VW sem eyðir 0,9 á hundraðið

XL1 eyðir sama og engu!
XL1 eyðir sama og engu! Volkswagen AG

Eftir rúmlega áratugarerfiði hefur dr. Ferdinand Piëch loksins tekist ætlunarverk sitt: Að hanna bíl sem eyðir undir lítra á hverja 100 ekna kílómetra. Við kynnum til leiks: Volkswagen XL1, sem gæti verið á leiðinni í fjöldaframleiðslu!

Mótorinn er 47 hestafla 0,8 lítra dísilvél með túrbínu og er án gríns helmingurinn af 1,6 lítra vél, sem þó er búið að eiga aðeins við. Það er ekki stór vél, en þar sem bíllinn er rétt um 790 kg dugar það vel til að koma honum á milli staða.

En í takti við tíðarandann skellti Piëch líka 27 hestafla rafmótor í blönduna, sem knúinn er af 5,5 kílówattstunda liþíum-rafgeymi. Bíllinn á að geta komist allt að 50 km á rafmótornum einum saman, eftir því sem bílavefurinn Jalopnik segir frá.

Mótorar og rafgeymar í heild vega aðeins 230 kíló, en aflið fer út í hjól í gegnum 7 þrepa DSG skiptingu sem á að auka hagkvæmni í akstri. Enda er bíllinn aðeins að eyða 0,9 lítrum á hundraðið!

Bíllinn er reyndar líka mjög straumlínulagaður. Fyrir þá sem það skilja er loftmótstöðustuðullinn Cd 0,189. Lengd bílsins er 388,8 cm, breiddin 166,5 cm og hæðin 115,3 cm. Hann er því lítill og nettur, styttri en Polo og lægri en Porsche Boxter.

Skiptar skoðanir eru á útliti bílsins, en ef hægt er að spara 50-90% af bensínpeningnum í hverjum mánuði má alveg venjast einu og öðru.


mbl.is