Fyrr í dag höfum við skoðað gömul myndbönd með Top Gear-stjórnendunum Richard Hammond og James May.
Þriðja hjólið í stjórnendateyminu er að sjálfsögðu Jeremy Clarkson, sem hefur lengst lagt nafn sitt við Top Gear af þeim félögum, eða í 25 ár. Hann byrjaði sem stjórnandi gömlu Top Gear-þáttanna 1988, þá meðal annars með Tiff Needell sem nú er einn stjórnenda Fifth Gear, og var sá eini af gömlu stjórnendunum sem kom að þættinum eftir að hann var settur aftur í loftið árið 2002, með breyttu sniði.
Clarkson er frægur fyrir að segja hug sinn, og reyndar stöku ruddaskap líka, og að vilja sem minnst vita um það hvernig bílar virka, svo lengi sem þeir séu bara nógu kraftmiklir.
Í meðfylgjandi myndbandi, sem er frá 1989, fer hann á partamarkað fyrir gamla Top Gear. Í raun er ekki að sjá að hann hafi breyst neitt á þeim 24 árum sem eru liðin síðan, þó svo að hann líti reyndar dálítið út eins og persóna í sápuóperu. Þökk sé krullum og sminkunum hjá BBC.
Þar fyrir neðan er svo brot úr heimildarmynd BBC sem fjallar um upphaf Top Gear-þáttanna. Þar er meðal annars talað við fyrsta stjórnanda þeirra, Angelu Rippon, sem stýrði tveimur seríum frá 1977.