Eru 370 m. kr. of mikið fyrir bíl?

Hann heitir Lykan Hypersport og er fyrsti bíllinn í sínum flokki sem er framleiddur í arabalöndum. Og hann kostar 370 milljónir króna. Er það of mikið, ef haft er í huga að framljósin eru skreytt með ekta demöntum?

Bíllinn, sem var meðal annars til sýnis á bátasýningu (já, bátasýningu) í Dubai fyrir skemmstu, verður aðeins framleiddur í sjö eintökum og er það talið höfða til væntanlegra kaupenda sem eru fúsir til að borga aukalega fyrir svo sjaldgæfan bíl. Fyrir utan það er ákveðið stöðutákn að eiga svo dýran bíl, og sumir líta jafnvel á það sem fjárfestingu.

Eigir þú 370 milljónir á lausu færðu vissulega eitthvað í staðinn. Bíllinn er til dæmis undir þremur sekúndum í hundrað, þökk sé 750 arabískum gæðingum undir vélarhlífinni, yfirbyggingin er öll úr koltrefjum og mælaborðið virkar svipað og þrívíðu heilmyndirnar úr Star Wars.

370 milljónir eru vissulega mikið, en er það OF mikið?

Bíllinn fer í sölu á næsta ári.

mbl.is
Loka