VW sem eyðir 0,9 á hundraðið

XL1 eyðir sama og engu!
XL1 eyðir sama og engu! Volkswagen AG

Eft­ir rúm­lega ára­tugar­erfiði hef­ur dr. Fer­d­inand Piëch loks­ins tek­ist ætl­un­ar­verk sitt: Að hanna bíl sem eyðir und­ir lítra á hverja 100 ekna kíló­metra. Við kynn­um til leiks: Volkswagen XL1, sem gæti verið á leiðinni í fjölda­fram­leiðslu!

Mótor­inn er 47 hestafla 0,8 lítra dísil­vél með túr­bínu og er án gríns helm­ing­ur­inn af 1,6 lítra vél, sem þó er búið að eiga aðeins við. Það er ekki stór vél, en þar sem bíll­inn er rétt um 790 kg dug­ar það vel til að koma hon­um á milli staða.

En í takti við tíðarand­ann skellti Piëch líka 27 hestafla raf­mótor í blönd­una, sem knú­inn er af 5,5 kílówatt­stunda liþíum-raf­geymi. Bíll­inn á að geta kom­ist allt að 50 km á raf­mótorn­um ein­um sam­an, eft­ir því sem bíla­vef­ur­inn Jal­opnik seg­ir frá.

Mótor­ar og raf­geym­ar í heild vega aðeins 230 kíló, en aflið fer út í hjól í gegn­um 7 þrepa DSG skipt­ingu sem á að auka hag­kvæmni í akstri. Enda er bíll­inn aðeins að eyða 0,9 lítr­um á hundraðið!

Bíll­inn er reynd­ar líka mjög straum­línu­lagaður. Fyr­ir þá sem það skilja er loft­mót­stöðustuðull­inn Cd 0,189. Lengd bíls­ins er 388,8 cm, breidd­in 166,5 cm og hæðin 115,3 cm. Hann er því lít­ill og nett­ur, styttri en Polo og lægri en Porsche Boxter.

Skipt­ar skoðanir eru á út­liti bíls­ins, en ef hægt er að spara 50-90% af bens­ín­pen­ingn­um í hverj­um mánuði má al­veg venj­ast einu og öðru.


mbl.is

Bílar »