28 áhorfendur slösuðust þegar braki úr bílum rigndi yfir þá eftir margra bíla árekstur í Nascar-kappakstri í Daytona í gær.
Slysið varð eftir að bíll snerist á brautinni og olli margra bíla árekstri. Einn þeirra, bíll númer 32 sem Kyle Larson ók, kastaðist í hlífðargirðingu sem aðskilur áhorfendastúkuna frá brautinni. Framendinn rifnaði af bílnum og vélin, sem stóð þá í ljósum logum, brenndi gat á girðinguna. Stóru braki úr bíl 32, og öðrum bílum, rigndi yfir áhorfendur eftir því sem segir í frétt Autoblog.com.
Slysið átti sér stað á þegar verið var að aka síðasta hring kappakstursins. Ökumaðurinn Tony Stewart slapp við árekstur og varð fyrstur í mark. Hann sleppti því þó að fagna að loknum kappakstri.
„Sigurinn skiptir ekki svo miklu máli núna, ég hef meiri áhyggjur af hinum ökumönnunum og áhorfendunum sem voru uppi í stúku. Ég sá þetta allt saman í speglinum og þetta leit ekki vel út,“ sagði Stewart við blaðamann.
Af þeim sem slösuðust voru sex sendir á bráðamóttöku, þar af er einn alvarlega slasaður en er hugað líf, samkvæmt frétt CNN.
Myndband af árekstrinum er hér fyrir neðan: