið of langt og sum ákvæði í frumvarpinu eru opin og gefa stjórnvöldum frítt spil með útfærslu,“ segir Elín Björg Ragnarsdóttir lögfræðingur.

Elín er í Áhugahópi um ferðafrelsi. Innan hans er útivistarfólk sem telur að nái frumvarpi til nýrrar náttúruverndarlaga, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, fram að ganga verði t.d. þeim sem um landið ferðast á annan hátt en gangandi skorður settar. Hópurinn vill því endurskoðun frumvarpsins.

Ósanngjörn uppsetning

„Okkur finnst ósanngjarnt að málum sé nánast stillt þannig upp að ferðalögum á vélknúnum ökutækjum hljóti að fylgja hætta á náttúruspjöllum,“ segir Elín og bendir á 31. grein frumvarpsins. Þar segir að heimilt verði að aka á jöklum og snævi þakinni jörð. Þó megi ráðherra banna slíkt „ef hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðra“.

Þetta orðalag segir Elín vera matskennt. Það sé óbreytt frá gildandi lögum, en batni ekkert í núverandi yfirferð. Í krafti þessa matskennda ákvæðis geti stjórnvöld í raun farið sínu fram.

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru leiðir sem jeppamenn hafa gjarnan farið en hefur nú verið lokað. Má þar nefna Vonarskarð, milli Tungnafells- og Vatnajökuls, sem nú má aðeins aka á harðfenni. Vikrafellsleið norðan Dyngjufjalla hefur verið opnuð aftur eftir tveggja ára lokun. Þessum takmörkunum mótmæltu jeppamenn á sínum tíma og óttast að fleiri leiðum verði lokað í framtíðinni án málefnalegra ástæðna, segir Elín. Hún nefnir einnig Jökulheimasvæðið. Þar séu troðnar slóðir sem jeppamenn aki um en þær megi nú í ýtrustu túlkun skilgreina sem utanvegaakstur. Hins vegar hafi sumum leiðum í garðinum verið lokað án mótmæla jeppamanna, sem ekki sækist eftir að mega aka um allt án reglna.

Kyrrð í krafti almannaréttar

„Gangandi fólk nýtur vafans í drögum að frumvarpinu. Fólk á samkvæmt þeim að njóta kyrrðar á fjöllum í krafti almannaréttarins, þó að jafnan hafi verið litið svo á að það sé fremur umferðarréttur,“ segir Elín sem gagnrýnir takmarkað samráð við þá sem hagsmuna eiga að gæta í málinu. sbs@mbl.is

Frjálst á öðru en ökutækjum

„Það er mikilvægt að við höldum því til haga að þegar rætt um almannarétt er átt við frjálsa för almennings um landið, sem er annað en frjáls för almennings um landið á vélknúnum ökutækjum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í umræðum um náttúruverndarfrumvarpið á Alþingi á dögunum.

Í frumvarpinu segir að í reglugerð skuli kveðið á um gerð kortagrunns, þar sem merktir skulu vegir og vegslóðar sem heimilt er að aka um. Upplýsingar úr kortagrunninum skulu veittar án endurgjalds. Við mat á því hvort tilteknir vegslóðar skuli vera í kortunum skal litið til þess hvort akstur á þeim skaði viðkvæman gróður, geti valdið uppblæstri eða öðrum skaða. Einnig má líta til þess hvort um varanlegan vegslóða sé að ræða og hvort löng hefð sé fyrir akstri þar. Þá verður ráðherra heimilt að leyfa takmarkaða umferð á tilteknum vegslóðum, með tilliti til stærðar ökutækja, árstíma, erindis og starfa. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: