Nördastelpa + Trans Am = töffari?

Obbosí! Sumt hefði bara átt að skilja eftir á 8. áratugnum, eins og þessa auglýsingu.

Eins og við sögðum frá í gær sérhæfir Trans Am Depot sig í að smíða Trans Am bíla úr nýjum Camaro. Í tilefni nýrrar Hurst-útgáfu lét fyrirtækið gera auglýsinguna sem er hér fyrir neðan, til að auka hróður fyrirtækisins og bíla þeirra.

Í stuttu máli kemur feimin og hlédræg stelpa í heimsókn í fyrirtækið og fær að setjast upp í einn bílinn. Við það verður hún samstundis algjör töffari og tætir upp malbik með vinkonum sínum, svo allir taka eftir.

Það verður ekki sagt að frammistaða leikaranna sé upp á marga fiska, og kynjahlutverkin draga dálítið dám af 8. áratugnum, sama tíma og bíllinn sækir innblástur í. Það eina sem vantar er Burt Reynolds.

En þrátt fyrir allt þetta eru ótrúlega flott skot af bílnum í auglýsingunni, sem er ástæða þess að hún er birt hér.

mbl.is