Þá er komið að lokaþættinum í átta þátta seríu um sænska ofursportbílinn Koenigsegg Agera R. Að þessu sinni er það mótorinn, eða hjarta bílsins, sem er til umfjöllunar.
Mótorinn er þróaður og smíðaður hjá Koenigsegg, frekar en að nota vél frá stórum framleiðanda. Til að gera hana sem léttasta er hún að miklu leiti smíðuð úr áli, koltrefjum og títaníum.
Í þróunarferli vélarinnar var hún keyrð til hins ýtrasta, bæði inni á gólfi og úti á braut, og þegar veikur hlekkur fannst var hann endurbættur. Þannig tókst að gera vélina betri og betri, þar til loka afraksturinn leit dagsins ljós. 195 kílóa, fimm lítra V8 vél sem skilar 1.140 hestöflum.
Vélin er svo boltuð beint við grind bílsins, og verður í raun hluti af henni, til að auka stífleika grindarinnar og spara vigt. Við vélina er skynjari sem metur hvers konar eldsneyti er á henni (t.d. bensín eða etanól) og notar þær upplýsingar til að breyta uppsetningu vélarinnar jafnóðum, svo hún sé alltaf að skila hámarks afköstum á sem hagkvæmastan hátt.
Í ljósi þess hvað eldsneyti er mismunandi eftir því hvar maður er í heiminum ákvað Koenigsegg að fara þessa leið, til að kaupendur væru að fá eins góðan bíl og hægt er, óháð eldsneytinu í heimalandi þeirra.