Smíða Trans Am úr Camaro

Sú var tíðin að enginn bíll var svalari en Pontiac Trans Am. Í raun var „Trans Am“ notað yfir sérstaka útfærslu af Pontiac Firebird, en átti ekkert skylt við Trans Am kappaksturinn

Bíllinn var framleiddur í alls fjórar kynslóðir, frá 1969 til 2002 og var saknað af mörgum eftir að hann hvarf af sjónarsviðinu, þó svo að tími minni og sparneytnari sportbíla væri runninn upp.

Bræðurnir Tod og Scott Watermark voru ekki allskostar sáttir, fengu sér einkarétt á því að nota Trans Am-nafnið og reka nú fyrirtækið Trans Am Depot sem sérhæfir sig í að breyta Chevrolet Camaro í Trans Am 21. aldarinnar.

Trans Am og Camaro deildu vissulega undirvagni á sínum tíma, svo í raun má segja að hugmyndin sé ekki svo galin. Slíkar breytingar eru þó ekki hristar fram úr erminni, því breyta þarf fjöðrun, felgum, hjólbörðum, yfirbyggingu, innréttingu, ljósum ... já eiginlega flestu bara. Og ekki má vanta hinn ógleymanlega T-topp!

Eftir því sem við komumst næst er um sérsmíði að ræða, eftir pöntunum, svo verðið fer að miklu leiti eftir óskum viðskiptavinarins. En eins og sést á heimasíðu fyrirtækisins tekst þeim býsna vel að fanga anda gömlu Trans Am bílanna.

mbl.is
Loka