Hver kannast ekki við að læsa lyklana inni í gamla bílnum sínum og standa í fimmtán mínútur með herðatré í höndunum og reyna að opna hann?
Það kemur þér kannski á óvart en Koenigsegg-eigendur geta líka lent í þessu.
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá eiganda Koenigsegg CCR bisa með herðatré við að veiða lyklana úr bílnum. Forsagan er sú, eftir því sem kemur fram á Autoblog, að eigandinn var á brautardegi þegar hann lokaði bílhurðinni á meðan lyklarnir voru í kveikjulásnum. Þá gerði bíllinn það sem hann á að gera við slíkar aðstæður og læsti hurðunum.
Í stað þess að láta eins og ofdekraður milljónamæringur (eða hringja á lásasmið) ákvað eigandinn að taka því rólega með herðatré í nokkrar mínútur og uppskar árangur erfiðisins, og lófaklapp, þegar hann komst loks aftur inn í bílinn.
Þess má geta að við sjáum ekki betur en hvíti bíllinn í bakgrunni sé Agera R, frá sama framleiðanda. Í lok myndbandsins sjást nokkur skot af CCR bílnum á brautinni.