Lífi blásið í RX-7 á ný?

Þó svo að Mazda hafi hætt að framleiða RX-7 sportbílinn árið 2002 er hann greinilega hvorki gleymdur né grafinn hjá fyrirtækinu.

RX-7 bjó yfir þeirri sérstöðu að vera á sínum tíma að vera langlífasti bíllinn sem skartaði hinni allsérstæðu Wankel-vél. Þó svo að hjámiðjumótorinn þætti ekki sérstaklega auðveldur í viðhaldi var hann eftirsóttur vegna annarra eiginleika sinna, eins og að afkasta meira en 250 hestöflum, þó hann væri ekki nema 1,3 lítra.

Eftir að framleiðslu RX-7 lauk leið ekki á löngu þar til arftakinn, RX-8, var kynntur. Þó svo að  mótorinn hafi verið orðinn áreiðanlegri voru bæði dyr og sæti orðin helmingi fleiri, eða fjögur, og bíllinn náði aldrei almennilega að skipa sama sess hjá sportbílaáhugamönnum og sjöan gerði.

Framleiðslu RX-8 var hætt í fyrra og nú eru uppi sögusagnir um að arftakinn, sem hugsanlega verður skýrður RX-9, gæti verið kominn á markað innan fimm ára, eftir því sem segir í frétt Topspeed.com. Ætlunin sé að honum svipi meira til RX-7 en RX-8, í því skyni að um léttan sportbíl verði að ræða, frekar en lítinn fjölskyldubíl.

Einnig er uppi orðrómur um að mótorinn stækki úr 1,3 lítrum í 1,6 og að aflið verði þá um 290 hestöfl. Þyngdin verður enn lítil, ef marka má sögurnar, því bíllinn mun samkvæmt þeim vigta 1.300 kg.

mbl.is