Saga DeLorean rifjuð upp

John DeLorean stillir sér upp við bílinn - vænghurðir opnar …
John DeLorean stillir sér upp við bílinn - vænghurðir opnar upp á gátt.

Sportbíllinn DeLorean DMC-12 er líklega eitt frægasta dæmið um stórveldi í bílaiðnaðinum sem hefði getað orðið.

Hönnuður bílsins var John DeLorean sem hafði áður unnið sér góðan orðstýr vegna starfa hjá Chrysler, Packard, Chevrolet og Pontiac, en hann stjórnaði til að mynda þróun Pontiac GTO.

Í meðfylgjandi myndbandi frá Motor Trend er farið yfir sögu DeLorean og hvernig hagkvæmir fjárfestingasamningar leiddu til þess að bíllinn var smíðaður á Norður-Írlandi þó að helsta markaðssvæðið hafi verið í Bandaríkjunum.

Það var einmitt efnahagssamdráttur í Bandaríkjunum sem varð til þess að fyrirtækið lenti í kröggum fljótlega, þar sem bílasala dróst mikið saman. Einnig segir sagan að John DeLorean hafi verið leiddur í gildru af lögreglunni og verið neyddur til að samþykkja þátttöku í sýndarviðskiptum með fíkniefni.

Hann var síðar hreinsaður af ákærum en það var um seinan - fyrirtækið fór á hausinn.

Alls voru framleiddir um 8.900 bílar og fyrir andlát sitt árið 2005 hafði DeLorean uppi áform um að setja nýjan bíl, DMC2, á markað. Honum entist þó ekki aldur til þess. 

Það þarf væntanlega ekki að minna neinn á hlutverk DeLorean í Back to the Future-myndunum, þar sem slíkum bíl var breytt í tímavél.

Vegna sérstæðrar hönnunar (til dæmis vængjahurðir og bert ryðfrítt stál í yfirbyggingu) er DeLoreon vinsæll meðal safnara. Vitað er um eitt eintak á Íslandi, en þeim dúkkar líka upp við og við á ólíklegustu stöðum.

Ekki er langt síðan smíði á DMC-12 hófst að nýju, eftir að fyrirtæki keypti upp lagerinn af vara- og íhlutum úr gömlu verksmiðjunni. Það er því aldrei að vita nema við eigum eftir að sjá fleiri DeLorean bíla á götunum í framtíðinni.

mbl.is