Rannsóknirnar skila okkur skýringum

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn við slysabíl í rannsókn á Selfossi. Fólksbílar …
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn við slysabíl í rannsókn á Selfossi. Fólksbílar eru rannsakaðir á lögreglustöðinni en þeir stærri á slökkvistöðinni eða á verkstæðum úti í bæ. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Selfossi er með í bílskúr sínum aðsetur þangað sem komið er með alla banaslysabíla af landinu, þeir mældir og rannsakaðir og niðurstöður þeirra aftur nýttar í forvarnaskyni.

„Við erum með aðstöðu hér til að taka á móti ökutækjum úr alvarlegum umferðarslysum fyrir öll embættin á landinu. Hér fer fram nákvæm rannsókn á þeim, mælingar á aflögun bílsins og öllum búnaði. Það eru skoðaðir ýmsir þættir í ástandi ökutækisins til að komast að því hvort þeir séu að einhverju leyti meðvirkandi orsakaþættir í slysinu,“ segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.

Niðurstöður fara í heildarrannsókn

Oddur Árnason segir að mælingar á aflögun bifreiðar við árekstur nýtist meðal annars til að reikna út hraða á ökutækinu þegar slysið varð. „Þeir útreikningar ásamt vettvangsteikningum fara til Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Út frá gögnunum reiknar hann ökuhraða við áreksturinn,“ segir Oddur og heldur áfram:

„Síðan fara bara allar þessar niðurstöður inn í heildarrannsókn málsins eins og önnur gögn og eru fyrir hendi í sakamálarannsókn – ef hún er til staðar – eða slysarannsókn ef engin refsiverð háttsemi hefur átt sér stað. Svo fær Rannsóknarnefnd umferðarslysa aðgang að þessu líka.“

Læra af slysunum

– Nýtast niðurstöðurnar með einhverjum hætti, til að mynda í forvarnastarfi?

„Hugsunin hjá okkur í upphafi var fyrst og fremst að tryggja að við lærðum eitthvað af þessu. Banaslys eru tilgangsleysi og það væri glapræði ef menn reyndu ekki að læra eitthvað af þeim. Á það erum við að horfa hér, að þetta sé vel og vandlega rannsakað og skili okkur einhverjum niðurstöðum og skýringum á því hvers vegna hlutirnir gerast eins og þeir gerast.“

– Rannsakið þið þá líka bíla úr öðrum slysum en bara banaslysum?

„Sé talin þörf á því í alvarlegum slysum, þó ekki hafi orðið manntjón, að rannsaka viðkomandi bíla þá fáum við þá hingað til okkar, já. Til dæmis bæði ef um er að ræða ofsaakstur eða mikla áverka á fólki.“

10 til 20 bílar á ári

– Hve margir eru rannsakaðir á ári?

„Það eru milli 10 og 20 bílar sem rúlla hér í gegn á ári. Skoðun og rannsókn á þeim er að mestu í höndum Snorra Konráðssonar bíltæknifræðings. Hér hefur einnig tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins svo og önnur lögreglulið aðgang að bílunum og sérfræðingar sem þau vilja kalla til í hverju tilviki fyrir sig. Þess vegna getur fjöldi manna komið að rannsókn á einum og sama bílnum.“ Oddur segir Selfosslögregluna leggja húsnæðið og verkfærin til rannsóknanna. „Svo höfum við umsjón með því að þetta gangi allt saman eins og það á að gera. Síðan koma sérfræðingar til vinnunnar, eins og þeir eru tilnefndir til.“

Rannsóknir í stöðugri þróun

– Það fer mikil vinna í hvern bíl?

„Vinna við einn og sama bílinn getur verið gríðarleg, já. Við erum vel í stakk búnir hér til að rannsaka smærri bíla en höfum svo verið svolítið upp á náð og miskunn annarra komnir með stærri bíla. Við höfum til að mynda fengið inni með fólksflutningabíla og vörubíla hjá slökkviliðinu hérna beint á móti okkur. Og eins hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Þeir hafa hjálpað okkur mikið, eru með vörubílaverkstæði og höfum við fengið að nýta þá aðstöðu.“

Oddur segir þessar rannsóknir séu í stöðugri þróun. Þær komu til eftir að Rannsóknarnefnd umferðarslysa hafði gert athugasemdir við, að rannsóknum á ökutækjum í alvarlegri umferðarslysum væri ekki sinnt nægjanlega.

„Ég held að þessi mál séu núna komin í þann farveg, að með þessum rannsóknum sem hófust hér á Selfossi árið 2009 séu þau á flestum stöðum á landinu orðin til fyrirmyndar.“

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: