Breytt vélarhljóð samningsbrot?

mbl.is/afp

Vegna mikilla reglubreytinga fyrir nýhafið tímabil í Formúlu 1 keppa allir bílar nú með 1,6 lítra V6-vélar með forþjöppu, í stað 2,4 lítra V8 sem notaðar voru 2006-2013. 

Eins og gefur að skilja er vélarhljóð í bíl með minni vélina töluvert frábrugðið því sem áður var. Í stað skerandi öskurs, sem mældist 145-147 desíbel (litlu lægra en að standa við hátalara á stórum rokktónleikum), gefa nýju vélarnar frá sér mun lágværara og dýpra hljóð.

Einhverjir gætu haldið að það væri jákvætt, með tilliti til hljóðvistar, en sannleikurinn er sá að Formúlu 1-aðdáendur mæta á keppnir fyrir upplifunina, og stór hluti hennar síðustu ár hefur verið hið einstaka hljóð.

Einn aðdáandi orðaði það þannig: „Það er eitthvað rangt við Formúlu 1 án hávaða. Eins og að hlusta á Metallica-tónleika með eyrnatappa.“

Annar áhorfandi, sem var á kappakstrinum í Melbourne um helgina, var hins vegar hrifinn af nýja hljóðinu: „Persónulega dýrka ég nýja hljóðið, hljómar eiginlega eins og býflugur hefðu notið ásta með Indy-kappakstursbíl.“

En þó að áhorfendur séu ekki allir sammála telur ástralska kappaksturssambandið, sem hélt keppnina um helgina, að brotthvarf hins sígilda formúlu 1-hljóðs sé ekki það sem sambandið borgaði fyrir. Sakar það Bernie Ecclestone, og formúlu 1-nefndina hans, um samningsbrot, eftir því sem segir í frétt Yahoo Autos.

Við fyrstu sýn hljómar það kannski eins og yfirdrifin viðbrögð, en þar sem mótshaldarar borga fyrir að fá keppnina, og selja svo miða á móti kostnaði, verða þeir að vera vissir um að áhorfendum sé boðið upp á þá skemmtun sem þeir eru á höttunum eftir.

Eins og áður segir er nístandi vélarhljóð ein af stóru ástæðunum fyrir því að áhorfendur borga sig inn á kappakstur í Formúlu 1, og því hætt við að einhverjum finnist þeir hlunnfarnir eftir helgina.

Hér fyrir neðan er myndband sem ber saman hljóð úr áhorfendastúkunum í Melbourne á kappakstrinum í fyrra og nú um nýliðna helgi. Dæmi svo hver fyrir sig.

mbl.is