Samkeppnin á milli stærstu lúxusbílanna er mjög hörð þessa dagana, kaupendur þeirra eru kröfuharðir enda setja þeir sem nemur tugum milljóna króna í bílana. BMW ætlar sér ekki að dragast aftur úr í þessum slag þar sem mikið er í húfi og hefur sent frá sér smáupplýsingar um næstu kynslóð af 7-línunni.
Næsta kynslóð af 7-línunni mun að öllum líkindum ekki verða frumsýnd fyrr en undir lok ársins 2015. Ástæðan fyrir því að BMW sendir þessar upplýsingar frá sér núna er líklega sú að BMW vill draga örlítið af athyglinni til sín. En hún hefur öll verið hjá stærsta keppinautnum, Mercedes Benz, síðan hann kynnti nýjann S-Class. BMW 7-línan og Mercedes Benz S-Class keppa í sama flokki.
Samkvæmt upplýsingunum sem BMW gaf út þá mun nýja 7-línan fá nýjan undirvagn sem mun með hjálp áls og koltrefja verða mun léttari en á núverandi bíl. Ekki er ráðgert að 7-línan minnki en þó mun hún verða svipuð 5-línunni að þyngd þrátt fyrir að vera ennþá töluvert stærri.
Í sömu upplýsingum kom einnig fram að 7-línan mun áfram vera fáanleg með sex, átta og tólf strokka vélum. Þær munu að öllum líkindum verða bæði kraftmeiri og eyðslugrennri en vélarnar í dag.