Ný kynslóð Mercedes-Benz S-Class hefur verið kynnt til sögunnar með enn meiri búnaði og þægindum. Eftir miklar vangaveltur, spádóma, njósnamyndir og leknar myndir þá hefur Mercedes Benz loksins kynnt nýja kynslóð af S-Class sem byrjað verður að selja í haust sem 2014 árgerð. Þó að nýir bílar séu kynntir reglulega þá er ekki oft sem álíka mikill spenningur myndast. Ástæðan fyrir þessum mikla spenningi er líklega sá að S-Class er ekki bara einhver bíll heldur flaggskip eins stærsta lúxusbílaframleiðanda heims og sá bíll sem hefur svo oft áður verið leiðandi í lúxusbílageiranum. Það er því líklegt að þær nýjungar sem líta dagsins ljós í nýjum S-Class verði fáanlegar í ódýrari bílum eftir áratug eða svo.
Að utan deilir nýr S-Class nokkrum sportlegum línum með Mercedes Benz CLS og frá sumum sjónarhornum sést vottur af E-Class. Það er því fjölskyldusvipur á bílnum en samkvæmt stjórnarformanni Daimler AG, en þeir eiga Mercedes Benz, var ákveðið að í staðinn fyrir að einblína á öryggi, fegurð, kraft, nýtni eða þægindi að gera það besta á alla vegu því annars væri bara hægt að sleppa því. Endurspeglar það hugsunarháttinn hjá Mercedes Benz en það kemur einnig fram í slagorði fyrirtækisins, „the best or nothing“ sem á íslensku myndi útleggjast sem „það besta eða ekkert“.
Að utan er nýr S-Class örlítið lengri en sá sem nú er fáanlegur, 1,8 cm hærri og um það bil 2,5 cm breiðari. Að innan munu farþegar njóta þessarar auknu stærðar og er bíllinn rúmbetri á alla vegu. Má þar nefna að lofthæðin eykst um allt að tólf millimetra og farþegar hafa meira pláss fyrir axlir og hendur. Það á því enginn að þurfa að vera í klessu enda væri það einkennilegt í flaggskipinu frá Benz.
Nýr S-Class verður fyrsti bíllinn í heiminum sem ekki verður fáanlegur með eina einustu ljósaperu sem staðalbúnað. Mercedes Benz ætlar alfarið að skipta yfir í LED ljósatækni og er S-Class fyrsti bíllinn sem gerir það. Margir bílaframleiðendur hafa verið að taka skref í átt að LED ljósum undanfarin ár en enginn hefur ennþá farið alla leið í þeim efnum eins og Mercedes Benz gerir nú; æ fleiri bílaframleiðendur munu þó eflaust gera það á næstu árum.