Sjálfkeyrandi bílar raunhæfur möguleiki?

BMW bílaframleiðandinn er langt kominn með sjálfkeyrandi bíl og hefur …
BMW bílaframleiðandinn er langt kominn með sjálfkeyrandi bíl og hefur fengið leyfi til að prófa hann á sérstökum hluta þjóðvegakerfis Þýskalands.

Hugtakið um sjálfkeyrandi bíla hefur verið til í nokkurn tíma og gegnum tíðina hafa bílahönnuðir reynt ýmislegt í þá veru.

Þar varðaði General Motors veginn til að byrja með, en fyrsti sjálfkeyrandi bíllinn var sýndur á heimssýningunni 1939, en hann notaðist við víra sem búið var að koma fyrir í malbikinu. Þannig voru líka næstu bílar frá GM, og reyndar Citroën líka. Fyrsti sjálfkeyrandi bíllinn sem var tölvustýrður og keyrði án utanaðkomandi aðstoðar var frá Mercedes-Benz en það var árið 1980. Flestir eru þó ekki á því að bíllinn eigi að vera einhverskonar lestarkerra þar sem öll ánægjan sem fylgir því að eiga bíl er þá að horfa út um gluggann. Það er þó ekki fyrr en á allra síðustu árum sem fram hafa komið bílar frá framleiðendum sem uppfylla flest það sem slíkir bílar þurfa til að virka. Þeir geta virkað eins og venjulegir bílar allra jafna en þegar þeir eru komnir út á hraðbrautir eða vegi sem hannaðir eru fyrir sjálfkeyrandi akstur tekur aksturtölvan við stjórninni. Vegurinn þarf þá að uppfylla staðla um vegrið og rétta gerð málningar og yfirborðs.

Sjálfkeyrandi bílar í þróun

En hvað er að gerast í málum sjálfkeyrandi bíla núorðið? Framleiðendur hafa á síðustu árum sett mikið af búnaði í bíla sína sem gera sjálfkeyrandi akstur auðveldari. Má þar nefna radarstýrða skriðstilla, akreinavara, búnað sem bakkar bílum í stæði og svo mætti lengi telja. Margir framleiðendur eru langt komnir í þróun sjálfkeyrandi bíla og sumir þeirra líta á þróun þeirra sem eðlilegt framhald á þróun bifreiða í framtíðinni. BMW hefur hannað sjálfkeyrandi 5-línu bíl og keyrt hann yfir 10.000 km á sérstaklega merktum hluta þjóðvegakerfis Þýskalands. Hátæknifyrirtækið Google hefur verið þó verið sýnu duglegast að prófa svona bíla og hefur Prius-bíll frá því runnið um þjóðvegakerfi Nevada síðan í maí 2012, en þar hefa verið samþykkt lög sem leyfa akstur sjálfkeyrandi bíla. Bílaframleiðendur eru þó ekki allir á sömu línu. Sherryl Connelly hjá Ford segir að of margir þættir muni hafa áhrif, borgarskipulag, pólitík, almenningsálit og fleira svo að stefna Ford sé að koma með hjálpartæki til aksturs en ekki hanna bíla sem keyra alveg sjálfir. Audi hefur hannað búnað í bíla sína sem lætur bílinn finna sér bílastæði eftir að ökumaður fer úr honum. Forstjóri Nissan, Carlos Ghosn, hefur þegar tilkynnt að þeir komi með sjálfkeyrandi bíl á markað fyrir 2020, en nú þegar er fjöldi sjálfkeyrandi Nissan Leaf-bíla í þróun. Spurning er hvor komi til með að græða fyrst á sjálfkeyrandi bílum, bílaframleiðendur eða afþreyingariðnaðurinn.

Munum við treysta þeim?

Ekki eru þó allir á því að sjálfkeyrandi bílar séu af hinu góða en samkvæmt könnunum hefur 81% fólks áhyggjur af hökkurum. Bílslys kosta Bandaríkin 450 billjónir dollara á ári og sjálfkeyrandi bílar sem lenda ekki í slysum gætu sett mörg tryggingarfélög á hausinn. Sjálfkeyrandi bensín- eða dísilbílar munu líka spara eldsneyti og menga minna. Flutningafyrirtæki í Japan rekur fjóra stóra trukka með tengivagna með einum bílstjóra. Með tölvubúnaði sem stýrir því að bílarnir haldi alltaf stuttu bili á milli sín spara þeir 15% meiri olíu en ef einn bíll er á ferðinni þar sem sá fremsti sér um að kljúfa vindinn fyrir þá sem á eftir koma. Spurningin er hvernig bílar sem keyra sjálfir geta keyrt án þess að gera nokkru sinni villu. Hvað gerir sjálfkeyrandi bíll ef köttur hleypur skyndilega í veg fyrir hann? Keyrir hann yfir köttinn eða framan á bílinn sem kemur úr gagnstæðri átt? Hvað gerir bíllinn sem er um það bil að skipta um akrein þegar mótorhjól kemur skyndilega milli akreina? Það eru fyrst og fremst þessar spurningar sem bílaframleiðendur þurfa að svara áður en sjálfkeyrandi bílar verða að veruleika, því tæknin til að gera þessa hluti er þegar til staðar. Spurningin er bara hvenær við treystum henni nógu mikið til að framkvæma þessa hluti fyrir okkur. njall@mbl.is

Prius bíll Google hefur ekið síðan í fyrravor á eigin …
Prius bíll Google hefur ekið síðan í fyrravor á eigin vegum um þjóðvegi Nevada-ríkis í Bandaríkjunum. Tæknin telst komin til að vera.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: