Pakka 875 hestöflum í Peugeot 208

Peugeot hefur ákveðið að freista sigurs í fjallakappakstrinum fræga, Kappaksturinn til skýjanna, í Pikes Peak í Coloradoríki í Bandaríkjunum. Það er enginn smábíll sem það teflir fram og áttfaldur heimsmeistari í ralli, Sebastian Loeb, hefur verið ráðinn til að keyra hann.

Ógurlegur dreki

Bíllinn er smíðaður upp úr Peugeot 208 en vísast mun mönnum finnast lítið eftir af honum í drekanum ógurlega, sem nefndur er Peugeot 208 T16. Og þegar skoðaðar eru tækniupplýsingar virðist ljóst, að Peugeot mæti ekki til leiks í anda ólympíuhugsjóna um að þátttaka sé aðalatriði, heldur ætli franski bílsmiðurinn sér fátt annað en sigur í Pikes Peak.

Fyrir það fyrsta er vélarafl bílsins ekkert minna en 875 hestöfl, eða eitt hestafl á hvert kíló sem bíllinn vegur. Hröðunin er að lágmarki á við keppnisbíl í formúlu-1 eða meiri. Úr kyrrstöðu í 100 km/klst ferð tekur aðeins 1,8 sekúndur. Og aðeins þrjár sekúndur til viðbótar tekur að koma honum úr 100 í 200 km/klst. Ætti Peugeotinn því að fljúga upp fjöllin.

Að baki þessum ógnvekjandi tölum um afl og snerpu bílsins liggur V6-vél með tvöfaldri forþjöppu og fjórhjóladrifi. Er henni fyrirkomið í bílnum miðjum, en vél þessi er mun öflugri en vélar formúlu-1-bíla. Er þetta öflugasti bíll sem Loeb hefur nokkru sinni ekið.

Kappakstur og krefjandi beygjur

Kappaksturinn í Pikes Peak fer fram 30. júní næstkomandi. Vegalengdin er 19,99 kílómetrar og beygjurnar á leiðinni, allar mjög krefjandi, 156 talsins. Ráslínan er í 2.865 metra hæð yfir sjó og endamarkið í 4.301 metra hæð. Það reynir því mjög á verk- og tæknifræðinga að hanna bíl og stilla vél og alla þætti hans til keppni við slíkar aðstæður. Til samanburðar má nefna, að sé farið á venjulegum einkabíl í þessa hæð er áætlað að vélin tapi 1% aflsins við hverja 100 metra hækkun vegna hins þunna lofts. Það jafngildir um 30% missi mótorafls í keppnisbrautinni allri.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: