Rykugur DeLorean úr fortíðinni

DeLorean DMC-12, árgerð 1981. Ekinn 300 mílur.
DeLorean DMC-12, árgerð 1981. Ekinn 300 mílur.

Eins og allir muna var DeLorean DMC-12 notaður sem tímavél í Aftur til framtíðar-kvikmyndabálknum. Það hlutverk gerði bílinn ódauðlegan, þrátt fyrir að aðeins hafi verið framleidd um 8.500 eintök af honum.

Eitt þeirra eintaka, sem hefur staðið í geymslu í 33 ár, birtist í sölusal Mike Vietro nýlega, þakið ryki. Engu var líkara en bíllinn hefði komið með tímavél frá 1981 því hann er ekki keyrður nema 300 mílur, enn með plastáklæði á sætunum og pappírsmottur á gólfinu.

Vietro, sem sérhæfir sig í sölu á Corvette-bifreiðum, fékk fastakúnna í heimsókn sem hafði áhuga á „Vettu“ frá 1966. Honum var boðið að setja annan bíl upp í, enda frægur bílasafnari.

Þegar viðskiptavinurinn sagðist eiga óekinn DeLorean þurfti Vietro að biðja hann að endurtaka sig, en lýsti svo yfir áhuga á skiptum.

Nokkru síðar birtist bíllinn á vörubílspalli, en hafði þá verið óhreyfður í geymslu í yfir þrjátíu ár. Vietro var yfir sig hrifinn og vildi eignast hann.

Eftir að hafa þrifið hann, skipt um olíu og þess háttar leit bíllinn hins vegar svo vel út að eigandinn hætti við og borgaði fyrir Vettuna með öðrum hætti, segir í frétt Autoweek.

Ef marka má heimasíðu Vietros er bíllinn þó til sölu.

mbl.is