Eitt megavatt á hjólum

Koenigsegg One:1
Koenigsegg One:1

Nýjasta afurð sænska sportbílaframleiðandans Koenigsegg er 1.360 hestöfl (hp(M)/ps), eða slétt megavatt. Bíllinn er reyndar líka 1.360 kg og fær þaðan nafn sitt, One:1.

Í fyrra bauð Koenigsegg okkur í skoðunarferð um fyrirtækið í myndbandaseríu sem fjallaði um Agera R-bílinn. Sá var „bara“ 1.140 hestöfl.

Í nýrri myndbandaseríu fáum við að fræðast um One:1, en allir sex bílarnir sem verða framleiddir eru þegar seldir.

Það er Christian Von Koenigsegg sjálfur sem sýnir bílinn í meðfylgjandi fyrsta myndbandinu í nýrri seríu. Ólíkt sumum yfirmönnum í bílabransanum þekkir Koenigsegg bílana sína betur en sitt eigið handarbak, enda tekur hann virkan þátt í hönnunarferlinu og öllum ákvarðanatökum.

Augljós ástríða hans er smitandi og áður en áhorfandinn veit af hlustar hann af áhuga á hvernig púststúturinn er með stærstu títaníum-hlutum sem hafa verið prentaðir í þrívíddarprentara, og að flókin uppbygging forþjöppunnar hafi þýtt að einfaldast var að prenta hana líka.

Við bíðum spennt eftir næstu þáttum, en þangað til er hægt að rifja upp síðustu seríu:
Þættir um farþegarými, lakkvinnu, prófunarakstur, mótor og gírkassa.

mbl.is