Segir pytt í bílasafni vera samsæri

Ljósmynd úr pyttinum sem opnaðist undir Corvette-safninu í Green Bowl.
Ljósmynd úr pyttinum sem opnaðist undir Corvette-safninu í Green Bowl.

Fyrir um mánuði opnaðist pyttur undir Corvette-safninu í Bowling Green í Kentuckyríki Bandaríkjanna. Pytturinn gleypti átta bifreiðar ... eða gerði hann það kannski ekki?

Samsæriskenningasinnar hafa nú skellt í eina kenningu um atburðinn, og telja að hann sé sviðsettur til að safna fjárframlögum til safnsins.

Fréttir bárust af atburðinum hinn 12. febrúar, þar á meðal á mbl.is. Myndbönd úr öryggismyndavélum, ljósmyndir og upptökur úr flygildismyndavélum hafa verið birtar af pyttinum, bílunum og björgun þeirra úr honum. En til eru þeir sem segja öll þau gögn vera fölsuð og að um sviðsetningar með leikföngum sé að ræða.

Í meðfylgjandi myndbandi er það Youtube-notandinn Zurnmusic sem fer yfir helstu ástæður þess að hann telur pyttinn vera gabb. Hann fer ekki leynt með að honum finnst hugmyndin í heild sinni fáránleg, og að gríðarlega illa sé að sviðsetningunni staðið.

Helstu rök hans, sem talin eru upp í myndbandinu, eru sem hér segir:

1. Fyrstu myndir af pyttnum eru „augljóslega“ falsaðar. Gólfið í safninu lítur út fyrir að vera úr pappír og frauðplasti og bílarnir augljóslega leikfangabílar.

2. Á leikfangabílasíðu á netinu er hægt að kaupa bíl sem lítur út eins og einn bíllinn í pyttinum.

3. Hálfgegnsær plastdúkur var hengdur upp í bílasafninu, til að „fela“ pyttinn.

4. Myndband úr öryggismyndavél, sem sýnir pyttinn opnast, er „augljóslega“ falsað (án frekari rökstuðnings).

5. Myndband úr flygildismyndavél, sem flýgur ofan í pyttinn, „lítur ekki rétt út“. Bílarnir minna um of á leikfangabíla, Hollywood býr yfir tæknibrellum sem gætu búið svona myndband til.

6. Í flygildismyndbandinu er einn bíllinn á kafi í mold, en Zurnmusic telur ólíklegt að í slíkum pytti sé næg mold til að hylja bíl. 

7. Bílar sem eru lengra í burtu frá myndavélinni eru of litlir.

8. Engar rúður sjást brotnar, eða yfirbyggingar beyglaðar.

9. Youtube-notandinn Russianvid (sem virðist búa til margar samsæriskenningar á dag) segir líka að þetta sé gabb.

Samsæri eða grín frá upphafi?

Þrátt fyrir langan lista af „rökum“ eru fáir sammála Zurnmusic, enda auðvelt að finna betri myndir og myndskeið á netinu en þær sem hann notar í myndbandi sínu. Þar má meðal annars sjá skemmdir á bílunum, brotnar rúður og fleira.

Sjá til dæmis hér, hér, hér, hér og hér.

Í athugasemdum við myndbandið skín í gegn að fæstir eru tilbúnir til að kyngja kenningunni um að pytturinn sé samsæri, eða jafnvel að hann sé ekki til. 

Zurnmusic er til dæmis bent á að til eru betri myndbönd úr flygildinu, þar sem skemmdir bílanna sjást betur, og að auðveldast væri fyrir hann að sannreyna kenningu sína með því að heimsækja safnið. Einhverjir benda líka á að líklegast sé að Zurnmusic sé að grínast og trúi ekki sjálfur að um samsæri sé að ræða, svo fáránleg séu rök hans.

Myndbandið með samsæriskenningunni er hér fyrir neðan. Dæmi nú hver fyrir sig.

mbl.is