Olíuverzlun Íslands hefur nú opnað verslun undir nafninu Rekstrarland, sem er í Skeifunni 11 í Reykjavík.
Þar er mikið úrval af almennum rekstrarvörum og margvíslegar lausnir fyrir minni fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, svo sem kaffistofuvörur, hreinlætisvörur, pappír, þurrkubox og plastpokar, vinnufatnaður, borðbúnaður og ýmsar sérvörur.
Olíuverzlun Íslands hefur á undanförnum árum stöðugt aukið framboð sitt á öðrum vörum en eldsneyti og þjónar nú nánast öllum atvinnugreinum með almennar rekstrarvörur, að því er fram kemur í frétt frá Olís. Þá yfirtók félagið nýlega heilbrigðissvið Hátækni og stefnir á umtalsverðan vöxt á næstu árum í þjónustu við heilbrigðisstofnanir. Verslunarstjóri Rekstrarlands er Benedikt Ragnarsson.
„Til að fylgja þessum breytingum eftir hefur félagið tekið upp nýtt nafn fyrir þennan þátt starfseminnar, sem mun framvegis bera heitið Rekstrarland og er markmiðið með versluninni að bæta þjónustu við viðskiptavini,“ segir í tilkynningu.