Sá fremsti í Formúlunni

Árið 1994 gekk Senna til liðs við blálitað keppnislið Williams …
Árið 1994 gekk Senna til liðs við blálitað keppnislið Williams Renault. Myndin hér að ofan er tekin á Imolakappakstrinum í San Marínó árið 1994, rétt skömmu áður en bíll hans skall á steinvegg við Tamburello-begjuna með þeim afleiðingum að hann lést af höfuðmeiðslum. Góðu heilli hefur ekki orðið dauðsfall síðan í Formúlu 1.

Þann 1. maí næstkomandi verða liðin 20 ár frá því að einn fremsti kappakstursökumaður allra tíma, Ayrton Senna da Silva, lést í hörmulegu slysi í keppni í Formúlu 1 á Imola-brautinni í San Marínó. Senna var áhugafólki um akstursíþróttir um heim allan mikill harmdauði enda ótrúlega hæfileikaríkur og heillandi keppnismaður sem náði einstökum árangri á sínu sviði. Met sem hann setti standa enn þann dag í dag og hefur til að mynda enginn ökumaður unnið Mónakó-kappaksturinn jafnoft og Senna, eða alls sex sinnum. Þá átti hann lengi vel metið í fjölda ráspóla en það var um síðir slegið af Michael Schumacher, annarri goðsögn sem berst sem kunnugt er fyrir lífi sínu eftir skíðaslys fyrr í vetur.

Skotfljótur á toppinn

Senna fæddist þann 21. mars árið 1960 í borginni Santana, rétt utan við Sao Paulo. Eins og svo margir ökumenn sem láta að sér kveða í Formúlu 1 hóf Senna feril sinn í körtuflokki, aðeins þrettán ára gamall, og þótti þegar í upphafi geysimikið efni. Karl faðir hans var svo hrifinn af hæfileikum sonarins að hann smíðaði stráknum eigin körtu og var uppistaðan fengin úr garðsláttuvél. Vélin var ekki ýkja öflug, aðeins eitt hestafl, en mjór er mikils vísir og guttinn lét fljótlega að sér kveða og það rækilega. Árið 1977 varð hann Suður-Ameríkumeistari í Kart-kappakstri og í framhaldinu lá leiðin til Englands. Árið 1983 varð hann meistari í Formúlu 3 er hann ók fyrir West Surrey Racing liðið. Þaðan lá leiðin óhjákvæmilega í Formúlu 1 og þar ók hann í þrjú ár – eitt með Toleman-keppnisliðinu (1984), tvö með Lotus (1985-87) áður en hann flutti sig til McLaren. Það var þá sem hann náði á tindinn.

Bestur í heimi

Fyrir hjá McLaren var Frakkinn goðsagnakenndi, Alain Prost. Með tvö gríðarstór egó og botnlausan metnað innanborðs var spennustigið jafnan á yfirsnúningi innan liðsins enda urðu liðsfélagarnir undir eins hatrammir andstæðingar. Reyndist samband þeirra í sigurliði mun eldfimara en til að mynda hið kalda stríð sem geisaði milli Damons Hills og Jacques Villeneuve hjá Williams árið 1996 og hvað þá bróðurþelið sem var milli Mika Häkkinens og Davids Coulthards hjá McLaren Mercedes á árunum fyrir síðustu aldamót. Þó að yfirleitt hafi verið grunnt á því góða milli þeirra Senna og Prost hafði spennustigið engu að síður jákvæð áhrif á liðið sem bar höfuð, herðar, hné og tær yfir önnur lið í Formúlu 1 keppnistímabilið 1988. Alls unnu þeir „félagarnir“ samtals 15 af 16 keppnum ársins og unnu þannig stigakeppnina með fáheyrðum yfirburðum. Senna sigraði í átta keppnum á móti sjö hjá Prost og varð því heimsmeistari, í fyrsta sinnið af þremur. Reyndar halaði Prost inn fleiri stig á tímabilinu en sú regla gilti að ellefu bestu mótin hjá hvorum ökumanni giltu og þannig varð Senna í fyrsta sæti þegar upp var staðið.

Bræður berjast – og vel það

Ekki minnkaði keppnin milli þeirra tvímenninga í kjölfarið og árið 1989 var það Prost sem hafði betur eftir bitra keppni þar sem Senna sakaði meðal annars þáverandi forseta FIA, Frakkann Jean-Marie Balestre, um að hygla landa sínum Prost á sinn kostnað í úrskurði um sigur í Suzuka-mótinu í Japan það árið. Í kjölfarið hafði Prost fengið nóg og flutti sig um set til Ferrari fyrir keppnistímabilið 1990. Þá réðust úrslit mótaraðarinnar með áþekkum hætti, í næst-síðasta móti ársins í Suzuka, þegar bílar þeirra Senna og Prost rákust saman á 270 km/klst hraða og féllu báðir úr leik. Stigabilið á milli þeirra var 11 stig, meira en hægt var að brúa með sigri í síðasta mótinu og Senna náði því aftur heimsmeistaratigninni. Hann varði svo titilinn árið 1991 og þótti almennt sá besti í heimi.

1992 og 1993 reyndust honum erfiðari þar eð McLaren bíllinn hafði dregist aftur úr miðað við bíl Williams-Renault. Ökumenn þar á bæ urðu líka heimsmeistarar árin tvö, fyrst Nigel Mansell og svo hinn forni fjandvinur Senna, Alain Prost árið 1993. Prost lagði ökumannshanskana á hilluna sama ár sem þýddi að Senna gat gengið til liðs við Williams fyrir tímabilið 1994.

Örlagadagur á Imola

Mótið fór þó ekki vel af stað hjá Senna sem mistókst að ljúka tveimur fyrstu keppnunum jafnvel þótt hann væri á ráspól í upphafi, sem þótti fáheyrilega slappt af hans hálfu. Ákveðinn í að bæta árangurinn í þriðja móti ársins mætti hann til leiks til San Marínó með liði sínu og hugðist hefja þar tímabilið fyrir alvöru. Það fór heldur á annan veg.

Helgin byrjaði skelfilega. Í tímatökum laugardagsins missti austurríski nýliðinn Roland Ratzenberger, sem ók fyrir Simtek-Ford, stjórn á bíl sínum og ók á steyptan vegg með þeim afleiðingum að hann lést.

Það reyndist þó aðeins fyrri harmleikurinn af tveimur þá helgina því í sjálfum kappakstrinum varð bilun í stýrisbúnaði til þess að Senna ók á vegg í svokallaðri Tamburello-beygju, á rúmlega 230 km/klst. hraða og lést fáeinum augnablikum síðar.

Heimsbyggðin sá þannig harmi slegin á bak óskabarni akstursíþrótta og hvergi var harmurinn meiri en í heimalandinu, Brasilíu. Þar var þriggja daga þjóðarsorg lýst yfir enda var fráfall hans sannkallaður þjóðarharmleikur. Talið er að um 3 milljónir manns hafi komið saman í Sao Paulo til að votta honum virðingu sína. Flestir málsmetandi menn innan Formúlu 1 voru viðstaddir útför hans nema Sid Watkins, yfirlæknir FIA, og Jo Ramirez, liðstjóri hjá McLaren, þar eð þeir voru of harmi slegnir til að treysta sér. Þá var Bernie Ecclestone, alráði Formúlunnar, meinað að mæta af fjölskyldu Senna þar sem hann þótti hafa sýnt minningu meistarans vanvirðingu með því að aflýsa ekki Imola-mótinu í kjölfar slyssins.

FIA sýndi hinum föllnu köppum, eftir örlagahelgina í Imola, virðingarvott í Mónakó-keppninni í kjölfarið. Fremstu tvö stæðin á ráslínu voru höfð auð í upphafi móts – annað málað í austurrísku fánalitunum, hitt í hinum brasilísku.

jonagnar@mbl.is

Ayrton Senna og Alain Prost háðu harða keppni sín á …
Ayrton Senna og Alain Prost háðu harða keppni sín á milli og gaf hvorugur millimetra eftir. Hér eru þeir liðsfélagar hjá keppnisliði McLaren.
Ayrton Senna (nær) og Alain Prost stopp eftir samstuð í …
Ayrton Senna (nær) og Alain Prost stopp eftir samstuð í Suzuka. Háðu þeir oft harðvítugan slag og gilti einu þótt þeir væru liðsfélagar, en hér eru báðir keppendur McLaren.
Goðsögnin Ayrton Senna í litum McLaren Honda. Með liðinu varð …
Goðsögnin Ayrton Senna í litum McLaren Honda. Með liðinu varð hann þrívegis heimsmeistari í Formúlu 1 og vann þar flesta sína glæstu sigra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: