Ofurléttur Koenigsegg gírkassi

Christian Von Koenigsegg er lítið fyrir hálfkák, eins og bílar …
Christian Von Koenigsegg er lítið fyrir hálfkák, eins og bílar hans bera með sér.

Lengi er von á einum. Við sem héldum að Christian Von Koenigsegg væri búinn að segja okkur allt um Agera R bílinn í stuttum fræðslumyndböndum sínum, en hann átti auðvitað eftir að tala um gírkassann.

Þar sem Agera R er svokallaður mið-vélar bíll, þ.e. vélin er staðsett fyrir framan afturhjólin, verður mismunadrifið að vera sambyggt gírkassanum. Mismunadrifið leikur lykilhlutverk í því að skila afli til hjólanna og því kraftmeiri sem bílar eru, því mikilvægara er að mismunadrifið geti farið á milli þess að vera læst eða opið eftir því sem við á. Þetta leysir Koenigsegg með vökvaþrýstikerfi.

Gírkassinn sjálfur er svokallaður AMT, eða beinskiptur kassi með sjálfskiptibúnaði. Til að flýta fyrir gírskiptingu er vökvabremsa, eða „blaut kúpling“, á aflinntakinu sem hægir á kassanum þegar bílstjórinn kúplar sundur á milli vélar og gírkassa (sú kúpling er þurr). Með því styttist tíminn sem það tekur gírana að samstillast, svo gírskiptingar verða mikið hraðari.

Skiptitíminn er reyndar svo lítill að tveggja kúplinga skipting verður óþörf. Koenigsegg heldur því einnig fram að þær séu miklu flóknari, stærri og þyngri en gírkassinn í Agera R (sem er 1.140 hestafla bíll), en hann vegur aðeins 81 kg, sem mun vera einsdæmi í svo kraftmiklum bílum.

Ef þú vilt komast að því hvernig bílar verða ef framleiðandinn neitar að sætta sig við málamiðlanir, þá er Koenigsegg ágætt dæmi.

mbl.is