Svona hljómar Audi R8 V10 Plus

Þegar Audi ákvað að aug­lýsa Plus-út­gáf­una af R8 V10 bíl sín­um hefði verið hægt að fara hefðbundna leið.

Það hefði verið hægt að sýna bíl­inn á ferðalagi um ít­alska sveita­vegi, með mynd­ar­leg­an mann á óræðnum aldri bak við stýri, með skegg­brodda. Í fjalls­hlíð rétt hjá er mynd­ar­leg ung kona að lykta af blómi, þar sem hún sit­ur í lót­us­stell­ing­unni og horf­ir til him­ins. Síðan er klippt yfir í annað atriði þar sem bíll­inn stend­ur fyr­ir utan næt­ur­klúbb og maður­inn og kon­an labba fram­hjá röð viðskipta­vina, fram­hjá VIP-röðinni, kinka kolli til dyra­varðar­ins og labba beint inn. Síðan væri leik­ari með rödd af sama kali­beri og Ólaf­ur Darri lát­inn lesa und­ir sí­gilda línu: „Audi R8 V10 Plus, set­ur ný viðmið í sín­um flokki.“

Það hefði verið hægt.

En nei, í staðinn var bíll­inn sett­ur á „dýnó“ (eða afl­mæli), ennþá hálf­sam­sett­ur, og mótor­inn þan­inn hressi­lega, svo maður heyr­ir alla 542 hest­ana hneggja.

Eft­ir á að hyggja er sú leið miklu, miklu betri.

mbl.is

Bílar »

Loka