Hestafl á hvert kíló

1.400 hestöfl, 1.400 kíló. Með ökumanni.
1.400 hestöfl, 1.400 kíló. Með ökumanni.

Sænski ofurbílaframleiðandinn Koenigsegg er algjörlega í sérflokki þegar kemur að hönnun hraðskreiðra bíla. Fréttir herma að þessa dagana sé í hönnun nýr Koenigsegg sem hefði hið fullkomna hlutfall, eitt hestafl á hvert kíló.

Eins og allir sem sáu myndböndin um smíði Agera R sportbílsins vita er Koenigsegg full alvara með að gera bíla sína eins fullkomna og hægt er.

Nýi bíllinn, sem er kallaður Koenigsegg One:1, verður með 1.400 hestafla V8 mótor (sem er fréttnæmt í sjálfu sér) og mun vega 1.400 kg. En þá er ekki verið að tala um þurrvigt, heldur með olíu, eldsneyti, rúðupissi og öllu klabbinu. Og meira að segja bílstjóra!

Gert er ráð fyrir að hámarkshraði bílsins verði 450 km/klst, sem væri líklega heimsmet. Þegar svona tryllitæki er annarsvegar hefur 0-100 tími ekkert að segja, heldur er stokkið beint í 0-200 km/klst, en Koenigsegg segir að sá tími verði sá besti í heimi.

Og 0-300 km/klst tíminn.

Og 0-400 km/klst tíminn líka. Eftir því sem verkfræðingar Koenigsegg segja verður bíllinn rétt um 20 sekúndur frá kyrrstöðu í 400 km hraða á klukkustund. Hugsaðu aðeins um þá tölu. Hugsaðu svo um 0-100 km tímann á bílnum þínum. Hugsaðu svo aftur: „20 sekúndur frá kyrrstöðu í 400.“ 

Ef þig er farið að langa í svona bíl verður þú líklega fyrir vonbrigðum, því þó að frumgerðin verði ekki tilbúin fyrr en á næsta ári er þegar búið að selja alla sex bílana sem verða smíðaðir.

Verðið fæst ekki uppgefið, segir í frétt GT spirit, en það mun vera töluvert hærra en á Agera S.

Notaður slíkur bíll var nýlega seldur í Singapúr fyrir um 500 milljónir króna, svo líklega eru allir sem á annað borð hafa efni á One:1 þegar búnir að tryggja sér eintak.

mbl.is