Litbolti (e. paintball) er skemmtilegt tómstundagaman. Sérstaklega ef þú ert á 550 hestafla skutbíl að keppa á móti hlaupandi manni.
Í nýlegri auglýsingu fyrir Audi RS6 er það enginn annar en Ben Collins sem fær að prófa einmitt það, en Collins er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem andlitslausi ökuþórinn „The Stig“ í sjónvarpsþáttunum Top Gear, þó svo að hann eigi að baki margbrotinn kappakstursferil sem spannar á annan áratug.
Á móti Collins, í strigaskóm og jogging-galla, er svo fyrrverandi fimleikastjarnan og núverandi „freerunning“-meistarinn Damien Walters.
Hvor um sig fær 24 egg, sem fyllt eru með málningu, og svo hefst leikurinn.
Eins og sést vel í myndbandinu eru mennirnir báðir í heimsklassa á sínu sviði, en umfram allt er þó skemmtilegt að horfa á þá kasta eggjum hvorn í annan.
Litboltaþemað er þó ekki alveg nýtt af nálinni hjá Audi, því RS4, litli bróðir RS6, fékk líka litboltaauglýsingu, þó enginn „Stig“ hafi verið í henni.
Auglýsingarnar eru báðar hér að neðan.