Þegar Audi ákvað að auglýsa Plus-útgáfuna af R8 V10 bíl sínum hefði verið hægt að fara hefðbundna leið.
Það hefði verið hægt að sýna bílinn á ferðalagi um ítalska sveitavegi, með myndarlegan mann á óræðnum aldri bak við stýri, með skeggbrodda. Í fjallshlíð rétt hjá er myndarleg ung kona að lykta af blómi, þar sem hún situr í lótusstellingunni og horfir til himins. Síðan er klippt yfir í annað atriði þar sem bíllinn stendur fyrir utan næturklúbb og maðurinn og konan labba framhjá röð viðskiptavina, framhjá VIP-röðinni, kinka kolli til dyravarðarins og labba beint inn. Síðan væri leikari með rödd af sama kaliberi og Ólafur Darri látinn lesa undir sígilda línu: „Audi R8 V10 Plus, setur ný viðmið í sínum flokki.“
Það hefði verið hægt.
En nei, í staðinn var bíllinn settur á „dýnó“ (eða aflmæli), ennþá hálfsamsettur, og mótorinn þaninn hressilega, svo maður heyrir alla 542 hestana hneggja.
Eftir á að hyggja er sú leið miklu, miklu betri.