Hvað er „Wankel-mótor“?

Þverksurður af Wankel-mótor
Þverksurður af Wankel-mótor Wikipedia.org/HDP

Undanfarna daga höfum við birt myndbönd sem sýna driftarann Mike Whiddett keyra 750 hestafla RX-7 með fjórfaldan Wankel-mótor. En hvað er Wankel-mótor og hvernig virkar hann?

Mótorinn heitir í höfuðið á þýska verkfræðingnum Felix Wankel, sem á heiðurinn að hönnun hans. Wankel mun hafa hannað mótorinn 1954. Hann hefur færri hreyfihluti en hefðbundnir mótorar, en í stað stimpla sem fara upp og niður er í raun einn stimpill, hvelfdur þríhyrningur, sem snýst um hjámiðju innan í brunahólfi sem er í laginu eins og „0“. 

Í hverjum hring hefur hver hlið þríhyrningsins fjögur hlutverk. Fyrst dregur hún inn bensíngufu, svo þjappar hún henni og um leið og er kveikt í gufunni verður til pláss fyrir brunann og svo er útblæstrinum ýtt út og næsti hringur hefst. Á hverri stundu er því í raun þrefalt brunaferli í gangi.

Með því að einfalda hönnunina er hægt að auka afköst vélarinnar og láta hana snúast mun hraðar. Í  Mazda RX-8, síðasta bíl sem var framleiddur með Wankel-mótor, var vélin að skila allt að 250 hestöflum, þrátt fyrir að vera aðeins 1,3 lítrar að stærð. Og hámarksafl fékkst á 8.500 snúningum.

En Wankel-mótorar eru ekki bara blómalykt og regnbogar, því ókostirnir eru nokkrir. Til að mynda hitna þeir alveg gríðarlega mikið og í sumum bílum var brugðið á það ráð að vatnskæla pústkerfið, til að það hitnaði ekki um of. Þá hefur há bilanatíðni og mikið viðhald viljað loða við þessa mótora en Mazda hefur líklega náð allra lengst í að útrýma þeim kvillum. 

Von er á arftaka RX-8 á næstunni, en framleiðslu hans var hætt í fyrra. Fregnir herma að það verði einfaldur sportbíll, sem verði hugsanlega prýddur nafninu RX-9, búinn Wankel hjámiðjumótor eins og vera ber.

Til að skilja enn betur hvernig mótorinn vinnur er upplagt að skoða þetta myndband um samsetningu og virkni mótorsins:

mbl.is