Humvee hættir herþjónustu

Hummvee í eigu hers Sádí-Arabíu.
Hummvee í eigu hers Sádí-Arabíu.

Eftir þrjátíu ára notkun ætlar Bandaríkjaher að hætta að nota Humvee-bíla, að minnsta kosti á átakasvæðum. 

Humvee er skammstöfun og stendur fyrir High-Mobility Multi-Purpose Wheeled Vehcile, sem á íslensku gæti verið kallað fjölhreyfanlegt margnota farartæki á hjólum. 

Sögu hans má rekja til 1979, þegar Bandaríkjaher auglýsti samkeppni um hönnun slíks farartækis. Það átti að vera með góða aksturseiginleika, bæði á vegum og vegleysum, hafa mikla burðargetu og aukna vörn gegn óbeinum skotárásum.

Alls tók 61 fyrirtæki þátt í samkeppninni, en aðeins þrjú skiluðu inn frumgerðum. Það var svo AM-General sem fékk samninginn og fyrsti Humvee-inn leit dagsins ljós 1984.

Humvee er, í raun, arftaki hins upprunalega Jeep-jeppa, sem hafði þjónað Bandaríkjaher frá 1940, enda oft kallaður Jeep á sterum.

Notagildi Humvee var þó töluvert meira og auðvelt að breyta bílnum eftir þörfum hverju sinni.

Humvee var fyrst notaður í stríði í Panama árið 1989 og í kjölfarið í Kúveit og Írak árið 1991. Eftir að hafa verið tíður gestur á sjónvarpsskjáum um allan heim vaknaði mikill áhugi á útgáfu fyrir hinn almenna borgara, og Hummerinn var fæddur.

Þá hafa aðrar þjóðir sýnt herbílnum mikinn áhuga, og alls eru um áttatíu þjóðir með Humvee-bíla í sinni þjónustu, þar á meðal Danmörk og Noregur.

Þar sem Humvee var aldrei hannaður til að vera brynvarinn hefur breyttur hernaður, til dæmis í Írak og Afganistan, kallað á miklar breytingar á bílunum, þar sem brynvörn er komið fyrir eftirá. 

Því fylgir mikil þyngdaraukning, sem hefur valdið vandræðum þar sem slitfletir, drifrás og burðarvirki bílsins er allt hannað fyrir minni þyngd.

Á næsta ári mun Bandaríkjaher byrja að minnka notkun Humvee-bíla á átakasvæðum, og nota í staðinn JLTV-bíla. Þeir fara í framleiðslu 2015 og hafa margt til brunns að bera. Eru til dæmis brynvarðir, hafa enn meira burðarþol en Humvee og allt að sex sæti, eftir útgáfum.

JLTV, arftaki Humvee.
JLTV, arftaki Humvee.
mbl.is